VALMYND ×

Fréttir

Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar 2023 og Sílaball

Æft á sviði
Æft á sviði
1 af 3

 Árshátíðin okkar verður haldin í húsnæði grunnskólans miðvikudaginn 29. mars kl 17:00. Þemað er lífríki jarðar og hafa nemendur og starfsmenn útbúið skemmtilega leikþætti í anda þess sem verða sýndir á tjaldi og á sviði. 

Foreldrafélagið selur veglegar veitingar á sanngjörnu verði svo enginn þarf að elda kvöldmat heima, 1.500 krónur fyrir fullorðna. Börn á leik og grunnskólaaldri fá frítt. 

Þegar skemmtiatriðum lýkur höldum við gleðinni áfram til kl 19:30 með dansi, söng og leik en það er hin ævaforna hefð hér að halda Sílaball fyrir yngri kynslóðina. 

Við hlökkum til að sjá foreldra, afa og ömmur og aðra ættingja auk annarra velunnara skólans á Árshátíð Grunnskóla Önundarfjarðar 2023. 

Fréttir af skólastarfi - 24. mars 2023

Fiskar- lífríkið
Fiskar- lífríkið
1 af 11

Í vikunni hafa nemendur og starfsfólk unnið af kappi að undirbúningi árshátíðar en hún fer fram í húsnæði skólans miðvikudaginn 29. mars frá kl 17:00. Sílaballið er gömul hefð sem við höldum í og heldur skemmtunin því áfram að loknum skemmtiatriðum fram til 19:30 með dansi, söng og leik. 


Foreldrafélagið selur veglegar veitingar á sanngjörnu verði og mun ágóðinn renna í eitthvað skemmtilegt fyrir krakkana. 


Hér læt ég nokkrar myndir af undirbúningi fylgja með en þar sést hversu fjölbreytt nám er að baki einnar árshátíðar. 


 


Bestu kveðjur og góða helgi 


Sunna

Fréttir af fjölbreyttu skólastarfi 3. mars 2023

Hér verða verkefnin sýnileg
Hér verða verkefnin sýnileg
1 af 3

 Í hverri viku senda umsjónarkennararnir metnaðarfullan vikupóst til foreldra þar sem farið er yfir það helsta sem hefur einkennt námið þá vikuna. Þemað sem báðir hópar eru að vinna með núna er lífríki jarðar en til að upplýsa ykkur betur byggi ég þessa frétt á póstum umsjónarkennaranna: 

Af yngra stiginu er þetta helst í fréttum:

Í þessari viku höfum við verið að vinna með lífríki jarðar-dýr. Þau völdu sér öll eitt dýr og fundu upplýsingar um það. Í stærðfræði erum við að vinna með mælingar og höfum við verið að mæla bæði úti og inni. Við munum samþætta þá vinnu með dýraverkefninu og mæla hæð okkar og svo hæð dýranna. Það verður skemmtilegt að komast að því hvað dýr eru minni en við og hvaða dýr stærri. Spurning hvort að öll dýrin komist inn í skólann? :)
Við hlóðum líka niður nokkrum dýraleikjum inn á I-pad og eitt þeirra var á dönsku, DR naturspillet og vakti það mikla lukku.  Við unnum með ritun og æfðum okkur í að skrifa litlu stafina. Mjög metnaðarfullir og duglegir krakkar.
Veðrið hefur leikið við okkur hefur uppáhalds leikurinn þessa vikuna verið að drullumalla.

Af miðstiginu er þetta helst í fréttum: 

Í þessari viku höfum við verið að æfa okkur í framburði og upplestri. Einnig höfum við tekið góðan tíma í vélritunaræfingar. Í íslensku höfum við verið mikið í ritun, einnig lærðum við um og bjuggum til okkar eigin hækur. Í stærðfræði erum við búin að læra tölfræði á fjölbreyttan hátt. Í ensku, dönsku og náttúrufræði höfum við verið að læra um lífríkið og þá sérstaklega dýr. Öll völdu sér dýr og fundu upplýsingar um það. Við héldum áfram í miðlalæsi í vikunni og ræddum um aldurstakmörk á samfélagsmiðlum. Í smíðum eru þau að smíða kassabíla, en stefnt er að kassabílarallýi þegar tekur að vora. Í myndmennt héldum við áfram að vinna grafíkverk. Auk þess prufuðum við að skrifa á ritvél og fjölrita með hectographi. 

Fréttir af liðinni viku 6.-10. febrúar

Vifta eða spaðar í smíðum.
Vifta eða spaðar í smíðum.
1 af 9

Skólastarfið í Grunnskóla Önundarfjarðar ber ávallt merki fjölbreytni og áskorana. Nálgunin er gjarnan í gegnum verklega vinnu og leik en með þeim hætti skila vísindin sér jafnvel enn betur.

Það sem fyrst og fremst stendur upp úr í vikunni er án efa Hebocon GÖ, sem er eins konar súmóglímu-vélmennakeppni. Á þriðjudaginn tíndu nemendur miðstigs saman allskyns rusl og dót sem talið var henta vel til vélmennagerðar. Allur miðvikudagurinn fór svo í skissugerð, vélmennasmíði og almenna tilraunastarfsemi. Vélmennasmiðjunni lauk svo á fimmtudagsmorguninn með æsispennandi keppni. Allir nemendur stóðu sig með prýði alla vikuna og fengu þau öll viðurkenningarskírteini. Að auki voru veitt verðlaun fyrir frumlegasta vélmennið, það vélmenni sem sigraði á keppnisbraut og loks það vélmenni sem virkaði verst. Öll skrifuðu þau svo skýrslu um vinnuna. 

Annað sem stendur uppúr í vikunni er að sólin lét loksins sjá sig en vanalegur dagur fyrir sólarpönnukökur á Flateyri er 25. janúar en nú sáum við hana fyrst 8. febrúar og að sjálfsögðu skellti skólastjórinn sér í að steikja pönnukökur fyrir alla unga sem aldna og naut þar aðstoðar nemanda.

Og svo var jú enn einn hápunkturinn að Celebs buðu okkur öllum að koma á Vagninn og heyra þau spila. 

Við tökum með gleði á móti nemendum sem tengjast eyrinni og langar að vera með okkur í skólastarfinu. Þessa vikuna voru hvorki meira né minna en þrír slíkir á miðstiginu og því tímabundin 75% fjölgun þar. Öll tóku þau virkan þátt í öllu sem við erum að fást við í skólanum og tóku án efa skemmtilega reynslu með sér og auðguðu okkar starf sömuleiðis. 

Næsta vika verður stutt skólavika en nemendur verða í fríi frá miðvikudegi til föstudags (miðvikudagur er starfsdagur og fimmtudagur og föstudagur eru vetrarfrísdagar). 

Þar sem vetrarfríið er í næstu viku verður sú nýbreytni að öskudagurinn verður skóladagur og munum við skipuleggja hann eins og slíkum degi sæmir. 

Stafrænn foreldrafundur

Skólinn vill hvetja alla foreldra og þá sem vinna með börnum til að mæta á fyrirlestur sem lögreglan stendur fyrir í samvinnu við Barnaheill, 112, SAFT, Heimili og skóla, Inhope Ins@fe og Fjölmiðlanefnd.

 

Fyrirlesturinn verður miðvikudaginn 23. nóvember kl. 12-13 og má nálgast hann hér 

 

Hægt er að skrá sig hér: https://bit.ly/foreldrafundur 

 

Fundurinn er eingöngu á netinu og verða kynnt praktísk ráð fyrir foreldra um stafræna miðla, notkun þeirra og úrræði vegna stafrænna brota. Fundurinn hefst á kynningum og svo fylgja á eftir lifandi pallborðsumræður þar sem foreldrum á netinu verður jafnframt gert kleift að spyrja spurninga.
Þessi stafræni foreldarfundur er hluti af aðgerðum ríkislögreglustjóra gegn stafrænu ofbeldi gegn börnum í samræmi við samkomulag þess efnis við stjórnvöld. Meðal annara aðgerða er vitundavakning meðal ungmenna í 8. bekk grunnskóla um stafrænt ofbeldi og gildi samþykkis í stafrænum og kynferðislegum samskiptum. Sérstakt fræðsluefni hefur verið útbúið fyrir nemendur í 8. bekk, auk þess sem kennsluleiðbeiningar og upplýsingar fyrir foreldra eru gerð aðgengileg á íslensku, ensku og pólsku.

 

Fundurinn er í upptöku og verður aðgengilegur á netinu til áhorfs að honum loknu ef foreldrar geta ekki tekið þátt kl. 12-13!

Hvatningarverðlaun

Það var heldur betur gaman hjá okkur í morgun þegar Jóna Lára tók á móti viðurkenningu fyrir hennar frábæru nálgun á verkefninun Brú milli skólastiga. Við erum afar stolt af þessum hvatningarverðlaunum og óskum Grunnskóla Ísafjarðar sem einnig hlaut viðurkenningu innilega til hamingju. 


Hér má lesa nánar um verðlaunin: 


https://www.isafjordur.is/is/stjornsysla/frettir-og-utgafa/frettasafn/gi-og-go-fa-hvatningarverdlaun-fyrir-framurskarandi-skolastarf?fbclid=IwAR1CfFycQSFR7gr0G8vZM7lIhqa5D1EAhAg-uHF8YtsspfSh3IMFySsMKMI


 

Tónlist og gleði

Gleðimyndir yngsta stigs
Gleðimyndir yngsta stigs
1 af 3

Það er heldur betur enn ein frábæra námsvikan að baki í Grunnskóla Önundarfjarðar. Þessi vika var uppfull af tónlist, söng, leik og gleði. Við vorum svo heppin að Þórdís Heiða tónlistarkennari bættist í hópinn með öflugu starfsliði skólans og kenndi nemendum og kennurum söngva og leiki. Allir nemendur fengu stuttan einkatíma þar sem þau lærðu smá á píanó og síðan eina rödd á annaðhvort tréspil, klukkuspil eða eukulele. Síðan var áherslan á að æfa saman og var útkoman ein stór hljómsveit. Uppskeran var sýnd á glæsilegum tónleikum í skólanum í morgun og verða fleiri tónleikar haldnir eftir vetrarfrí fyrir ákveðna hópa. 

Fyrsta lag tónleikanna var Gleðisöngurinn eftir Beethoven með texta eftir Braga Valdimar Skúlason. Lagið var bæði útsett fyrir tréspil, klukkuspil og ukulele og einnig sungið við undirleik Þórdísar Heiðu, hljómsveitarstjóra.
Næst fluttum við lagið Che che kule, frá Vestur-Afríku. Lagið er svipað laginu Höfuð, herðar, hné og tær, að því leiti að það eru sambærilegar hreyfingar.
Við enduðum tónleikana svo á laginu Yo howdy.

Þetta tónlistarþema blandaðist við vinnu nemenda með tilfinningar þar sem gleðinni var gert hátt undir höfði. Umræður voru um það hvað veitir gleði og voru skrifaðar sögur og máluð listaverk sem prýða veggi skólans. Einnig var skapaður  gleðistaður í Minecraft. 
Til að halda í tónlistarþema vikunnar voru gerðar skemmtilegar munnhörpur.  


Við erum alveg í skýjunum með vikuna og þökkum Heiða kærlega fyrir. Krakkarnir stóðu sig frábærlega, bæði að læra öll lögin og einnig að flytja tónlistina. Þau voru öll bæði áhugasöm og dugleg. Virkilega efnilegt tónlistarfólk og svo frábært að allt þetta átti sér stað aðeins á þremur dögum. Mikill áhugi vaknaði á áframhaldandi tónlistarnámi. 

Auk þess að hafa Heiðu hjá okkur voru einnig þrír gestanemendur sem hlupu þar með í skarðið fyrir þrjá nemendur sem eru í fríi. 

Foreldrar hafa fengið send myndbönd af uppskeruhátíðinni og myndir frá vikunni á myndasíðu skólans. 

Nú eru nemendur komnir í frí frá skóla fram á miðvikudag í næstu viku og eiga vonandi gleðiríka daga framundan. Viðburður á morgun

Heil og sæl

Við vorum svo heppin að fá til okkar tónlistarkennarann Heiðu sem hefur verið að kenna krökkunum ýmislegt um tónlist og er útkoman flott hljómsveit. Á morgun fimmtudaginn 13. október munum við halda lokaviðburðinn okkar í þessu tónlistarþema og langar að bjóða þeim sem hafa tök á að kíkja á okkur í heimsókn klukkan 10:30, viðburðurinn tekur aðeins 15 mínútur. Við skiljum að það komast ekki allir foreldrar, eða aðrir nánir og munum fara vel yfir það með nemendum en einnig munum við taka viðburðinn upp svo fjölskyldan geti horft heima. 

Velkomin í tónlistarstofuna okkar kl 10:30. 

Bestu kveðjur

Sunna

Matseðill fram að fríi

Fimmtudagur 6. okt. Fiskur í mexíkó osta sósu, hrísgrjón og salat

Föstudagur 7. okt. Kjötsúpa

Mánudagur 10. okt. Steiktur fiskur, kartöflur, lauksmjör og salat

Þriðjudagur 11. okt. Soðnar kjötbollur, kartöflur og kál. 

Miðvikudagur 12. okt. Pylsupasta, brauð og salat. 

Fimmtudagur 13. okt. Plokkfiskur, rúgbrauð og salat. 

Föstudgur 14. okt er starfsdagur og mánudagur og þriðjudagur 17. og 18. október eru vetrarfrís dagar. 

Þemavika hafin

Í þessari viku eru þemadagar hjá okkur og er þemað að þessu sinni umhverfið

Vikan hófst með því að nemendur og kennarar lögðu af stað í gönguferð í skóginn við Hvilft snemma í morgun. Tilgangurinn er að læra um tré og laufblöð, gera nokkrar tilraunir og setja niður skordýrafellur. Meðferðis voru ýmis kennslugögn og nesti. Það var frekar kalt í lofti miðað við það sem hefru verið og nemedur klæddir eftri því. 


Á morgun þriðjudag er stefnt að því að fara út að veiða. Þau sem eiga veiðistangir og björgunarvesti koma með, skólinn græjar fyrir þau sem ekki eiga.


Á miðvikudaginn verður svo farið aftur í skóginn og þá verður vitjað um skordýrin/smádýrin sem veiðast. 


Á fimmtudaginn verðum við í skólanum og vinnum úr því efni sem við höfum safnað yfir vikuna.


Á föstudaginn endum við svo vikuna með náttfatapopppartýi. Öll mæta þá í náttfötum og við höldum afmælisveislu fyrir öll þau sem áttu afmæli í sumar og september.