VALMYND ×

Fréttir

Skólaslit

Skólaslit

Grunnskóla Önundarfjarðar 2022

fara fram í sal skólans

miðvikudaginn 1. júní kl. 18:00.

 

Nemendur tónlsitarskóla flytja nokkur lög.

Ræða og afhending vitnisburðar.

Kaffiveitingar.

Opni dagurinn gekk frábærlega

Við vorum heppnari með veður en við höfðum þorað að vona og fengum marga góða gesti á opna daginn okkar. Myndirnar hér tala sínu máli og sýna þátttöku gestanna í að setja niður útsæði, smíða kofa, mála útilistaverk, taka þátt í leikjum og njóta veitinga. 

Takk öll sem sáuð ykkur fært að taka þátt. Samfélagið er okkur afar mikilvægt. 

Opinn dagur fimmtudaginn 19. maí.

Kofi í smíðum
Kofi í smíðum
1 af 5

Heil og sæl

Opinn dagur, samvinna leik og grunnskóla fimmtudaginn 19. maí 2022. 

Nú erum við búin að ákveða dagskrá opna dagsins og ætlum ekki að láta riginingarspá hafa áhrif á þá ákvörðun. Munið bara, bæði börn og fullorðnir, að koma klædd eftir því veðri sem verður þegar að þessu kemur. 

 

Við byrjum kl 8:15 og verðum til kl. 10:00

Farið verður í ýmsa skemmtilega leiki sem reyna meðal annars á samvinnu þátttakenda. 

Síðan fá gestir og leikskólanemendur að taka þátt í starfi grunnskólanemenda: 

- Kofasmíði, endilega neglið nokkrar spýtur með okkur. 

- Gróðurkassar, endilega hjálpið okkur að koma útsæðinu niður. 

- Lestrarátak, hér þurfið þið að taka þátt með því að setja ykkur einstaklingsmiðað markmið í lestri rétt eins og við gerðum og mála síðan eina hellu fyrir hvert skipti sem þið náið markmiði (t.d. markmið 100 bls lesnar fyrir hverja málaða hellu- þá eru 300 blaðsíður 3 hellur ). 

- Skólahúsið verður einnig opið ef gesti langar að skoða húsnæði og verk nemenda. 

Eftir að leikjum lýkur og á meðan hin verkefnin eru í gangi verður boðið upp á eitthvert góðgæti af eldstæðinu. 

Við hlökkum mikið til að sjá sem flesta foreldra og aðra velunnara skólans líta við og fylgjast með skapandi, skemmtilegu og vonandi árangursríku skólastarfi Grunnskóla Önundarfjarðar. 

 

Árshátíð lokið - páskafrí hafið

Leikskólahópurinn ásamt Siggu Önnu leikskólastjóra, tilbúin að fara að syngja fyrir fullan sal af fólki.
Leikskólahópurinn ásamt Siggu Önnu leikskólastjóra, tilbúin að fara að syngja fyrir fullan sal af fólki.
1 af 15

Síðasta námsvikan fyrir páskafrí var árshátíðarvika hjá okkur. Við byrjuðum á því að halda nemendafund vikuna áður og ákveða hvað ætti að sýna á árshátíðinni. Nemendur komu með margar frábærar hugmyndir og urðu þær flestar að veruleika. Við þessa undirbúningsvinnu minntum við nemendur á lýðræði sem er einn af grunnþáttum menntunar og mikilvægi þess að raddir þeirra fái að heyrast við hinar ýmsu ákvarðanir sem teknar eru.

Síðan var ráðist í að semja það sem þurfti að semja, gera leikmynd og leikmuni, klára upptökur og klippa til myndbönd, æfa og fara í endurhönnun á gömlum fatnaði. Í fjóra daga var vinnan algjörlega helguð því að undirbúa sýningu sem við yrðum stolt af. Við vorum boðin á árshátíð nemenda á Þingeyri og endurgultum þeim þá heimsókn með því að bjóða miðstigi frá þeim að koma á sýninguna okkar og hið árlega Sílaball sem haldið var í beinu framhaldi. Einnig buðum við miðstiginu á Suðureyri að koma. Þátttaka frá þessum tveimur skólum var mjög góð og ballið heppnaðist frábærlega. Við höfum lengi haft það að markmiði að auka sem mest samstarf milli fámennu skólanna á norðanverðum Vestfjörðum sem aðeins hefur farið dalandi síðust ár (vegna covid) og var þessi ákvörðun okkar einn liður í að gera það að veruleika. Samvinnan milli skólanna var meiri en svo að við fengjum gesti því við sömdum einnig við einn kennaranna um að sjá um undirleik á gítar fyrir okkur. Elstu börnin af leikskólanum Grænagarði tóku einnig þátt í sýningunni en þau opnuðu hátíðina með söng. 

Það er langt síðan svo margir gestir hafa verið samankomnir í sal Grunnskóla Önundarfjarðar en okkur taldist til að um 80 manns hafi verið í húsinu.

Við vorum öll virkilega stolt af árshátíðinni okkar sem fékk yfirskriftina ,,6 er oddatala” eftir lýðræðsilega komsningu. Nemendur fóru út fyrir þægindarammann, vissu að starfsmenn hefðu væntingar til þeirra, höfðu sjálfir væntingar til sín og vildu standa sig. Og öll stóðu þau sig með þvílíkum sóma. Ekki má gleyma að minnast á hið margrómaða hlaðborð foreldrafélagsins sem boðið var upp á í hléi, þar svignuðu borð undan kræsingum. Þegar kom að frágangi daginn eftir var ekki minni kraftur í nemendum en í undirbúnignum og gengið frá öllu áður en haldið var í páskafrí.

Nokkrar myndir fylgja hér með en myndböndin fara inn á google myndasíðu sem foreldrar hafa aðgang að.

Árshátíð framundan

Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar

,,6 er oddatala”

Verður haldin í sal grunnskólans fimmtudaginn 7. apríl kl 19:00

Í hléi verður boðið upp á hið margrómaða hlaðborð Forledrafélags Önundarfjarðar.

Verð á veitingum 1500 kr fyrir fullorðna (þá sem komnir eru af grunnskólaaldri) og 500 kr fyrir börn 6 -16 ára. (Frítt fyrir nemendur Leikskólans Grænagarðs og Grunnskóla Önundarfjarðar).

Dagskrá:

Elstu nemendur Leikskólans Grænagarðs syngja fyrir gesti í upphafi samkomu.

Nemendur Grunnskóla Önundarfjarðar sýna fjölbreytt atriði sem varpa ljósi á það skapandi starf sem fram fer í skólanum. Söngur, leiklist, textagerð, framsögn, kvikmyndagerð og hönnun svo eitthvað sé nefnt.

Eftir sýninguna verður hið árlega Sílaball haldið frá kl. 20:00- 22:00. Nemendur yngra stigsins fara heim kl. 21:00 en miðstigið (Hið unga, unglingastig) fær að halda áfram til kl. 22:00. Miðstigsnemendur frá Suðureyri og Þingeyri koma og skemmta sér með okkur auk þess sem Flateyrirngar á grunnskólaaldri heiðra okkur vonandi líka með þátttöku.

Allir velunnarar skólans hjartanlega velkomnir.

(Og svo er tilvalið að halda áfram eftir árshátíð G.Ö og fara á paellukvöld Lýðskólans á Vagninum).

Kílómeter á dag kemur öllu í lag

Nemendur fyrir utan Gunnukaffi áður en haldið var til baka.
Nemendur fyrir utan Gunnukaffi áður en haldið var til baka.
1 af 7

Eitt af því sem eflir heilsu, seiglu og þrautseigju nemenda í Grunnskóla Önundarfjarðar eru daglegar gönguferðir í mötuneytið sem staðsett er í Gunnukaffi. Nemendur hafa mælt vegalengdina milli skóla og mötuneytis sem er um 500 metrar og því ljóst að nemendur ganga ekki styttra er einn kílómeter hvern skóladag. Vegna covid hafa komið tímabil sem við höfum ekki farið í mötuneytið heldur borðað í grunnskólanum en nú er vonandi síðasta slíku tímabili lokið.  Á meðfylgjandi myndum má sjá ánægjuna skína úr hverju andliti í gönguferðum dagsins enda allir vel búnir og yfir hverju ætti þá að kvarta? Yngri nemendurnir fóru meira að segja í tvær gönguferðir í dag þar sem það var samvinnudagur leik og grunnskóla og þótti betra að fylgja leiksólastjórnanum og hennar nemendum í öruggt skjól að samvinnu lokinni. 

Toppönd komið til bjargar

1 af 3

Það eru mörg óvænt verkefnin sem koma upp í skólastarfinu. Í morgun þegar nemendur voru að mæta í skólann var einnig á ferðinni frekar áttavilltur toppandarsteggur. Við ákváðum að taka hann inn í skólann og kynna okkur hvað þyrfti að gera fyrir hann en höfðum fengið upplýsingar frá viðstöddum að hann þyrfti sennilega bara að komast að sjónum. Við vorum samt ekki sannfærð um að ekkert amanði að honum þar sem hann var mjög rólegur og hreyfði sig lítið í kassanum sem hann var settur í. Eftir samtal við starfsmenn á náttúrufræðistofu Vestfjarða ákváðum við að prófa hvað gerðist ef við færum með hann í fjöruna. Og viti menn, um leið og hann sá sjóinn spratt hann upp úr kassanum og synti hinn sprækasti. Allir voru mjög ánægðir með þessi málalok og lærðum við mikið af þessu verkefni. Þess má geta að fuglaþema er í gangi hjá okkur í vetur og vita nemendur þó nokkuð orðið um fuglana. 

Samstarf grunnskóla og framhaldsskóla á norðanverðum Vestfjörðum

Miðvikudaginn 9. mars hittust skólastjórnendur grunnskóla á norðanverðum Vesfjörðum og Menntaskólans á Ísafirði á fundi. Umræðuefnið var efling samstarfs milli skólastiganna tveggja. Mikill hugur er í skólastjórnendum um að auka samstarf milli skólastiganna, bæði hvað varðar starfsfólk og nemendur. Næsti fundur skólastjórnenda verður haldinn í Grunnskólanum í Bolungarvík í byrjun maí og þar verða línurnar fyrir formlegra frekara samstarfi betur lagðar.

Við erum heppin að hafa Skautasvellið á Flateyri við skólann

Hér má sjá innslag úr Landanum um Skautasvellið á Flateyri sem við erum svo heppin að hafa við skólann. Svellið hefur nýst okkur á ýmsa vegu við okkar fjölbreytta og skapandi skólastarf. Það er alltaf mikil gleði sem fylgir því að fara á skauta auk þess sem þar reynir á úthald, þrautseigju, kjark og þor svo eitthvað sé nefnt. 

 

Skólastarf í ársbyrjun

Heil og sæl

Nú er allt komið í eðlilegt horf hjá okkur eftir frekar kalda skólabyrjun en þegar við mættum eftir jólafrí var ólag á kyndikerfinu.

Skipulagi fyrstu vikunnar var því breytt í flýti með nýjar áhlerslur miðað við ástandið. Unnu allir saman að verkefnum sem snerust meðal annars um að endurnýta grenitréð sem við sóttum í desember og hefur nú þjónað sínum tilgangi sem jólatré. Einnig var farið í leiðangur til að saga tré á tjaldsvæðinu sem hafa brotnað undan snjó eða veðri og var sá efniviður einnig nýttur til sköpunar. Við vorum svo heppin að í verkmenntastofunni var hlýtt og notalegt svo þar fór öll innanhúss kennsla fram. Í Grunnskóla Önundarfjaraðar eru hörkuduglegir krakkar sem hvattir eru áfram af starfsmönnum og seigla allsráðandi.

Við náðum síðasta frostdeginum fyrir storm og hláku og prufuðum hokkíbúnaðinn sem gefinn var af Skautafélagi Reykjavíkur. Það er erfitt að skauta á hokkískautum en þá er bara að æfa sig meira og ekki síst í að detta.

Svo kom djúpa lægðin og við fengum okkur göngu til að skoða verksumerki á eyrinni. Sjórinn hafði flætt ansi hátt upp á bryggjuna og oddann.

Núna seinni vikuna hefur verið hlýrra hjá okkur í skólanum og hægt að nota bekkjarstofurnar á ný svo hefðbundnara starf hefur fengið sitt pláss.

Yngri nemendurnir eru alltaf mikið í útikennslu og hafa verið að reyna að laða að fugla með því að útbúa fóðurstöðvar sem þau hengdu í tré víða um þorpið. Út frá því hefur spunnist heilmikið verkefni drifið áfram af forvitni þeirra um að vita meira og meira um fuglana.  Einnig eru þau að gera ýmsar aðrar tilraunir.

Þar sem svo margt hefur gengið á í veðrinu undanfarið, þrumur og eldingar og djúp lægð svo eitthvað sé nefnt er vel við hæfi að veðurþema sé á áætlun. Eldri krakkarnir eru að vinna með veðrið en fóru samt ekki út til þess í dag heldur nýttum við sýndarveruleika og brugðum okkur í veðurfyrirbrigðin fellibyl og hvirfilvind sem við þurfum vonandi aldrei að upplifa.