VALMYND ×

Skólafréttir í febrúarlok

Heil og sæl

Nú hafa nemendur og starfsfólk tekið til starfa á ný að loknu vetrarfríi sem vonandi hefur nýst öllum vel til að hlaða batteríin.

Við tökum nýjum tilslökunum á takmörkunum í skólastarfi og samkomuhaldi fagnandi þar sem nú er útlit fyrir að við getum haldið árshátíðina okkar með nokkuð eðlilegum hætti en hún er á skóladagatalinu 25. mars næstkomandi. Undirbúningur fer af stað fljótlega.

Annar kostur við tilslakanirnar er að nú má á nýjan leik halda skólaböll og hefur unglingunum þegar verið boðið á Rósaballið sem haldið verður á Ísafirði fimmtudaginn 11. mars.

Næstu þrjár vikurnar verður Steinunn Ása í vettvangsnámi hjá okkur en hún er í MT námi í kennslu list- og verkgreina með leiklist sem kjörsvið. Við hlökkum til að taka á móti henni og nýta hennar krafta við okkar góða og skapandi skólastarf.

Hér eru atburðir líðandi stundar gripnir til aukinnar umræðu og skilnings. Sem dæmi má nefna að nemendur miðstigi hafa undanfarið verið að vinna með jörðina,  eldvirkni, flekaskil og jarðskjálfta og voru fréttir af jarðhræringunum á Reykjanesi undanfarna daga nýttar til að velta upp hinum ýmst hugtökum sem þeim tengjast.

Yngsta stig hefur verið að vinna með líkamann að undanförnu og gert ýmislegt verklegt því tengt og voru núna í vikunni að búa til eftirlíkingu af lungum. Í vikunni luku mið- og yngsta stig samvinnu þar sem búin voru til ,,operation spil” en í þeirri vinnu sameinaðist fróðleikur um líkamann og það hvernig rafrásir virka. Tilraunatímar yngsta stigsins eru nokkuð reglulega og voru þau í dag að búa til kristalla úr salti og sykri og verður spennandi að fylgjast með afrakstrinum í næstu viku.

Á öllum stigum er lesið, skrifað, unnið í Ipad og tölvu og leitast við að nálgast viðfangsefnin á sem fjölbreyttstan hátt.

Til viðbótar við það mat á námi nemenda sem kennarar vinna höfum við að undanförnu verið að kynna nemendum unglingastigs sjálfsmat í mentor þar sem þeir geta farið yfir hæfniviðmiðin og merkt við hvar þeir eru staddir og eru þá ekki bundnir við að hafa náð þeirri hæfni innan veggja skólans því allsstaðar erum við eitthvað að læra.

Formlegri sundkennslu þetta skólaárið er nú lokið og við taka ýmsar íþróttir inni og úti.

 

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna