VALMYND ×

Desemberfréttir af Grunnskólastarfinu

Svona búum við til skautasvell
Svona búum við til skautasvell
1 af 10

Nú þegar árið er senn á enda er ekki seinna vænna að segja fréttir af desember starfinu í grunnskólanum. 

Við náðum í upphafi mánaðarins að gera skautasvell á skólalóðinni og var það kærkomin viðbót við íþróttakennslu og hreyfingu og var mikið notað þá daga sem þess naut við. Sundkennsla var einnig í fullum gangi undir stjórn Lísu Sigurðardóttur. 

Ýmislegt jólastúss átti sér stað, skólinn var skreyttur, bakaðar kökur og piparkökur skreyttar. Lummur og eplaskífur voru bakaðar úti á eldi. Nemendur gerðu bækur um jól í mismunandi löndum og síðan fórum við í heimsókn í safnahúsið þar sem við fengum fróðleik um hinar ýmsu hefðir tengdar jólum í öðrum löndum. Mikið af fróðleiknum snerist um þær persónur sem líkjast Grýlu okkar og Jólasveinunum á einhvern hátt. Rútuferðin var nýtt til söngæfinga en tónleikar tónlistarskólans voru sama kvöld. Nemendur og starfsmenn skrifuðu jólakort hver til annars. Unglingarnir fóru í fab lab og var afraksturinn þar ýmist jólaskraut og lampar. 

Starfsmenn brugðu á leik og mættu í kjólum alla daga desembermánaðar og tóku sumir nemendanna einnig þátt þegar leið á mánuðinn. 

Litlu jólin voru haldin 18. desember, að einhverju leyti voru þau frábrugðin hefðum sem hafa verið en dagurinn var samt sem áður mjög notalegur. Allir nemendur grunnskólans voru saman, fengu kökur og kakó og spiluðu bingó. Dagurinn endaði svo á gómsætri jólamáltíð. Ekki var farið á leikskólann til að dansa með nemendum þar en við fréttum af jólasveinunum og fóru nokkrir nemendur og hittu þá úti í bæ þrátt fyrir að vindur blési hressilega. Þeir nemendur sem eru í dægradvöl fóru svo og voru með leikskólanemendum á jólaballinu þeirra. 

4. janúar verður starfsdagur þar sem starfsmenn koma saman og líta yfir farinn veg og gera áætlanir um stefnuna fram á við. Nemendur mæta svo til starfa þriðjudaginn 5. janúar. 

 

Bestu óskir um gleði og gæfuríkt komandi ár

Sunna