VALMYND ×

Skólafréttir í mars

Heil og sæl

Hvar á að byrja þegar segja á fréttir af fjölbreyttu skólastarfi? 

Í síðustu viku var Steinunn Ása kennaranemi hjá okkur og fylgdist með og tók þátt í starfi á yngsta stigi með Jónu Láru. Meðal þess sem yngsta stigið hefur verið að fást við eru mynstur í stærðfræði og bjuggu nemendur m.a. til sinn eigin flugdreka. Í næstu viku verður vonandi hagstætt veður til að koma drekunum á loft. Kennsla fór einnig fram utanhúss að vanda og var farið og leitað að mynstri í umhverfinu og búnar til mandölur úr hlutum í umhverfinu. Ættartré sem nemendur hafa verið að vinna eru nú komin upp á vegg. Samvinnuverkefnið sem nú er að fara í gang á yngsta stigi er bygging Leonardo da Vince brúar. Það er sko alltaf gaman að fylgjast með framkvæmdagleðinni og öllu því námi sem á sér stað. Hvaða mannvirki birtist hér fyrir utan verður gaman að sjá. 

Á miðstiginu gengur skólastarf sinn vanagang. Þar fylgjsat nemendur áfram með fréttum, sérstaklega varðandi jarðhræringarnar á Reykjanesskaganum og tengja við námsefnið. Þau hafa einng verið að vinna út frá Heimsmarkmiði nr. 14 ,,líf í vatni" og fóru meðal annaras í vettvangsferð og tóku sýni úr sjónum á nokkrum stöðum til að mæla og skoða nánar. Sýrustigsmælingarnar voru einnig samþættar því sem þau hafa verið að vinna með mannslíkamann og ýmsir vökvar, flestir drykkjarhæfir, voru mældir og í dag sameinuðust mið og unglingastig um tilraunir með sýrustig og m.a. áhrif þess á kalk. Á unglingastiginu eru nemendur einnig að skrifa stutta ritgerð og afla sér upplýsinga um afleiðingar súrnunar hafsins 


Undirbúningur árshátíðarinnar er kominn á skrið og eru stelpurnar á unglingastigi að skrifa handritið með dyggri aðstoð Steinunnar Ásu. Í næstu viku ætlar Steinunn Ása svo að hefja hvern dag með leiklistaræfingum þar sem allur skólinn mun vinna saman. Verður þar farið í framkomu, framsögu og sitthvað fleira sem gagnast ekki síður í lífinu almennt en bara á leiksviðinu. Við hlökkum til að bæta við okkur hæfni sem hlýst af þessari reynslu. 

Sem betur fer stoppaði veður ekki ferð unglinganna á Rósaball þetta árið og var það eflaust hápunktur vikunnar hjá þeim. 

Þessari góðu skólaviku lauk með vöfflubakstri sem unglingastigið sá um og nutu allir góðs af áður en haldið var í helgarfrí að loknum hádegisverði. 

Framundan er vinna út frá Heimsmarkmiði nr. 12 ,,Ábyrg neysla og framleiðsla".