VALMYND ×

Barnamenningarhátíðin Púkinn komin í gang

Næstu tvær vikurnar hefur Barnamenningarhátíðin Púkinn heilmikil áhrif á skólastarfið hjá okkur. Við tökum þátt í allskonar verkefnum tengdum hátíðinni. Nemendur miðstigsins verða í fjóra daga á Þingeyri og Hrafnseyri og vinna þar að verkefninu Krakkaveldið sem snýst um að hanna Barnabæinn og svara spurningunni Hvernig væri heimurinn ef börnin réðu öllu? Þessu verkefni lýkur með sviðslistaverki á Hrafnseyri á fimmtudaginn kl 12:30 og hvetjum við ykkur til að líta þar við. 

Við ætlum að læra dansspor hátíðarinnar sem Sigga Soffía danshöfundur hefur samið og vonandi setjum við inn myndband af okkur dansa það í fallegasta umhverfi veraldar, Önunarfirði. 

Við ætlum að taka þátt í að skrifa smásögu, minningu frá sumrinu og ná að leggja okkar af mörkum í safn mynda og minninga. 

Unglingurinn í skólanum fer á Ísafjörð og tekur þátt í smiðjunni Listsköpun með gervigreind. 

Við ætlum að vinna verkefni tengt örnefnum.  Skrifa sögu tengda örnefninu og útbúa kort sem leiðir gesti að sögunni.

Við fáum heimsókn frá List fyrir alla, Listasmiðjuna Svakalegar sögur. 

Ótengt Barnamenningarhátíð koma samtökin Amnesti International einnig í heimsókn á þessu tímabili með fræðslu fyrir eldri hópinn okkar. 

Við munum skirfa eina frétt frá skólastarfinu og fá hana birta í BB. 

Við förum á Lokahátíð Púkans sem verður haldin í Edinborgarhúsinu og í Bolungarvík. 

Það verður líf og fjör í skólastarfinu okkar að vanda og tökum við Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum fagnandi og nær hún vonandi að festa sig í sessi. Við öll sem komum að henni munum læra heilmikið á þessari hátíð sem fór frekar bratt af stað á haustdögum en er orðin full af metnaðarfullum viðburðum. 

Að lokum vil ég setja hér linkinn á hátíðina sem ég hvet ykkur til að skoða vandlega því það er svo margt frábært í boði utan skólatímans og um að gera að velja viðburði eftir áhugasviði:  Púkinn barnamenningarhátíð (pukinnhatid.is)

 

Það er Vestfjarðastofa sem leiðir verkefni í samstarfi við alla grunnskólana og menningarstofnanir á Vestfjörðum. Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði.