VALMYND ×

Horft til baka

Það  er búið að vera mikið um að vera hjá okkur eins og alltaf í skólastarfi Grunnskóla Önundarfjarðar. Frá því að við tókum okkur vetrarfrí um miðjan október erum við búin að taka slátur og læra þar með ýmislegt nýtt um fullnýtingu afurða sem var lífsnauðsynleg á árum áður og nauðsyn þess að við hugum enn vel að því að nýta eins vel og hægt er. Líffæri og annað sem fylgir sláturgerðinn var skoðað gaumgæfilega og margir sigruðust á því að finnast óhugnarlegt að snerta í fyrstu. 

Við erum búin að taka einn skóladag á Þingeyri með nemendum og starfsfólki þar en sá dagur var nýttur í verkefni á vegum List fyrir alla. Verkin okkar fóru síðan á sýngu á Ísafirði ásamt verkum annarra nemenda á Vestfjörðum. 

Við héldum okkar Hrekkjavöku á Vagninum þar sem okkur var boðið að njóta þess að búið var að setja hann í drungalegan búning og fengum við veitingar við hæfi, grænan drykk og popp. Þetta var mikil upplifun og las Jóna sögu sem nemendur á yngsta stigi höfðu samið og var bæði sagna og flutningur hennar með allra drungalegasta móti. 

Við erum búin að fá að gjöf frá Önfirðingafélaginu og Kvenfélaginu Brynju sýndarveruleikagleraugu sem eiga eftir að nýtast okkur vel í fjölbreyttu námi. 

Unglingurinn okkar fór til Ísafjarðar til að njóta heimsóknar Geðlestarinnar sem var á ferð um landið. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er styrkt af heilbrigðisráðuneytinu. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. 

Við settum saman gjafir ,,Jól í skókassa" og Fjölnir prestur nálgaðist þær og kom á réttan stað svo þær kæmust í tæka tíð til barna í Úkraínu sem  búa við fátækt og þurfa á þeim að halda. Við náðum að setja samna fjórar gjafir og áttum samt afgang af ýmsu sem hafði safnast saman og gátum einnig gefið barni innanlands ýmislegt sem það þarfnaðist. 

Við héldum vísindadag 10. nóvember en sá dagur er Alþjóðadagur vísinda í þágu friðar og þróunar á vegum UNESCO. Við gerðum þá margar tilraunir og ræddum um þær og hvers vegna vísindi eru mikilvæg. 

Í gær fóru svo allir nemendur skólans á Ísafjörð í fablab og fengu þar fræðslu um hvernig það virkar og hvernig QR kóðar eru búnir til. Þau komu færandi hendi með QR kóða fyrir skólann. Einnig byrjuðu þau að vinna að verkefni sem vonandi kemur ykkur fyrir sjónir fyrr en seinna. 

Auk þessa er stundaskráin full af hefðbundnum og óhefðbundnum greinum sem eru unnar með fjölbreyttum aðferðum úti og inni, kyrr eða á hreyfingu.