VALMYND ×

Fréttir

Áfram slæmt veður á morgun

Heil og sæl

Við viljum hér með koma á framfæri viðmiðum Ísafjarðarbæjar um það hvenær stofnunum skuli lokað vegna óveðurs. Kemur þar m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til en forstöðumaður getur lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

- Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu

- Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni

- Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

Ég hvet ykkur til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri.  Skólarnir verða opnir á morgun og skólastarf í gangi nema tilmæli  komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef ákvörðun foreldra er að hafa börn sín heima viljum við minna á að koma upplýsingum til okkar í skólana. Til að ná í grunnskólann er best að hringja í 849 3446 (Sunna gsm)  og í leikskólann í síma 848 6281 (Sigga gsm) sama gildir ef foreld­rar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Foreldrar eru einnig hvattir til að fylgjast með  á heimasíðu almannavarna en eins og er er óvissustig. 

Bestu kveðjur með von um að þessu ótímabæra vetrarveðri sloti sem allra fyrst. 

Sunna og Sigga Anna

Af skólasetningu og starfi framundan í G.Ö.

Í gær var grunnskólinn settur í 119 sinn. Nemendur, foreldrar og starfsmenn komu saman og héldu nokkurs konar haustfund þar sem farið var yfir skólastarf komandi vetrar. 

Nemendur þetta skólaárið eru 6 en fyrstu vikuna eru nemendur í 6. og 7. bekk í skólabúðum á Reykjum í Hrútafirði en þangað var farið í rútu með jafnöldrum frá hinum skólunum á norðanverðum Vestfjörðum. 

Fyrsta vikan hjá þeim sem eru á staðnum verður haust og útivistarþema. 

Nemendur skólans skiptast í tvo hópa yngsta stig og miðstig og er að miklu leyti kennt sitt í hvoru lagi. Heilmikið verður samt líka um samvinnu allra. Jóna Lára heldur utan um yngri hópinn en Sigurður Hafberg utan um þau eldri. Auk þess kennir Sunna talsvert á miðstiginu. Tónlsitarkennarar koma til okkar og sinna tónlistarkennslu hér á staðnum sem er frábært fyrir nemendur. Eva sem kennt hefur dans hér í nokkur ár og einnig fablab síðsta ár verður vonandi búin að ná sé af meiðslum og kemst til okkar þegar líður á hautið. Ninna námsráðgjafi verður hjá okkur einu sinni í mánuði, síðasta miðvikudag í mánuði. Helena skólahjúkrunarfræðingur kemur einnig reglulega til okkar. 

Tvisvar í viku koma elstu nemendur leikskólans í skólann og í annað skiptið verður 1. bekkur með þeim en í hitt skiptið vinna allir saman og verða tekin ólík þemu með það að markmiði að auka orðaforða tengdan viðfangsefninu. Kennsla fer fram með fjölbreyttum kennsluháttum og útinámi. 

Okkur vantar í starfsmannahópinn skólaliða sem einnig sinnir dægradvöl. Fyrsta vikan er leyst en vonandi rætist úr áður en sú næsta rennur upp. 

Við byrjum veturinn á því að sækja mat í Gunnukaffi og snæða í grunnskólahúsinu en þegar ferðamannastraumur í þorpinu minnkar getum við vonandi fundið leið til að fá okkur göngutúr í Gunnukaffi og borðað þar án þess að taka stórar áhættur varðandi covid smithættu. 

Við erum í innleiðingarferli á leiðsagnarnámi ásamt hinum skólunum á norðanverðum Vestfjörðum en til þess fékkst styrkur frá Sprotasjóði. Leiðsagnarnám miðar að því að markmið eru alltaf skýr og nemendur meðvitaðir um þau. Nemendur fá leiðsegjandi endurgjöf sem hjálpar þeim að komast nær markmiðum sínum. Verkefni eru valin af ástæðu, þau hafa merkingu. Nemandinn veit hvar hann er staddur og hvert hann er að fara og hann fær leiðsögn til að brúa bilið þar á milli. Markmiðið er að nemendur taki aukna ábyrgð á eigin námi. Þessi samvinna með hinum skólunum hjálpar okkur að vinna markvissar að leiðum sem við höfum áður aðhyllst. Hér er vefslóð á góða kynningu fyrir foreldra: https://static1.squarespace.com/static/60294ce57486886e184a77ef/t/602b072b8c86210d93974652/1613432621205/Foreldrar+og+lei%C3%B0sagnarna%CC%81m.pdf

Við munum áfram nota mentor til að halda utan um námið og setja kennsluáætlanir inn í lotur, tengja verkefni og meta eftir hæfniviðmiðum. Nemendur og foreldrar geta fylgst með framvindu á hæfnikortum nemenda. 

Við ætlum að vera dugleg að nýta okkur fámennið og fara í heimsóknir í aðra skóla, bókasafnsferðir og ýmsar vettvangsferðir, á bíl, gangandi eða hjólandi eftir því hvað hentar hverju sinni. 

Við förum spennt af stað inn í nýtt skólaár, fullt af tækifærum og áskorunum sem við viljum nýta til þroska og framfara. 

Bestu kveður

Sunna Reynisdóttir 

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar

Kæru nemendur, foreldrar og forráðamenn.

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar fer fram í sal skólans mánudaginn 23. ágúst 2021 kl. 10:00.

Við ætlum að hafa þetta með nokkuð hefðbundnu sniði en þó með aðeins breyttu fyrirkomulagi.

Starf vetrarins verður kynnt og síðan ætlum við að eiga samræður nemenda, foreldra og starfsfólks um starfið og þau tækifæri sem felast í skólastarfinu.

Skráningar í mötuneyti og dægradvöl fer fram á staðnum.

Kennsla hefst þriðjudaginn 24. ágúst kl. 8:10 og opnar dægradvöl sama dag að skóladegi loknum.

Við förum full tilhlökkunar inn í nýtt skólaár. 

Starfsfólk Grunnskóla Önundarfjarðar

 

Starf að loknu sumarfríi

Leikskólinn Grænigarður opnar á ný mánudaginn 9. ágúst kl. 9:00. 

Skólasetning Grunnskóla Önundarfjarðar verður mánudaginn 23. ágúst kl. 10:00. 

 

 

Skólaslit Grunnskóla Önundarfjarðar og útskrift af leikskóla 4. júní 2021

Heil og sæl

Á morgun föstudaginn 4. júní er mikill hátíðardagur í önfirsku skólastarfi. Þá fara fram við hátíðlegar athafnir útskrftir af báðum skólastigum, leik og grunnskóla. 

Klukkan 15:00 opnum við Leikskólann Grænagarð fyrir nánustu ættingja barnanna og bjóðum til útskriftar þeirra nemenda sem í haust hefja sína grunnskólagöngu. Verk nemenda verða til sýnis á veggjum og boðið upp á kaffiveitingar. 

Klukkan 17:00 fara skólaslit Grunnskóla Önundarfjarðar fram í sal skólans. Nemendur sýna dans og syngja fyrir gesti. Auk þess er hægt að berja ýmis samvinnuverkefni augum. Tveir nemendur verða útskrifaðir. Boðið verður upp á kaffiveitingar og eru allir velkomnir. 

Gætum eigin sóttvarna. 

Bestu kveðjur

Sunna

Skemmtilegt útinám í G.Ö.

Á mánudaginn vorum við að vinna með Önundarfjarðar verkefnið, við vorum að nota pappamassa til þess að gera líkan af Önundarfirði, stærðarhlutfallið sem við notuðum er 1:20.000 sem þýðir að ef við stækkum líkanið okkar 20.000 sinnum þá verður það u.þ.b. jafn stórt og Önundarfjörður.

Á þriðjudaginn fórum við miðstigið með Jónu í sauðburð á Kirkjuból í Valþjófsdal, við fengum að gefa lömbum pela og hjálpa að marka og bera. Við gáfum kindunum sem voru nýbúnar að bera vatn og hey. Á meðan að við fórum í sauðburð fór yngsta stigið á kajak í höfninni og á miðvikudaginn skiptum við þannig að miðstigið fór á kajak og yngra stigið í sauðburð.

Á fimmtudaginn fórum við að fræðast um æðarvarp hjá Bessu í Innri-Hjarðardal og sáum nokkur hreiður. Konu æðarfuglinn heitir kolla og karlarnir heita bliki, kollurnar eru brúnar til þess að fela sig betur og blikarnir eru svartir og hvítir svo kollurnar verða skotnar í þeim. Svo fengum við að koma við æðardún og klappa hundi og gefa kindum fóður og hænum brauð, svo fórum við á Holtsströnd og löbbuðum út á Holtsodda og fórum í skeljakóng.   

Á föstudaginn skrifuðum við þessar fréttir og ætlum að halda áfram með Önundarfjarðar verkefnið. 

Á meðan við vorum að gera þetta voru unglingarnir í skólaferðalagi alla vikuna að fara hringinn í kringum landið.

Bestu kveðjur

Helga, Oscar, Signý og Zuzanna

Nemendur í 5.-6. bekk

 

 

Áfram höldum við með öfluga námsdaga í G.Ö.

Kampakátir kennarar í vettvangsferð hjá Arctic fish
Kampakátir kennarar í vettvangsferð hjá Arctic fish
1 af 6

Þó ekki sé hlýtt nú í maí er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu þar sem lognið leikur yfirleitt við okkur og sólin skín. Í dag fóru allir nemendur skólans ásamt kennurum til Þingeyrar í þeim tilgangi að kynnast fiskeldi Arctic fish í Dýrafirði.

Þegar heim var komið sögðu þau mér ferðastöguna. Keyrt var á einkabílum til Þingeyrar og þar niður á bryggju þar sem allir fóru í björgunarvesti áður en haldið var út á fjörð.  Benedikt fékk það hlutverk að leysa landfestar, lyfti reipinu af pollanum (þarna bættust nokkur safarík orð við fyrri orðaforða nemenda). Báturinn sem þau fóru um borð í heitir Arnarnes og var siglt út að laxeldiskvíunum. Signý beit ugga af laxi af því hana langaði að prófa eins og laxveiðimenn gera við sinn fyrsta lax.

Það var margt sem krökkunum fannst merkilegt í þessari ferð og hafa þau greinilega verið áhugasöm. Meðal þess sem þau sögðu mér var að það séu 3 milljónir laxa í kvíunum í Dýrafirði. Þeim fannst mjög fyndið að sjá laxinn stökkva. Þau fóru líka út á prammann. Og þeim fannst mjög áhugavert að sjá allan tæknibúnaðinn sem er í Blábankanum, t.d. myndavél sem sýnir laxinn í sjónum, hvernig hægt er að fylgjast með hitastigi og súrefninu og mörgu fleiru þaðan. Hvernig maturinn fer í gegnum rör og dreifist með dreifara sem snýst. Þau sögðu mér líka að maturinn væri búinn til úr fiskiafurðum. Ég vildi að ég hefði komist með í þessa ferð því það er svo augljóst að þó maður fái greinargóða lýsingu þá er mun auðveldara að læra hlutina með því að vera á staðnum. Það er óvíst að ég fari rétt með allt sem mér var sagt en krakkarnir eiga eftir að búa lengi að þessum fróðleik. 

Önnur viðfangsefni vikunnar voru fjallahringur Önundarfjarðar sem er í vinnslu á yngsta- og miðstigi. Greinaskrif vegna skólablaðs þar sem allir nemendur leggja eitthvað til. Unglingastigið brá sér á kajak einn góðviðrisdaginn. 

Í næstu viku fara unglingarnir í skólaferðalag um Ísland. Yngri nemendurnir fá heimsókn frá starfsmönnum umboðsmanns barna, fara í sauðburð, á kajak, skoða æðarvarp og annað fuglalíf. Já þau eru ótalmörg tækifærin sem felast í fámenninu og gera okkur auðvelt fyrir í að standast kröfur um fjölbreytt skólastarf.

Bestu kveðjur og góða helgi

Fyrsta maívikan að baki-

Fyrir utan vatnsþróna
Fyrir utan vatnsþróna
1 af 5

Í þessari viku var farið í tvær vettvangsferðir og var það vatnið sem var þemaefni vikunnar. Fyrri ferðin var til að skoða vatnsþróna sem er í hlíðinni rétt utan við þorpið. Þar fengum við góðan fróðleik um hvaðan vatnið kemur, hversu mikið rennsli er inn í þróna og hversu mikil notkun bæjarbúa er að meðaltali, hvernig vatnið síast og hvernig örverum er eytt úr því. Nemendur voru duglegir að spyrja spurninga og á staðnum var ákveðið að næst yrðum við að fá að vita hvernig við fáum heitt vatn á eyrina. Þegar heim var komið var því hringt í Kidda Valda og hann fenginn til að fræða okkur um Orkubú Vestfjarða. Sú ferð var ekki síður fróðleg og nemendur og starfsfólk margs vísara.

Á heimleiðinni frá vatnsþrónni var gengið í fjörunni og haldið áfram að fræðast. Meðal þess sem við sáum var hringlaga gat inn í klett og datt okkur helst í hug að þarna væri um trjáholu að ræða eftir liggjandi tré. Myndir voru sendar til Náttúrufræðistofnun til að fá svör við því. Svörin voru svo kynnt fyrir nemendum á föstudaginn og var grunurinn um trjáholu staðfestur og að þarna hefði verið þokkalega stórt tré fyrir allt að 15 milljónum ára. Þar sem þetta eru fyrstu upplýsingarnar um trjáholur við Önundarfjörð vorum við beðin um að senda nánari upplýsingar um staðsetningu og gera mælingar á holunni. Þar með fengum við hugmynd að rannsóknarferð í næstu viku þar sem við munum grandskoða umhverfið. Bæði nemendur og starfsmenn mjög spenntir fyrir þessu. 

Annað sem rak á fjöru okkar var brot úr legsteini sem lá í vegkanti. Við eftirgrennslan komumst við að því að lesgsteinninn væri sennilega úr kirkjugarðinum í Hnífsdal og vakti það forvitni okkar hvernig hann gæti hafa endað á Flateyri. Fyrirspurn þess efnis var send á Ísafjarðarbæ og bíðum við svara.

Milli þess sem stelpurnar á unglingastiginu taka þátt í vettvangsverkefnum vinna þær ötullega að gerð skólablaðsins og hafa farið í fyrirtæki á Flateyri til að safna styrkjum í formi auglýsinga eða styrktarlína.

Nokkrar mikilvægar dagsetningar

Nokkrar mikilvægar dagsetningar:
 
 
10. maí starfsmannafundur í leikskóla - opnað kl. 10
 
13. maí uppstigningardagur- frídagur
 
24. maí annar í Hvítasunnu- frídagur
 
4. júní skólaslit grunnskóla
 
2. júli sumarlokun leikskóla hefst- lokað kl. 15:00
 
9. ágúst sumarlokun leikskóla lýkur- opnað kl. 9:00
 
23. ágúst skólasetning grunnskóla

Fréttir af skólastarfi- apríl að baki

Heil og sæl 

Meðal þess sem hefur verið í gangi hjá okkur í apríl er lestrarsprettur sem allir nemendur skólans taka þátt í. Hver og einn les í 20 mínútur heima og aðrar 20 mínútur í skólanum og er stefnan að safna upp í 10.000 mínútur. Umræður eru um bækur og höfunda og markmiðið að stuðla að lestraránægju sem leiði síðan af sér aukna lesfimi og lesskilning. 

Í síðustu viku fengu nemendur mið- og unglingastigs fræðslu í boði Vá Vest hópsins. Um var að ræða forvarnarfyrlestra sem  Magnúsar Stefánssonar sá um. Vegna aðstæðna var fræðslan í fjarfundi. Fundurinn með unglingunum var forvörn gegn vímuefnum og miðstigsnemendur fengu fyrirlestra um það sem ber að varast á netinu, einelti, samskipti barna og fleira.
Fyrirlestrar fyrir foreldra um sama efni voru haldnir um kvöld, einnig í fjarfundi. 

Forsáning er í fullum gangi innandyra og verða plöntur færðar út í beðin á skólalóðinni og settar niður kartöflur þegar við erum orðin nokkuð viss um að vorið sé komið. Við erum reyndar svo mikið fyrir allskonar tilraunir að við prófuðum til samanburðar að setja fræ beint út á sama tíma og við forsáðum því sem fær að þroskast inni. 

Nú hyllir undir það að umglingastigið komist í skólaferðalag og þar sem ekki verður af ferð út fyrir landssteinana var tekin ákvörðun um að fara hringveginn um Ísland. Eru nemendur að vinna að metnaðarfullu ferðaskipulagi þar sem á að skoða ýmislegt sem Ísland hefur upp á að bjóða. Hópurinn samanstendur af sjö ungmennum þar sem engin ferð var farin í fyrra og nemendur sem útskrifuðust þá frestuðu sinni ferð um ár. Þar sem eitthvað vantar upp á sjóðinn svo hægt sé að gera allt sem hugurinn girnist var ákveðið að ráðast í að gera skólablað og er það aldeilis eitthvað í reynslubankann. 

Það er ekkert óhefðbundið við það að sjá yngri nemendur skólans við hin ýmsu verkefni utandyra en með hækkandi sól og hlýrra veðri munum við verða mikið úti við námið á öllum stigum. 

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna