VALMYND ×

Fyrsta maívikan að baki-

Fyrir utan vatnsþróna
Fyrir utan vatnsþróna
1 af 5

Í þessari viku var farið í tvær vettvangsferðir og var það vatnið sem var þemaefni vikunnar. Fyrri ferðin var til að skoða vatnsþróna sem er í hlíðinni rétt utan við þorpið. Þar fengum við góðan fróðleik um hvaðan vatnið kemur, hversu mikið rennsli er inn í þróna og hversu mikil notkun bæjarbúa er að meðaltali, hvernig vatnið síast og hvernig örverum er eytt úr því. Nemendur voru duglegir að spyrja spurninga og á staðnum var ákveðið að næst yrðum við að fá að vita hvernig við fáum heitt vatn á eyrina. Þegar heim var komið var því hringt í Kidda Valda og hann fenginn til að fræða okkur um Orkubú Vestfjarða. Sú ferð var ekki síður fróðleg og nemendur og starfsfólk margs vísara.

Á heimleiðinni frá vatnsþrónni var gengið í fjörunni og haldið áfram að fræðast. Meðal þess sem við sáum var hringlaga gat inn í klett og datt okkur helst í hug að þarna væri um trjáholu að ræða eftir liggjandi tré. Myndir voru sendar til Náttúrufræðistofnun til að fá svör við því. Svörin voru svo kynnt fyrir nemendum á föstudaginn og var grunurinn um trjáholu staðfestur og að þarna hefði verið þokkalega stórt tré fyrir allt að 15 milljónum ára. Þar sem þetta eru fyrstu upplýsingarnar um trjáholur við Önundarfjörð vorum við beðin um að senda nánari upplýsingar um staðsetningu og gera mælingar á holunni. Þar með fengum við hugmynd að rannsóknarferð í næstu viku þar sem við munum grandskoða umhverfið. Bæði nemendur og starfsmenn mjög spenntir fyrir þessu. 

Annað sem rak á fjöru okkar var brot úr legsteini sem lá í vegkanti. Við eftirgrennslan komumst við að því að lesgsteinninn væri sennilega úr kirkjugarðinum í Hnífsdal og vakti það forvitni okkar hvernig hann gæti hafa endað á Flateyri. Fyrirspurn þess efnis var send á Ísafjarðarbæ og bíðum við svara.

Milli þess sem stelpurnar á unglingastiginu taka þátt í vettvangsverkefnum vinna þær ötullega að gerð skólablaðsins og hafa farið í fyrirtæki á Flateyri til að safna styrkjum í formi auglýsinga eða styrktarlína.