Fréttir
Einar Arnalds Kristjánsson áfram í Stóru upplestrarkeppnina
Í dag var haldin litla Stóra upplestrarkeppnin á Þingeyri þar sem 7. bekkingar frá Flateyri, Suðureyri og Þingeyri kepptu í upplestri.
Fyrir hönd okkar skóla kepptu þau Karen, Einar og Matthildur og komst Einar áfram fyrir okkar hönd og mun keppa í Stóru upplestrarkeppninni á Ísafirði 9. mars nk.
Okkar keppendur stóðu sig með miklu sóma og megum við sannarlega vera stollt af okkar fólki.
Ronja ræningjadóttir
Árshátíðarleikritið okkar í ár er leikritið Ronja ræningjadóttir. Í vikunni fengu nemendur að vita hlutverk sín í leikritinu og fyrsti samlestur verður í dag.
Við erum öll afar spennt og hlökkum til árshátíðarinnar okkar sem verður haldin 23. mars nk. kl. 17.00.
Í hlekknum hér fyrir neðan má heyra tónlist úr verkinu þegar það var sýnt í Borgarleikhúsinu fyrir nokkrum árum síðan.
https://www.youtube.com/watch?v=6C9d0gEcVHE
Samræmd æfingapróf
Samræmd próf í 9. bekk verða haldin dagana 7.-9. mars nk. Á vef Námsmatsstofnunnar eru komin æfingapróf sem nemendur og foreldrar geta skoðað og æft sig á. Hér eru prófin að finna.
Gleðileg jól
Skólinn á aðventunni
Nú eru rétt rúmar tvær vikur í jólafrí nemenda Grunnskóla Önundafjarðar. Við munum að mestu halda úti hefðbundinni stundaskrá en með uppbroti tíma og tíma. Í þessari viku verður ýmislegt á döfinni.
Í dag mánudaginn 5. desember kemur hún Rakel spjaldtölvusnillingur og vinnur með kennurum í leik- og grunnskólanum, sem og nemendum í 5.-9. bekk. Við ætlum að einblína á íslenskuna og hvað tæknin getur boðið okkur upp á í fjölbreyttu íslenskunámi.
Þriðjudaginn 6. desember - á morgun - þá ætla allir nemendur grunnskólans og eldri nemendur leikskólans að koma saman í Félagsbæ og baka piparkökur. Piparkökurnar verða síðan í boði í afmæli Grænagarðs á föstudaginn.
Miðvikudaginn 7. desember er 1.-4. bekk og fimm ára nemendum Grænagarðs boðið á danssýningu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.
Á fimmtudaginn verður nokk hefðbundinn dagur sem og á föstudaginn.
Vikan fyrir jólafrí mun verða bland af hefðbundinni og óhefðbundinni kennslu. Við ætlum að fara í kirkju, föndra og skrifa á jólakortin og gera það sem þarf að gera fyrir jólin.
Jólafríið hefst eftir hádegismat þriðjudagin 20. desember.
Njótið nú aðventunnar kæru vinir.
Opið hús í Grunnskóla Önundarfjarðar
Fimmtudaginn 1. desember verður opið hús í Grunnskóla Önundarfjarðar. Foreldrar eru velkomnir í skólann á skólatíma og sjá hvað við erum að fást við.
Dagskráin er hér.
Yngri deild
8:00-8:40 Íslenska
8:40-9:20 Íþróttir í Íþróttahúsinu
9:40-11:00 Náttúrufræði – úti ef veður leyfir
11:10-11:50 – Grænigarður, söngstund með leikskólabörnunum
11:50-12:20 Matartími í Félagsbæ
12:20-13:00 Valtími
Eldri deild
8:00-8:40 Íslenska
8:40-9:20 Íslenska
9:40-11:00 Íþróttir í íþróttahúsinu
11:10-11:50 – Grænigarður, söngstund með leikskólabörnunum
11:50-12:20 Matartími í Félagsbæ
12:20-13:00 Stærðfræði
13:00-14:30 Heimilisfræði
Athugið að klukkan 11 munu nemendur fara yfir á Grænagarð og syngja með leikskólabörnunum á Degi íslenskrar tónlistar. Foreldrar eru velkomnir þangað líka en þennan dag á Grænigarður 20 ára afmæli.
Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Nemendur og kennarar
Flateyri í Stundinni okkar í gærkvöldi.
Í gær var viðtal við þær Maríu, Zuzönnu, Sylvíu og Karen í Stundinni okkar. Jafnframt mátti sjá glytta í marga aðra krakka frá Flateyri, bæði þau sem hér hafa fasta búsetu sem og gesti.
Þátturinn var frábær og viðmælendurnir stóðu sig með mikilli prýði. Hér má sjá þáttinn.
Ný lesfimiviðmið fyrir grunnskóla
Menntamálastofnun hefur gefið út lesviðmið fyrir 1.-10. bekk grunnskóla.
Markmið með setningu lesfimiviðmiðanna er að stuðla að bættu læsi barna og unglinga.
Lestrarviðmiðin eru gott tæki fyrir foreldra, nemendur og kennara til að fylgjast með framförum í lestri, styðja við læsi og auka þanig líkurnar á því að sem flestir geti aflað sér menntunar í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í nútímasamfélagi.
Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur markmiðin.
Foreldraviðtöl, starfsdagur og vetrarfrí
Foreldraviðtöl fara fram dagana 7.-9. nóvember nk. og fá foreldrar sendan tölvupóst um hvenær þeir eiga að mæta ásamt börnum sínum.
Þann 10. nóvember er starfsdagur í skólanum hefst þá eiginlegt vetrarfrí nemenda Grunnskóla Önundarfjarðar sem stendur yfir til 14. nóvember. Dægradvöl fer líka í frí á þessum tíma.