VALMYND ×

Októbermánuður í skólastarfinu

Nú er októbermánuður að baki og verður hér stiklað á stóru um það sem hann bar í skauti sér í skólastarfi Grunnskóla Önundarfjarðar. 

Vesfjaraðkjálka verkefnið sem var samþætt í samfélagsfræði, íslensku, ensku og dönsku hjá unglingastigi tók enda með kynningu, sem flutt var á ensku ,fyrir starfsmenn og nemendur.  Miðstigið hefur einnig verið að vinna með Vestfjarðakjálkann með ýmsum hætti. 

Yngsta stigið er enn á fullu að vinna með verkefnið Flateyrin okkar. Þau eru á fullu að búa til mynda/teiknivegg sem fer ört stækkandi. Einnig hafa þau unnið með Goðahólinn og sjá fyrir endann á þeirri vinnu í næstu viku en þá stefna þau að því að prenta út bækur með sinni sögu á bak við Goðahólinn og lesa hvert fyrir annað. 

Haldin var heljarinnar afmælisveisla þegar Erla, Silla og Zuzanna áttu afmæli með tveggja daga millibili og varð fyrir valinu að halda hana mitt á milli afmælisdaganna. Unglingastigið nýtti heimilisfræðitíma í bakstur af þessu tilefni. 

Yngri nemendurnir saumuðu sér svuntur til að nota í heimilisfræðinni og tókst vel til, engar tvær urðu eins frekar en nemendurnir sjálfir. 

Ýmsar tilraunir voru gerðar í náttúrufræðinni. Þau yngri gerðu meðal annars eldflaug þar sem matarsódi og edik var látið hvarfast saman í flösku. Mið og unglingastig var að vinna með þrýsting og gerðu ýmsar tilraunir tengdar honum. 

Engin danskennsla hefur verið þennan mánuðinn vegna þess að kennarar hafa ekki mátt kenna í tveimur skólum sama daginn. Í stað danstímanna hafa nemendur verið í verklegum tíma þar sem þeir hafa fengið að velja sér viðfangsefni og er tálgun eitt af því sem hefur orðið fyrir valinu. 

Íþróttir fóru fram utan dyra án undantekninga þó veðrið hafi verið misjafnt.  Yngstu nemendunum leiðist ekki misjafnt veður og eru í útikennslu alla miðvikudaga. I síðustu viku nýttu þau hvassviðrið til að finna kraftinn í vindinum og fylgjast með skýjunum á ferð um himininn. 

Ævar vísindamaður kom í heimsókn í gegnum fjarfundarbúnað og las upp úr nýrri bók sinni Mín eigin undirdjúp. Allir nemedndur skólans hlýddu á lesturinn og spurðu Ævar nokkurra spurninga að lestri loknum. 

Mánuðurinn endaði á heljarinnar Hrekkjavöku.  Á fimmtudaginn undirbjuggu nemendur og kennarar það sem koma skildi af miklum metnaði. Föstudagurinn hófst svo með ýmsum leikjum, fyrst feluleik meðan myrkrið var sem mest. Borðaður var grænn grautur og skreyttar muffins úr heimilisfræðinni. 

Nú tekur nóvembermánuður við með hertum aðgerðum vegna covid 19.  Starfsdagurinn sem átti að vera föstudaginn 6. nóvember verður því færður fram á mánudaginn 2. nóvember svo við getum undirbúið það sem koma skal í þeim efnum. 

Allar nánari upplýsingar verða birtar hér og á facebook síðu foreldrafélagsins jafn óðum og þær liggja fyrir.