VALMYND ×

Fréttir

Árshátíðarundirbúningur

Hvað skyldi vera verið að æfa þarna? Það verður spennandi að sjá þegar þú mætir á Árshátíð G.Ö. 2024 :)
Hvað skyldi vera verið að æfa þarna? Það verður spennandi að sjá þegar þú mætir á Árshátíð G.Ö. 2024 :)

Þessa vikuna stendur yfir undirbúningur fyrir Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar. Nemndur ætla að sýna atriði á sviði og á skjá og einnig að fá gesti til þátttöku í atriðum. Það er að mörgu að hyggja og ganga æfingar og annar undirbúningur vel og erum við spennt fyrir að taka á móti gestum miðvikudaginn 20. mars klukkan 18:30. Að vanda verður foreldrafélagið með fjáröflun og selur sínar margrómuðu veitingar. 

Við hlökkum til að sjá húsið fyllast af gestum :)

 

Undanúrslit Stóru upplestrarkeppninnar

Hópur nemenda úr 7. bekk á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri, með viðurkenningar fyrir þátttöku í undanúrslitum Stóru upplestrarkeppninnar, ásama dómnenfd.
Hópur nemenda úr 7. bekk á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri, með viðurkenningar fyrir þátttöku í undanúrslitum Stóru upplestrarkeppninnar, ásama dómnenfd.
1 af 2

Í síðustu viku fóru undanúrslit Stóru upplestrarkeppninnar fram í G.Ö. Það voru 7. bekkingar frá Suðureyri, Þingeyri og Flateyri sem spreyttu sig á lestri úr bókinni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi, ljóði eftir Kristján frá Djúpalæk og loks ljóði að eigin vali. Öll stóðu þau sig með stakri príði en eftir milkla yfirlegu dómnefndar sem skipuð var Steinunni Ásu, Sigríði Júlíu og Erlu Margréti stóðu tveir verðugir fulltrúar eftir sem fara áfram í Stóru upplestrarkeppnina sem haldin verður á Þingeyri 11. apríl næstkomandi. 

Gönguskíðadagur

Þessi mynd er tekin áður en haldið var heim, gleði og vellíðan eftir góða hreyfingu.
Þessi mynd er tekin áður en haldið var heim, gleði og vellíðan eftir góða hreyfingu.
1 af 12

Við gripum góðan dag í vikunni og fórum upp í Seljalandsdal á gönguskíði en við erum svo heppin að Íþróttafélagið Grettir hefur séð um að útvega gönguskíði sem við höfum til taks í skólanum. Núna eru til skíði og skór á alla nemendur skólans. Að fara á gönguskíði er svo frábær alhliða hreyfing. Stundurm þarf að erfiða við að komast áfram og stundum rennur maður áfram áreynslulaust en alltaf þarf að einbeita sér að jafnvæginu. Frábær dagur sem gaf okkur gleði, vellíðan, góða hreyfingu, seiglu æfingu og aukið sjálfstraust.Takk Grettir fyrir að gera þetta mögulegt, takk fyrir góðar móttökur starfsmenn gönguskíðasvæðisin í Seljalandsdal. 

Skólastarf fyrstu tvo mánuði ársins 2024

100 algengustu orðin nýtum við í lestrinum til að þjálfa sjónrænan orðaforða og nefnuhraða.
100 algengustu orðin nýtum við í lestrinum til að þjálfa sjónrænan orðaforða og nefnuhraða.
1 af 10

Heil og sæl

Nú erum við komin til starfa endurnærð eftir gott vetrarfrí. Það er margt sem við erum búin að áorka á fyrstu vikum ársins 2024. Við höfum haldið vel á spöðunum í lestrarnáminu og náðum því markmiði skólans að allir nemendur myndu bæta sinn eigin árangur og enn höldum við ótrauð áfram. Í umbótaáætlun okkar er eitt markmiðanna að bæta árangur hvers og eins nemanda í lestri. Foreldraviðtöl fóru fram í upphafi febrúar. Við steingleymdum að árið 2023 hafi verið rímspyllisár og þjófstörtuðum Þorra því 19. janúar. Á Öskudaginn eru hefðirnar hjá okkur að búa til Öskupoka í byrjun dags og taka þá svo með út í bæ þegar við förum og syngjum fyrir þau sem hafa ákveðið að taka á móti okkur með góðgæti. Við erum svo heppin að skautasvellið er alveg við skólann svo við getum nýtt það í námi og frímínútum. Íþróttafélagið Grettir hefur einnig aukið við gönguskíða eignina og núna höfum við skíði og skó fyrir alla nemendur en áður vorum við með fyrir yngri nemendurna. Veturinn hefur verið okkur hliðhollur hvað varðar snjó og frost svo það er líka búið að gera snjóhús og ýmis snjólistaverk. Við hugsum líka um smáfuglana sem eiga erfiðara með að finna sér æti þegar allt er frosi. Útbúnar voru  fóðurstöðvar fyrir þá og fóru sumir með stöð heim til að fylgjast með þegar fuglarnir kæmu en aðrar  vour hengdar upp nærri skólanum. Myndir segja meira en mörg orð og verður skólastarf fyrstu mánaða ársins hér rifjað upp með myndium og skýringum við þær. 

Nemendaþing

Umræðuhringur í þnglok
Umræðuhringur í þnglok

Í síðustu viku héldum við nemendaþing í skólanum í tilefni af Degi mannréttinda barna sem er 20. nóvember ár hvert. Þetta er í fyrsta sinn sem við sem nú störfum við skólann höldum nemendaþing en áður höfum við farið með nemendur á stórt nemendaþing sem haldið var af Ísafjarðarbæ og einnig tókum við þátt í einu nemendaþingi á Suðureyri. Yfirskrift nemendaþingsins okkar var Umburðarlyndi. Vinnan á þinginu var í formi hópavinnu og voru kennarar ritarar í hópunum. Eftirfarandi spurningum  var svarað á þinginu:


1. Af hverju skiptir máli að líða vel í skólanum?
a) Hvað geta nemendur gert svo öllum líði vel í skólanum
b) Hvað getur starfsfólk gert svo öllum líði vel í skólanum?


2. Af hverju er umburðarlyndi mikilvægt í skólanum?


3. Hvernig myndar maður (býr maður til) jákvæða stemningu í skólastofunni?


Nemendaþingið gekk mjög vel og var gaman að sjá og heyra að öll tóku þátt í umræðunni. Þegar börnin voru spurð hver tilgangurinn væri með nemendaþingi, stóð ekki á svari: Til þess að raddir barna fái að heyrast. 

Þegar búið var að fara hringinn og allir hópar höfðu svarað spurningunum var tekin umræða um skólasáttmálann okkar og settar niður á blað hugmyndir að því hvað þau vilja að sé í skólasáttmála og hvaða gildi er mikilvægt að endurspegli hann. Gildi Grunnskóla Önundarfjarðar eru gleði, virðing, metnaður og ábyrgð. Von bráðar verðum við búin að koma skólasáttmálanum upp á vegg. 

Lestrarátak - Lesember

Þennan mánuðinn stendur yfir lestrarátak hjá okkur í G.Ö. og kom þá upp sú frábæra hugmynd að kalla mánuðinn lesember. Við eigum von á fullt af nýjum bókum í hús eftir helgina og er þar á meðal ein eftir nágranna okkar hana Helen Cova, bókin Svona tala ég. 

Í lesember er tekinn lestrarsprettur þar sem sami textinn er lesinn aftur og aftur og tíminn tekinn til að sjá hvað hægt er að bæta hraðann með endurtekningunni. 

100 algengustu orðin eru á veggnum í stigaganginum og virkilega gaman að fara þangað og athuga hvað maður getur verið fljótur að lesa þau. Markmiðið er að læra að þekkja þau og gera að sjónrænum orðaforða, þ.e. orð sem við þurfum bara að sjá til að lesa en ekki hljóða okkur í gegnum. Markmið með tímanum er að ná að lesa öll hundrað á innan við mínútu. 

Nemendur æfa sig einnig í að svara spurningum úr lesnum texta og auka þannig lesskilninginn. 

Safarík orð eru tekin út úr textanum og merking þeirra krufin. Safaríkum orðum er safnað á tússtöflu í anddyri.

Leitað hefur verið að upplýsingum um höfunda. Það skiptir nefnilega miklu máli að þekkja góða rithöfunda til að auðvelda val á næstu bók til að lesa. 

,,Nýyrði" Jónasar Hallgrímssonar hafa verið skoðuð og spáð í hvernig ný orð verða til og búin til ný orð á hluti sem við eigum ekki orð yfir. 

Ritun á einnig stóran þátt í lesember. Skrifaðar hafa verið allskonar sögur og fleira. 

 

Kaffihúsið verður í desember

Heil og sæl 

Við settum okkar árlega kaffihús á dagskrá í nóvember þar sem við tengjum það oftast við dag íslenskrar tungu. Núna langar okkur til að prófa að hafa kaffihúsið á aðventunni og höfum þess vegna frestað því og verður það í byrjun desember. Nánari tímasetning og dagskrá verður auglýst þegar nær dregur. 

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Öll tilbúin til að hlaupa af stað
Öll tilbúin til að hlaupa af stað
1 af 3

Á miðvikudaginn tókum við þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ og stóðum okkur öll með stakri príði, bæði nemendur og starfsfólk. Það er bara árangur nemenda sem má skrá til þátttöku og lögðu þau samanlagt 35 kílómetra að baki. Að hlaupi loknu fengu allir bleikan drykk hlaðinn orku úr ávöxtum og einnig vorum við svo heppin að yngra stigið var búið að vinna sér inn poppveislu og bauð öllum að vera með. 

Örnefnaverkefni

Hugarkort með örnefnum og öðrum fróðleik sem við komumst að í ferlinu
Hugarkort með örnefnum og öðrum fróðleik sem við komumst að í ferlinu
1 af 6

Nú er örnenfnaverkefninu okkar formlega lokið. Verkefnið hófst með umræðum um eitt orð ,,örnefni" og hefur síðan leitt okkur áfram í ýmsar áttir. Í fyrstu voru talin upp örnenfni sem nemendur þekktu og sett á hugarkort, síðan var tekin gönguferð að útsýnispallinum og skífan skoðuð gaumgæfilega og staðir miðaðir út frá henni. Við þá skoðun komumst við að því að það þarf að rétta skífuna af því við lentum ekki alltaf á réttum stað miðað við nafn á skífunni. Í framhaldi af þeirri göngu vorum við svo heppin að fá Gumba með okkur í gönguferð en hann er sérleg fróður um örnenfin í Önundarfirði. Einnig voru skoðaðar loftmyndir og kort af firðinum. Nemendur segjast hafa lært ný örnefni í þessari vinnu og einnig kunnað nokkur áður en vinnan hófst. Yngri nemendurnir lögðu lokahönd á örnefnakortin sín í dag og taka þau með heim að loknum skóladegi. Á kortunum eru myndir af nokkrum stöðum og nafnið við, að sjálfsögðu með stórum stað því þau vita að örnefni er sérnafn. Eldri nemendurnir skreyttu veggi skólstofunnar með sínum kortum og myndum.  Í sumum tilfellum er þekkt saga á bak við örnefnið en okkur fannst líka gaman að velta fyrir okkur af hverju einhver staður hefði það örnefni sem hann hefur og komu þá margar skemmtilegar tilgátur. Ein hugmyndin um Brimnes var að forsetinn hafi óttast flóð og látið vinnumenn hlaða vegg úr risastórum steinum og þá hafi Brimnesið verið nefnt. Aið fær sitt nafn af því að það er eins og bókstafurinn A og framtíð þess er talin vera sú að það verði stækkað til að auka öryggi. 

Skólafréttir

Í dag lauk Barnamenningarhátíðinni Púkinn sem staðið hefur yfir síðustu tvær vikur. Við fórum á lokahátíð sem haldin var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar fengum við að sjá brot af því sem gert hefur verið um alla Vestfirði og síðan héldu Gunni og Felix uppi fjörinu og fengu okkur til að syngja og dansa sem var mjög skemmtilegt.

Í vikunni kláruðu krakkarnir að skrifa ,,Sumarið mitt - myndir og minningar" sem eru frásagnir út frá mynd úr sumarfríinu. Sögur yngra stigisin hanga í glugga skólans þar sem gestir og gangandi geta staldrað við og lesið ein einnig var sögum frá nemendum allra grunnskólanna safnað saman á vef Púkans pukinnhatid.is/smasogur þar sem gaman er að lesa um ólíkar upplifanir frá sumrinu. 

Við fengum  Völu frá Amnesty International í heimsókn til miðstigsins og kynnti hún samtökin fyrir nemendum, hin ýmsu mannréttindaþemu og mannréttindi í víðu samhengi. 

Önnur heimsókn sem við fengum fyrir alla nemendur var frá Evu Rún Þorgeirsdóttur rithöfundi og Blæ Guðmundsdóttur teiknara en þær voru með verkefnið Svakalegar sögur sem er á vegum List fyrir alla. Þeirra innlegg var um það hvernig allir geta fengið hugmyndir og búið til sögur og hvers vegna það er mikilvægt að æfa ímyndunaraflið. Nemendur tóku þátt í að skapa sögupersónu sem fékk nafnið Rúbý AB og sömdu svo sögu hennar sem litaðist af allskyns ævintýrum.

Örnefnaverkefnið okkar varð umfjöllunarefni nemenda í frétt sem þau sendu til BB og má lesa hér Frétt frá Púkunum í Grunnskóla Önundarfjarðar . Eftir að fréttin af verkefninu birtist hafði áhugasamur heimamaður, Gumbi, samband og ætlar hann að fræða nemendur enn frekar um örnefni í nágrenninu. Það verður heldur betur spennandi að sjá og upplifa hvert þetta verkefni leiðir okkur.