VALMYND ×

Fréttir

Þemavika hafin

Í þessari viku eru þemadagar hjá okkur og er þemað að þessu sinni umhverfið

Vikan hófst með því að nemendur og kennarar lögðu af stað í gönguferð í skóginn við Hvilft snemma í morgun. Tilgangurinn er að læra um tré og laufblöð, gera nokkrar tilraunir og setja niður skordýrafellur. Meðferðis voru ýmis kennslugögn og nesti. Það var frekar kalt í lofti miðað við það sem hefru verið og nemedur klæddir eftri því. 


Á morgun þriðjudag er stefnt að því að fara út að veiða. Þau sem eiga veiðistangir og björgunarvesti koma með, skólinn græjar fyrir þau sem ekki eiga.


Á miðvikudaginn verður svo farið aftur í skóginn og þá verður vitjað um skordýrin/smádýrin sem veiðast. 


Á fimmtudaginn verðum við í skólanum og vinnum úr því efni sem við höfum safnað yfir vikuna.


Á föstudaginn endum við svo vikuna með náttfatapopppartýi. Öll mæta þá í náttfötum og við höldum afmælisveislu fyrir öll þau sem áttu afmæli í sumar og september. 


Fréttir frá vikunni 19-23. sept

Fréttir af starfsfólki: 

Í síðustu viku hóf nýr starfsmaður störf hjá okkur, Viktor Páll og leysir þau verkefni sem átti eftir að manna. Viktor verður starfsmaður dægradvalar en það er langt síðan við höfum haft eins stóran hóp i dægradvöl eins og nú er eða 10 börn. Auk þess að vera með dægradvölina verður Viktor með smíðakennslu, heimilisfræði og íþróttir. 

Jóna Lára kennir sundið ásamt því að vera með umsjón yfir yngri hópnum og kenna þeim eldri dönsku og vera með útieldhús fyrir báða hópa. 

Mekkín er með umsjón yfir eldri hópnum og kennir báðum hópum tónmennt. 

Sunna kemur inn í íslenskutíma í báðum hópum auk þess sem hún sér um jóga, hugleiðslu og slökun. 

Agata er skólaliði og sér um að halda öllu hreinu og snyrtilegu auk þess sem hún fer út með nemendum í frímínútum og í mat í hádeginu.

Og þetta er að segja af náminu: 

Í lestrinum hefur mínútlestri verið bætt við til viðbótar við yndislestur og eru nemendur iðnir og keppast við að bæta eigin árangur. Þau á miðstiginu eru einnig að rifja upp orðflokkana. Í dönsku og ensku hefur áherslan verið á lestur, lesskining, orðaforða og orðflokka. Leikurinn Wordle /orðla hefur vakið mikla lukku í enskutímum. 

Hjá þeim yngri er einnig yndislestrarstund hvern dag og í íslenskutímum unnið með lestur, lesskilning, orðaforð og ritun. 

Í stærðfræðinni vinna þau yngstu með  tölur, talningu og talnaskilning á fjölbreyttan og hlutbundinn hátt og þau eldri hafa verið að æfa sig í margföldum, spilað ýmsa stærðfræðileiki og öll vinna þau einnig í Minecraft education.


Haustþemað er vinna með umhverfið og í þessari viku voru teknar upp kartöflur og gerðir kartöfluklattar og vallhumals- og myntute í útieldhúsinu. Einn nemandi kom með sveppi (gorkúlur) til okkar í skólann sem voru steiktir í olíu og smjöri og smökkuðust einsog popp. 

Yngri nemendurnir eru að gera umhverfisbók. Plöntur og laufblöð sem þau fundu við skólann eru komin í pressun. Þetta verður svo límt inní bók sem þau búa til. Markmiðið er að allir búi til sína eigin bók með jurtum, þörungum og smádýrum úr umhverfinu sínu.

Þau eldri eru að læra um fjöruna og halda dagbók til að fylgjast með sjávarföllunum og útliti fjörunnar. Í samfélagsfræði eru þau að læra um Evrópu. Á fimmtudaginn unnu þau í uppbyggingarstefnunni og fóru yfir það saman hvað gerir góðan skóla og góðan bekk. Auk þess skilgreindum þau hlutverk nemenda og hlutverk kennara.


Á þriðjudaginn gerðu eldri nemendur teikningastækkara (e.pantograph), sem er tól sem hægt er að nota til afrita og skala myndir.


Á fimmtudaginn fóru allir nemendur í skutlukeppni og rauf sú langdrægasta 10 metra múrinn. 

Þetta er brot af því sem fengist er við í Grunnskóla Önundarfjarðar og gefur ykkur vonandi innsýn í það fjölbreytta og skapandi starf sem hér er unnið með það að markmiði að rækta hæfileika einstaklingsins og gera nemendur jafnt góða sem fróða. 

Sýn Grunnskóla Önundarfjarðar er að allir hafa hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur. 

Matseðil vikuna 25.-30. september

Mánudagur: Papriku fiskur með hrísgjónum og salati

Þriðjudagur: Grænmetisbuff með hrísgrjónum, kaldri sósu og salati

Miðvikudagur: Hakkbuff með kartöflum, sósu og salati

Fimmtudagur: Fiskur hjúpaður fjölkornum, kartöflur og salat

Föstudagur: Skyr, brauð og álegg

Skólabyrjun haustið 2022

Það var heldur betur fjör þegar hópurinn hristist saman á ærslabelgnum fyrsta skóladaginn.
Það var heldur betur fjör þegar hópurinn hristist saman á ærslabelgnum fyrsta skóladaginn.
1 af 10

Nú þegar þrjár vikur eru senn liðnar af skólastarfi þessa haust er heldur betur tímabært að segja ykkur fréttir. Eins og mörgum  er kunnugt urðum við að fresta skólabyrjun vegna covid veikinda starfsfólks en tókst þó sem betur fer að hefja það í sömu viku og áætlað hafði verið þó það væri á fimmtudegi í stað mánudags. 
Það voru heldur betur glaðir krakkar sem mættu til starfa þann fimmtudaginn og öll tilbúin í starf vetrarins.

Það varð heilmikil fjölgun á nemendum milli ára en nú hófu 13 nemendur nám við skólann en þeir voru aðeins 6 síðasta skólaár. Það er því yfir 100% fjölgun nemenda við skólann sem líklegast er metfjölgun. 

Á fyrstu vikunum erum við búin að gera ýmislegt. Huga að námsumhverfinu með gerð sáttmála. Afmælisdagatal er komið upp á vegg sem auðveldar okkur að muna þann stóra dag sem afmælisdagur er sérhvejum einstaklingi. Það er búið að hafa árlega göngudaginn. Yngri nemendurnir fóru út í skóg og vörðu góðum tíma þar. Eldri nemendurnir hjóluðu áleiðis að Kálfeyri og gengu svo niður á eyrina og skoðuðu þau ummreki sem þar eru um verstöðina. Allt hefðbundið nám er komið vel i gang. 

Nemendur yngra stigsins eru níu talsins þennan veturinn. Umsjónarkennari þeirra er Jóna Lára. Fjóri nemendur eru á miðstiginu og er Mekkín sem kom ný til starfa í haust þeirra umsjónarkennari. Agata hóf störf hjá okkur sem skólaliði 1. september.  Senn líður að því að við getum opnað dægradvölina en Viktor Páll hefur tekið að sér að sjá um hana ásamt nokkrum kennslustundum. 

Skóladagurinn hefst hjá okkur kl. 8:10 á morgnana með yndislestri. Allir nemendur borða saman hafragraut áður en farið er út í fyrstu frímínútur dagsins. Foreldrafélagið tók vel í að styrkja það verkefni að gefa börnunum hafragrautinn en fátt getur talist hollara hvort sem horft er til næringarinnar eða samverunnar. 

Íþróttir hafa farið fram utanhúss enn sem komið er en það er almennt reglan að hafa útiíþróttir í ágúst og september. 

Með þessari upprifjun á skólabyrjun fylgja myndir sem segja meira en mörg orð um fjölbreytt skólastarf. 

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar fer fram mánudaginn 22. ágúst kl 10:00.

Nemendur og foreldrar mæta þá og hitta starfsfólk skólans og farið verður yfir starf komandi vetrar.

Nemendur 1.-3. bekkjar mæta í kennslustofu á neðri hæð og nemendur 4. -7. bekkjar í kennslustofu á efri hæð.

Eftri kynningu umsjónarkennara verða stutt einstaklingsviðtöl og  boðið upp á léttar veitingar á ganginum á meðan. 

 

Hlökkum til að sjá ykkur 

Sunna, Jóna og Mekkín 

Skólaslit

Skólaslit

Grunnskóla Önundarfjarðar 2022

fara fram í sal skólans

miðvikudaginn 1. júní kl. 18:00.

 

Nemendur tónlsitarskóla flytja nokkur lög.

Ræða og afhending vitnisburðar.

Kaffiveitingar.

Opni dagurinn gekk frábærlega

Við vorum heppnari með veður en við höfðum þorað að vona og fengum marga góða gesti á opna daginn okkar. Myndirnar hér tala sínu máli og sýna þátttöku gestanna í að setja niður útsæði, smíða kofa, mála útilistaverk, taka þátt í leikjum og njóta veitinga. 

Takk öll sem sáuð ykkur fært að taka þátt. Samfélagið er okkur afar mikilvægt. 

Opinn dagur fimmtudaginn 19. maí.

Kofi í smíðum
Kofi í smíðum
1 af 5

Heil og sæl

Opinn dagur, samvinna leik og grunnskóla fimmtudaginn 19. maí 2022. 

Nú erum við búin að ákveða dagskrá opna dagsins og ætlum ekki að láta riginingarspá hafa áhrif á þá ákvörðun. Munið bara, bæði börn og fullorðnir, að koma klædd eftir því veðri sem verður þegar að þessu kemur. 

 

Við byrjum kl 8:15 og verðum til kl. 10:00

Farið verður í ýmsa skemmtilega leiki sem reyna meðal annars á samvinnu þátttakenda. 

Síðan fá gestir og leikskólanemendur að taka þátt í starfi grunnskólanemenda: 

- Kofasmíði, endilega neglið nokkrar spýtur með okkur. 

- Gróðurkassar, endilega hjálpið okkur að koma útsæðinu niður. 

- Lestrarátak, hér þurfið þið að taka þátt með því að setja ykkur einstaklingsmiðað markmið í lestri rétt eins og við gerðum og mála síðan eina hellu fyrir hvert skipti sem þið náið markmiði (t.d. markmið 100 bls lesnar fyrir hverja málaða hellu- þá eru 300 blaðsíður 3 hellur ). 

- Skólahúsið verður einnig opið ef gesti langar að skoða húsnæði og verk nemenda. 

Eftir að leikjum lýkur og á meðan hin verkefnin eru í gangi verður boðið upp á eitthvert góðgæti af eldstæðinu. 

Við hlökkum mikið til að sjá sem flesta foreldra og aðra velunnara skólans líta við og fylgjast með skapandi, skemmtilegu og vonandi árangursríku skólastarfi Grunnskóla Önundarfjarðar. 

 

Árshátíð lokið - páskafrí hafið

Leikskólahópurinn ásamt Siggu Önnu leikskólastjóra, tilbúin að fara að syngja fyrir fullan sal af fólki.
Leikskólahópurinn ásamt Siggu Önnu leikskólastjóra, tilbúin að fara að syngja fyrir fullan sal af fólki.
1 af 15

Síðasta námsvikan fyrir páskafrí var árshátíðarvika hjá okkur. Við byrjuðum á því að halda nemendafund vikuna áður og ákveða hvað ætti að sýna á árshátíðinni. Nemendur komu með margar frábærar hugmyndir og urðu þær flestar að veruleika. Við þessa undirbúningsvinnu minntum við nemendur á lýðræði sem er einn af grunnþáttum menntunar og mikilvægi þess að raddir þeirra fái að heyrast við hinar ýmsu ákvarðanir sem teknar eru.

Síðan var ráðist í að semja það sem þurfti að semja, gera leikmynd og leikmuni, klára upptökur og klippa til myndbönd, æfa og fara í endurhönnun á gömlum fatnaði. Í fjóra daga var vinnan algjörlega helguð því að undirbúa sýningu sem við yrðum stolt af. Við vorum boðin á árshátíð nemenda á Þingeyri og endurgultum þeim þá heimsókn með því að bjóða miðstigi frá þeim að koma á sýninguna okkar og hið árlega Sílaball sem haldið var í beinu framhaldi. Einnig buðum við miðstiginu á Suðureyri að koma. Þátttaka frá þessum tveimur skólum var mjög góð og ballið heppnaðist frábærlega. Við höfum lengi haft það að markmiði að auka sem mest samstarf milli fámennu skólanna á norðanverðum Vestfjörðum sem aðeins hefur farið dalandi síðust ár (vegna covid) og var þessi ákvörðun okkar einn liður í að gera það að veruleika. Samvinnan milli skólanna var meiri en svo að við fengjum gesti því við sömdum einnig við einn kennaranna um að sjá um undirleik á gítar fyrir okkur. Elstu börnin af leikskólanum Grænagarði tóku einnig þátt í sýningunni en þau opnuðu hátíðina með söng. 

Það er langt síðan svo margir gestir hafa verið samankomnir í sal Grunnskóla Önundarfjarðar en okkur taldist til að um 80 manns hafi verið í húsinu.

Við vorum öll virkilega stolt af árshátíðinni okkar sem fékk yfirskriftina ,,6 er oddatala” eftir lýðræðsilega komsningu. Nemendur fóru út fyrir þægindarammann, vissu að starfsmenn hefðu væntingar til þeirra, höfðu sjálfir væntingar til sín og vildu standa sig. Og öll stóðu þau sig með þvílíkum sóma. Ekki má gleyma að minnast á hið margrómaða hlaðborð foreldrafélagsins sem boðið var upp á í hléi, þar svignuðu borð undan kræsingum. Þegar kom að frágangi daginn eftir var ekki minni kraftur í nemendum en í undirbúnignum og gengið frá öllu áður en haldið var í páskafrí.

Nokkrar myndir fylgja hér með en myndböndin fara inn á google myndasíðu sem foreldrar hafa aðgang að.

Árshátíð framundan

Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar

,,6 er oddatala”

Verður haldin í sal grunnskólans fimmtudaginn 7. apríl kl 19:00

Í hléi verður boðið upp á hið margrómaða hlaðborð Forledrafélags Önundarfjarðar.

Verð á veitingum 1500 kr fyrir fullorðna (þá sem komnir eru af grunnskólaaldri) og 500 kr fyrir börn 6 -16 ára. (Frítt fyrir nemendur Leikskólans Grænagarðs og Grunnskóla Önundarfjarðar).

Dagskrá:

Elstu nemendur Leikskólans Grænagarðs syngja fyrir gesti í upphafi samkomu.

Nemendur Grunnskóla Önundarfjarðar sýna fjölbreytt atriði sem varpa ljósi á það skapandi starf sem fram fer í skólanum. Söngur, leiklist, textagerð, framsögn, kvikmyndagerð og hönnun svo eitthvað sé nefnt.

Eftir sýninguna verður hið árlega Sílaball haldið frá kl. 20:00- 22:00. Nemendur yngra stigsins fara heim kl. 21:00 en miðstigið (Hið unga, unglingastig) fær að halda áfram til kl. 22:00. Miðstigsnemendur frá Suðureyri og Þingeyri koma og skemmta sér með okkur auk þess sem Flateyrirngar á grunnskólaaldri heiðra okkur vonandi líka með þátttöku.

Allir velunnarar skólans hjartanlega velkomnir.

(Og svo er tilvalið að halda áfram eftir árshátíð G.Ö og fara á paellukvöld Lýðskólans á Vagninum).