VALMYND ×

Fréttir

Skólafréttir

Í dag lauk Barnamenningarhátíðinni Púkinn sem staðið hefur yfir síðustu tvær vikur. Við fórum á lokahátíð sem haldin var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar fengum við að sjá brot af því sem gert hefur verið um alla Vestfirði og síðan héldu Gunni og Felix uppi fjörinu og fengu okkur til að syngja og dansa sem var mjög skemmtilegt.

Í vikunni kláruðu krakkarnir að skrifa ,,Sumarið mitt - myndir og minningar" sem eru frásagnir út frá mynd úr sumarfríinu. Sögur yngra stigisin hanga í glugga skólans þar sem gestir og gangandi geta staldrað við og lesið ein einnig var sögum frá nemendum allra grunnskólanna safnað saman á vef Púkans pukinnhatid.is/smasogur þar sem gaman er að lesa um ólíkar upplifanir frá sumrinu. 

Við fengum  Völu frá Amnesty International í heimsókn til miðstigsins og kynnti hún samtökin fyrir nemendum, hin ýmsu mannréttindaþemu og mannréttindi í víðu samhengi. 

Önnur heimsókn sem við fengum fyrir alla nemendur var frá Evu Rún Þorgeirsdóttur rithöfundi og Blæ Guðmundsdóttur teiknara en þær voru með verkefnið Svakalegar sögur sem er á vegum List fyrir alla. Þeirra innlegg var um það hvernig allir geta fengið hugmyndir og búið til sögur og hvers vegna það er mikilvægt að æfa ímyndunaraflið. Nemendur tóku þátt í að skapa sögupersónu sem fékk nafnið Rúbý AB og sömdu svo sögu hennar sem litaðist af allskyns ævintýrum.

Örnefnaverkefnið okkar varð umfjöllunarefni nemenda í frétt sem þau sendu til BB og má lesa hér Frétt frá Púkunum í Grunnskóla Önundarfjarðar . Eftir að fréttin af verkefninu birtist hafði áhugasamur heimamaður, Gumbi, samband og ætlar hann að fræða nemendur enn frekar um örnefni í nágrenninu. Það verður heldur betur spennandi að sjá og upplifa hvert þetta verkefni leiðir okkur. Barnamenningarhátíðin Púkinn komin í gang

Næstu tvær vikurnar hefur Barnamenningarhátíðin Púkinn heilmikil áhrif á skólastarfið hjá okkur. Við tökum þátt í allskonar verkefnum tengdum hátíðinni. Nemendur miðstigsins verða í fjóra daga á Þingeyri og Hrafnseyri og vinna þar að verkefninu Krakkaveldið sem snýst um að hanna Barnabæinn og svara spurningunni Hvernig væri heimurinn ef börnin réðu öllu? Þessu verkefni lýkur með sviðslistaverki á Hrafnseyri á fimmtudaginn kl 12:30 og hvetjum við ykkur til að líta þar við. 

Við ætlum að læra dansspor hátíðarinnar sem Sigga Soffía danshöfundur hefur samið og vonandi setjum við inn myndband af okkur dansa það í fallegasta umhverfi veraldar, Önunarfirði. 

Við ætlum að taka þátt í að skrifa smásögu, minningu frá sumrinu og ná að leggja okkar af mörkum í safn mynda og minninga. 

Unglingurinn í skólanum fer á Ísafjörð og tekur þátt í smiðjunni Listsköpun með gervigreind. 

Við ætlum að vinna verkefni tengt örnefnum.  Skrifa sögu tengda örnefninu og útbúa kort sem leiðir gesti að sögunni.

Við fáum heimsókn frá List fyrir alla, Listasmiðjuna Svakalegar sögur. 

Ótengt Barnamenningarhátíð koma samtökin Amnesti International einnig í heimsókn á þessu tímabili með fræðslu fyrir eldri hópinn okkar. 

Við munum skirfa eina frétt frá skólastarfinu og fá hana birta í BB. 

Við förum á Lokahátíð Púkans sem verður haldin í Edinborgarhúsinu og í Bolungarvík. 

Það verður líf og fjör í skólastarfinu okkar að vanda og tökum við Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum fagnandi og nær hún vonandi að festa sig í sessi. Við öll sem komum að henni munum læra heilmikið á þessari hátíð sem fór frekar bratt af stað á haustdögum en er orðin full af metnaðarfullum viðburðum. 

Að lokum vil ég setja hér linkinn á hátíðina sem ég hvet ykkur til að skoða vandlega því það er svo margt frábært í boði utan skólatímans og um að gera að velja viðburði eftir áhugasviði:  Púkinn barnamenningarhátíð (pukinnhatid.is)

 

Það er Vestfjarðastofa sem leiðir verkefni í samstarfi við alla grunnskólana og menningarstofnanir á Vestfjörðum. Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði. 

Skólastarfið komið á fullt skrið

Flaggað fyrir 121. skólasetningu Grunnskóla Önundarfjarðar.
Flaggað fyrir 121. skólasetningu Grunnskóla Önundarfjarðar.
1 af 7

Nú er skólahald komið á fullt skrið hjá okkur og margt skemmtilegt framundan. 

Skóli var settur mánudaginn 21. ágúst og í framhaldinu voru haldnir fundir með nemendum og foreldrum. 

Talsverður stöðugleiki er í starfsmannahópnum og eru Sunna og Jóna að hefja sitt sjötta ár við skólann, Agata, Mekkín og Viktor sem öll eru í hlutastarfi eru að hefja sitt annað starfsár og Sigríður Anna bættist í hópinn nú í ágúst en hún hefur stýrt leikskólanum Grænagarði undanfarin tvö ár. 

Fyrri vikan einkenndist af útikennslu og lék einstaklega gott veður þar stórt hlutverk. Hinn árlegi göngudagur var í þeirri viku og var hann nýttur í berjamó í skógræktinni. Á heimleiðinni fóru margir í fjöruna og sáu þar margt merkilegt. Umhverfi skólans var rannsakað vel og eru þar ýmis smádýr sem áhugavert var að skoða og fræðast um. 

Íþróttir eru kenndar úti enn sem komið er en hefð er fyrir því að vera með útiíþróttir út september. Sundkennslan er einnig hafin. 

Einn nemandi er á unglingastigi og sækir hann tíma í valgreinum einu sinni í viku á Ísafjörð. 

Steinunn Ása kom til okkar fyrir hönd Vestfjarðastofu og kynnti fyrir okkur Barnamenningarhátíð Vestfjarða. Kosnign fór fram um nafn á hátíðina og urðu niðurstöður þær að nafnið Púkinn varð fyrir valinu. 

Tveir nemendur fóru ásamt starfsmanni í skólabúðir UMFÍ á Reykjum í Hrútafirði og skiluðu sér alsælir heim í gærkvöld eftir frábæra daga þar, búnir að kynnast fjölda jafnaldra af Vestfjörðum. Einn nemandi fer svo í fermingarbúðir í Vatnaskógi í næstu viku. 

Við höfum áreiðanlegar heimildir fyrir því að fljótlega verið boðið upp á starf í félagsmiðstöðinni fyrir unglinga á ný. Í fyrra sendu nemendur á miðstigi póst til Sviðsstjóra skólasviðs með fyrirspurn um möguleikann á að þau fái að komast í félagsmiðstöð og verður gaman að sjá hvernig hægt verður að útfæra starfið þegar það hefst. 

Nokkrar myndir úr skólastafinu birtast hér með og segja meira en mörg orð. 

 

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar fer fram í sal skólans mánudaginn 21. ágúst kl. 10:00. 

Að setningu lokinni fara nemendur og foreldrar með umsjónarkennurum í bekkjarstofur.

Einstaklingsviðtöl nemenda á yngsta stigi fara fram í vikunni 21. -25. ágúst og er foreldrum bent á að bóka tíma á mentor. 

120 skólaslitin

Nemendur og starfsfólk á leið í veiðiferð í upphafi skólaárs 2022.
Nemendur og starfsfólk á leið í veiðiferð í upphafi skólaárs 2022.

Á morgun fimmtudaginn 1. júní kl 17:00 fara fram 120. skólaslit skólans okkar. Verða þau með hátíðlegum brag og boðið upp á kaffi og köku. Nemendur spila á hljóðfæri og lesa upp sögu. Hlökkum til að sjá sem flesta gesti. 

Plokkdagurinn

Allt rusl sem við sáum var plokkað upp
Allt rusl sem við sáum var plokkað upp
1 af 4

Plokkdagurinn

Í þessari viku var umhverfisvika hjá okkur í Grunnskóla Önundarfjarðar. Við fórum í fjöruna og tíndum upp rusl og flokkuðum það. Við tíndum líka rusl í kringum skólann, sundlaugina og við ærslabelginn. Það var skemmtilegt úti og svo fengum við kakó. Á sunnudaginn verður Stóri plokkdagurinn og hvetjum við ykkur öll til að sækja ykkur poka við Vagninn kl 11:00 á sunnudagsmorguninn og skila honum fullum af rusli við glergáminn við sundlaugina. Það er mikilvægt að tína upp rusl til að það verði fínt og snyrtilegt í umhverfinu okkar og svo dýrin borði ekki ruslið. Öll ættu að reyna að koma því að það verður gaman, kannski fáið þið líka kakó ;)

Frétt skrifuð af miðstigi Grunnskóla Önundarfjarðar

Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar 2023 og Sílaball

Æft á sviði
Æft á sviði
1 af 3

 Árshátíðin okkar verður haldin í húsnæði grunnskólans miðvikudaginn 29. mars kl 17:00. Þemað er lífríki jarðar og hafa nemendur og starfsmenn útbúið skemmtilega leikþætti í anda þess sem verða sýndir á tjaldi og á sviði. 

Foreldrafélagið selur veglegar veitingar á sanngjörnu verði svo enginn þarf að elda kvöldmat heima, 1.500 krónur fyrir fullorðna. Börn á leik og grunnskólaaldri fá frítt. 

Þegar skemmtiatriðum lýkur höldum við gleðinni áfram til kl 19:30 með dansi, söng og leik en það er hin ævaforna hefð hér að halda Sílaball fyrir yngri kynslóðina. 

Við hlökkum til að sjá foreldra, afa og ömmur og aðra ættingja auk annarra velunnara skólans á Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar 2023. 

Fréttir af skólastarfi - 24. mars 2023

Fiskar- lífríkið
Fiskar- lífríkið
1 af 11

Í vikunni hafa nemendur og starfsfólk unnið af kappi að undirbúningi árshátíðar en hún fer fram í húsnæði skólans miðvikudaginn 29. mars frá kl 17:00. Sílaballið er gömul hefð sem við höldum í og heldur skemmtunin því áfram að loknum skemmtiatriðum fram til 19:30 með dansi, söng og leik. 


Foreldrafélagið selur veglegar veitingar á sanngjörnu verði og mun ágóðinn renna í eitthvað skemmtilegt fyrir krakkana. 


Hér læt ég nokkrar myndir af undirbúningi fylgja með en þar sést hversu fjölbreytt nám er að baki einnar árshátíðar. 


 


Bestu kveðjur og góða helgi 


Sunna

Fréttir af fjölbreyttu skólastarfi 3. mars 2023

Hér verða verkefnin sýnileg
Hér verða verkefnin sýnileg
1 af 3

 Í hverri viku senda umsjónarkennararnir metnaðarfullan vikupóst til foreldra þar sem farið er yfir það helsta sem hefur einkennt námið þá vikuna. Þemað sem báðir hópar eru að vinna með núna er lífríki jarðar en til að upplýsa ykkur betur byggi ég þessa frétt á póstum umsjónarkennaranna: 

Af yngra stiginu er þetta helst í fréttum:

Í þessari viku höfum við verið að vinna með lífríki jarðar-dýr. Þau völdu sér öll eitt dýr og fundu upplýsingar um það. Í stærðfræði erum við að vinna með mælingar og höfum við verið að mæla bæði úti og inni. Við munum samþætta þá vinnu með dýraverkefninu og mæla hæð okkar og svo hæð dýranna. Það verður skemmtilegt að komast að því hvað dýr eru minni en við og hvaða dýr stærri. Spurning hvort að öll dýrin komist inn í skólann? :)
Við hlóðum líka niður nokkrum dýraleikjum inn á I-pad og eitt þeirra var á dönsku, DR naturspillet og vakti það mikla lukku.  Við unnum með ritun og æfðum okkur í að skrifa litlu stafina. Mjög metnaðarfullir og duglegir krakkar.
Veðrið hefur leikið við okkur hefur uppáhalds leikurinn þessa vikuna verið að drullumalla.

Af miðstiginu er þetta helst í fréttum: 

Í þessari viku höfum við verið að æfa okkur í framburði og upplestri. Einnig höfum við tekið góðan tíma í vélritunaræfingar. Í íslensku höfum við verið mikið í ritun, einnig lærðum við um og bjuggum til okkar eigin hækur. Í stærðfræði erum við búin að læra tölfræði á fjölbreyttan hátt. Í ensku, dönsku og náttúrufræði höfum við verið að læra um lífríkið og þá sérstaklega dýr. Öll völdu sér dýr og fundu upplýsingar um það. Við héldum áfram í miðlalæsi í vikunni og ræddum um aldurstakmörk á samfélagsmiðlum. Í smíðum eru þau að smíða kassabíla, en stefnt er að kassabílarallýi þegar tekur að vora. Í myndmennt héldum við áfram að vinna grafíkverk. Auk þess prufuðum við að skrifa á ritvél og fjölrita með hectographi. 

Fréttir af liðinni viku 6.-10. febrúar

Vifta eða spaðar í smíðum.
Vifta eða spaðar í smíðum.
1 af 9

Skólastarfið í Grunnskóla Önundarfjarðar ber ávallt merki fjölbreytni og áskorana. Nálgunin er gjarnan í gegnum verklega vinnu og leik en með þeim hætti skila vísindin sér jafnvel enn betur.

Það sem fyrst og fremst stendur upp úr í vikunni er án efa Hebocon GÖ, sem er eins konar súmóglímu-vélmennakeppni. Á þriðjudaginn tíndu nemendur miðstigs saman allskyns rusl og dót sem talið var henta vel til vélmennagerðar. Allur miðvikudagurinn fór svo í skissugerð, vélmennasmíði og almenna tilraunastarfsemi. Vélmennasmiðjunni lauk svo á fimmtudagsmorguninn með æsispennandi keppni. Allir nemendur stóðu sig með prýði alla vikuna og fengu þau öll viðurkenningarskírteini. Að auki voru veitt verðlaun fyrir frumlegasta vélmennið, það vélmenni sem sigraði á keppnisbraut og loks það vélmenni sem virkaði verst. Öll skrifuðu þau svo skýrslu um vinnuna. 

Annað sem stendur uppúr í vikunni er að sólin lét loksins sjá sig en vanalegur dagur fyrir sólarpönnukökur á Flateyri er 25. janúar en nú sáum við hana fyrst 8. febrúar og að sjálfsögðu skellti skólastjórinn sér í að steikja pönnukökur fyrir alla unga sem aldna og naut þar aðstoðar nemanda.

Og svo var jú enn einn hápunkturinn að Celebs buðu okkur öllum að koma á Vagninn og heyra þau spila. 

Við tökum með gleði á móti nemendum sem tengjast eyrinni og langar að vera með okkur í skólastarfinu. Þessa vikuna voru hvorki meira né minna en þrír slíkir á miðstiginu og því tímabundin 75% fjölgun þar. Öll tóku þau virkan þátt í öllu sem við erum að fást við í skólanum og tóku án efa skemmtilega reynslu með sér og auðguðu okkar starf sömuleiðis. 

Næsta vika verður stutt skólavika en nemendur verða í fríi frá miðvikudegi til föstudags (miðvikudagur er starfsdagur og fimmtudagur og föstudagur eru vetrarfrísdagar). 

Þar sem vetrarfríið er í næstu viku verður sú nýbreytni að öskudagurinn verður skóladagur og munum við skipuleggja hann eins og slíkum degi sæmir.