VALMYND ×

Skólastarf í ársbyrjun

Heil og sæl

Nú er allt komið í eðlilegt horf hjá okkur eftir frekar kalda skólabyrjun en þegar við mættum eftir jólafrí var ólag á kyndikerfinu.

Skipulagi fyrstu vikunnar var því breytt í flýti með nýjar áhlerslur miðað við ástandið. Unnu allir saman að verkefnum sem snerust meðal annars um að endurnýta grenitréð sem við sóttum í desember og hefur nú þjónað sínum tilgangi sem jólatré. Einnig var farið í leiðangur til að saga tré á tjaldsvæðinu sem hafa brotnað undan snjó eða veðri og var sá efniviður einnig nýttur til sköpunar. Við vorum svo heppin að í verkmenntastofunni var hlýtt og notalegt svo þar fór öll innanhúss kennsla fram. Í Grunnskóla Önundarfjaraðar eru hörkuduglegir krakkar sem hvattir eru áfram af starfsmönnum og seigla allsráðandi.

Við náðum síðasta frostdeginum fyrir storm og hláku og prufuðum hokkíbúnaðinn sem gefinn var af Skautafélagi Reykjavíkur. Það er erfitt að skauta á hokkískautum en þá er bara að æfa sig meira og ekki síst í að detta.

Svo kom djúpa lægðin og við fengum okkur göngu til að skoða verksumerki á eyrinni. Sjórinn hafði flætt ansi hátt upp á bryggjuna og oddann.

Núna seinni vikuna hefur verið hlýrra hjá okkur í skólanum og hægt að nota bekkjarstofurnar á ný svo hefðbundnara starf hefur fengið sitt pláss.

Yngri nemendurnir eru alltaf mikið í útikennslu og hafa verið að reyna að laða að fugla með því að útbúa fóðurstöðvar sem þau hengdu í tré víða um þorpið. Út frá því hefur spunnist heilmikið verkefni drifið áfram af forvitni þeirra um að vita meira og meira um fuglana.  Einnig eru þau að gera ýmsar aðrar tilraunir.

Þar sem svo margt hefur gengið á í veðrinu undanfarið, þrumur og eldingar og djúp lægð svo eitthvað sé nefnt er vel við hæfi að veðurþema sé á áætlun. Eldri krakkarnir eru að vinna með veðrið en fóru samt ekki út til þess í dag heldur nýttum við sýndarveruleika og brugðum okkur í veðurfyrirbrigðin fellibyl og hvirfilvind sem við þurfum vonandi aldrei að upplifa.