VALMYND ×

Ljóða og smásagnamaraþon -þakkir

Glæsilegt kaffihlaðburð tilbúið
Glæsilegt kaffihlaðburð tilbúið
1 af 6

Ljóða og smásagnamaraþon

Nú er liðin vika frá því að nemendur unglingastigs héldu ljóða og smásagnamaraþon sem stóð yfir í 24 klukkustundir frá 13:30 á föstudegi til 13:30 á laugardegi. Þar sem þessi viðburður var í fjáröflunarskyni voru seldar veitingar frá klukkan 16 á föstudeginum og fram að lokum viðburðarins. Þetta varð því einnig heimilisfræðimaraþon þegar upp var staðið.

Það sem einkenndi stemninguna á staðnum var samviskusemi unglinganna. Margir gestir lögðu leið sína í grunnskólann en jafnvel þó að engir gestir væru að hlusta á tímum var hvergi slakað á við lesturinn. Þarna voru flutt ljóð eftir hina ýmsu höfunda og lesnar smásögur inn á milli. Nemendur fluttu einnig sín eigin ljóð og gestir tóku upp bók og lásu sögur eða ljóð. Það var mjög skemmtileg stemning um miðnættið þegar nemendur skiptust á að lesa smásögurnar sem þeir hafa verið að skrifa í vetur og komu þar fram miklir hæfileikar. Kappið var svo mikið að sögur voru samdar á staðnum og fluttar strax að skrifum loknum.

Samviskusemin og metnaðurinn var ekki minni þegar kom að eldhússtörfunum en framm var reitt kaffihlaðborð klukkan fjögur og svo súpa og brauð klukkan sjö. Eftir kvöldmatinn var aftur sett upp kaffihlaðborð og meira að segja bökuð frönsk súkkulaðikaka til að bæta við úrvalið. Þetta hlaðborð stóð fram til tólf á hádegi en þá tók við dögurður og stóð til loka.

Á hliðarlínunni voru foreldrar og starfsfólk  sem aðstoðuðu við eldhússtörf eftir þörfum og sáu um gæslu í húsinu.

Þess má geta að nemendurnir eru ekki nema 6 talsins og því mikið sem hver og einn lagði á sig og ekki mikið um hvíld þó allir hafi náð smá kríu. Og þegar kom að frágangi eftir 24 tíma törnina var svo ánægjulegt að sjá að enginn reyndi að komast hjá því og bættu þau þar við sig 25. tímanum  og eiga svo mikið hrós skilið fyrir alla sína frammistöðu þennan rúma sólarhring.  

Fjáröflunin fór langt fram úr væntingum.  Auk þess að margir gestir hafi komið og notið viðburðarins og veitinganna á staðnum voru margir sem ekki höfðu möguleika á að koma en ákváðu að leggja sitt af mörkum með fjárframlagi.

Ferðahópur og við sem að þeim stöndum, foreldrar og starfsmenn,  sendum ykkur öllum okkar bestu þakkir.

Sunna Reynisdóttir