VALMYND ×

Vikupistill 16. - 20. mars

Heil og sæl

Þessi vika hefur verið dálítið skrítin þó hefðbundið nám sé allt í föstum skorðum og nemendur yfirvegaðir við þær aðstæður sem nú ríkja. 

Eins og hefur komið fram notuðum við fyrstu tvo daga vikunnar til að sótthreinsa og til að undirbúa breytta kennsluhætti sem þegar hafa komið til framkvæmda hjá yngri nemendum þar sem nokkur þeirra hafa verið að spreyta sig á verkefnum í gegnum Seesaw. Við erum einnig óðum að verða tilbúin að bregðast við fjarnámi með eldri nemendunum ef til þess kemur. Þetta eru áskoranir en öll höfum við gott af þeim. 

Skipulagið sem við vinnum eftir til að framfylgja fyrirmælum almannavarna gengur vel. Skólastigin eru alveg aðskilin en við venjulegar kringumstæður borða allir nemendur saman, fara saman í danstíma og mið og unglingastig er saman í verkgreinum. Þessi aðskilnaður hefur gengið upp. Til að forðast blöndun hafa unglingarnir verið inni í frímínútum og auk þess njóta þeir þeirra forréttinda að fá morgun og hádegismat inn í stofuna til sín. 

Dagný tónlistarkennari hefur starfsstöð hjá okkur en Jón Gunnar kennir okkar nemendum í gegnum Skype. 

Sólveig María sem kom inn í afleysingar frá 1. mars kennir dansinn tímabundið þar sem engir kennarar fara á milli starfsstöðva meðan samkomubann stendur yfir. 

Ég hef ekki viðveru á leikskólanum þessar vikur heldur eingöngu tölvu og símasamskipti við deildarstjóra. Öll verðum við að hugsa þetta þannig að við getum verið sá sýkti og þá viljum við ekki smita aðra og hittum því eins fáa og við mögulega getum komist upp með. Það er einnig mikilvægt að foreldrar hafi í huga hverja börn þeirra umgangast því það er til lítils að passa upp á að nemendur hittist ekki milli hópa í skólanum ef allir leika svo saman eftir að skóla lýkur. Ég set nýjustu upplýsingar frá almannavörnum í sér póst. 

Vikupóstur frá deildarstjóra leikskólans hefur verið sendur öllum foreldrum í tölvupósti. 

 

Bestu kveðjur og njótið helgarinnar

Sunna