VALMYND ×

Föstudagsfréttir úr G.Ö.

Nemendur í lestarferð á nýju stólunum.
Nemendur í lestarferð á nýju stólunum.
1 af 2

Það hefur margt áunnist í skapandi skólastarfi grunnskólans þessa vikuna. 

Yngsta stigið hefur unnið áfram að verkefni um Goðahól og hlakka þau mikið til að geta sýnt  afraksturinn.

Allir nemendur skólans fóru í lesfimipróf í vikunni og strákarnir í 4. bekk tóku samræmd próf í íslensku og stærðfræði. 


Unglingastigið er búið að teikna Vestfjarðakjálkann upp á vegg og verður hann nýttur til ýmissa verkefna á öllum skólastigum. Unglingarnir eru að vinna stórt verkefni þar sem Vestfirðir eru ígrundaðir sem ferðamannaparadís og eru nemendur að gera kynningu á því. Verkefnið er samþætt inn í samfélagsfræði, íslensku, ensku og dönsku. Miðstigið er að  að merkja inn á kortið staðsetningar, bæjarnöfn og fjarðanöfn. Mikilvægt er að nemendur þekki sitt nærumhverfi og er þetta liður í því. 

Í handmennt er verið að vinna að þæfingu og munu þau listaverk fljólega skreyta glugga skólahússins. 

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur, kom í heimsókn til okkar á miðvikudaginn og átti gott spjall við nemendur á unglingastigi. Nemendur höfðu einnig hitt hann á Ísafirði á þriðjudaginn og fengu þess vegna að hafa talsverð áhrif á umræðuefnið á miðvikudeginum. Verkefni Þorgríms ber yfirskriftina ,,Verum ástfangin af lífinu" en þar leggur hann áherslu á markmiðasetningar, árangur og lífið sjálft og hvetur nemendur til að láta drauma sína rætast með því að bera ábyrgð á eigin lífi, setja sér markmið, hafa trú á sjálfum sér til að ná markmiðunum og skipuleggja sig í samræmi við það.

Þorgrímur fjallar einnig um mikilvægi þess að halda góðu jafnvægi milli einkalífs, atvinnu og tómstunda til þess að þroskast fallega og lifa björtu lífi. Þá hvatti hann nemendur til að sýna samkennd, bera virðingu fyrir öllum og hafa hugrekki til að fylgja hjartanu. Við erum öll einstök og eigum að njóta þess.

 
 

Hér erum við bjartsýn á að íþróttahúsið komist í notkun á næstu dögum og hægt verði að færa íþróttirnar undir þak í næstu viku en nánari skilaboð munu berast um það ef það tekst.

Myndirnar með fréttinni eru af hápunkti vikunnar á yngsta stigi en þau fengu nýja stóla í dag og brugðu aðeins á leik af því tilefni.