VALMYND ×

Árshátíð lokið - páskafrí hafið

Leikskólahópurinn ásamt Siggu Önnu leikskólastjóra, tilbúin að fara að syngja fyrir fullan sal af fólki.
Leikskólahópurinn ásamt Siggu Önnu leikskólastjóra, tilbúin að fara að syngja fyrir fullan sal af fólki.
1 af 15

Síðasta námsvikan fyrir páskafrí var árshátíðarvika hjá okkur. Við byrjuðum á því að halda nemendafund vikuna áður og ákveða hvað ætti að sýna á árshátíðinni. Nemendur komu með margar frábærar hugmyndir og urðu þær flestar að veruleika. Við þessa undirbúningsvinnu minntum við nemendur á lýðræði sem er einn af grunnþáttum menntunar og mikilvægi þess að raddir þeirra fái að heyrast við hinar ýmsu ákvarðanir sem teknar eru.

Síðan var ráðist í að semja það sem þurfti að semja, gera leikmynd og leikmuni, klára upptökur og klippa til myndbönd, æfa og fara í endurhönnun á gömlum fatnaði. Í fjóra daga var vinnan algjörlega helguð því að undirbúa sýningu sem við yrðum stolt af. Við vorum boðin á árshátíð nemenda á Þingeyri og endurgultum þeim þá heimsókn með því að bjóða miðstigi frá þeim að koma á sýninguna okkar og hið árlega Sílaball sem haldið var í beinu framhaldi. Einnig buðum við miðstiginu á Suðureyri að koma. Þátttaka frá þessum tveimur skólum var mjög góð og ballið heppnaðist frábærlega. Við höfum lengi haft það að markmiði að auka sem mest samstarf milli fámennu skólanna á norðanverðum Vestfjörðum sem aðeins hefur farið dalandi síðust ár (vegna covid) og var þessi ákvörðun okkar einn liður í að gera það að veruleika. Samvinnan milli skólanna var meiri en svo að við fengjum gesti því við sömdum einnig við einn kennaranna um að sjá um undirleik á gítar fyrir okkur. Elstu börnin af leikskólanum Grænagarði tóku einnig þátt í sýningunni en þau opnuðu hátíðina með söng. 

Það er langt síðan svo margir gestir hafa verið samankomnir í sal Grunnskóla Önundarfjarðar en okkur taldist til að um 80 manns hafi verið í húsinu.

Við vorum öll virkilega stolt af árshátíðinni okkar sem fékk yfirskriftina ,,6 er oddatala” eftir lýðræðsilega komsningu. Nemendur fóru út fyrir þægindarammann, vissu að starfsmenn hefðu væntingar til þeirra, höfðu sjálfir væntingar til sín og vildu standa sig. Og öll stóðu þau sig með þvílíkum sóma. Ekki má gleyma að minnast á hið margrómaða hlaðborð foreldrafélagsins sem boðið var upp á í hléi, þar svignuðu borð undan kræsingum. Þegar kom að frágangi daginn eftir var ekki minni kraftur í nemendum en í undirbúnignum og gengið frá öllu áður en haldið var í páskafrí.

Nokkrar myndir fylgja hér með en myndböndin fara inn á google myndasíðu sem foreldrar hafa aðgang að.