VALMYND ×

Vikupistill 9. - 13. mars

Þar sem þær breytingar urðu í dag að takmarkanir voru settar á samkomuhald ætlum við að fresta árshátíð grunnskólans. Við munum samt sem áður nýta tíma til æfinga meðfram öðru námi og stöndum klár í sýningu þegar þar að kemur.  

Við gerum ráð fyrir að skólastarf í leik og grunnskóla raskist ekki mikið þrátt fyrir takmarkanir á samkomum þar sem við erum alla jafna með fámenna hópa . Ef breyting verður á og ný tilmæli berast þess efnis verða upplýsingar sendar foreldrum eins fljótt og unnt er. 

Í vikunni bárust forráðamönnum tölvupóstar frá skólanum þar sem minnt var á að halda börnunum heima ef minnsti vafi leikur á að þau séu með smitandi sjúkdóma en bæði hafa verið í gangi hlaupabóla og Hand, fóta og munnsjúkdómur (gin og klaufaveiki). Einnig kom póstur vegna COVID 19 þar sem minnt var á að halda börnum heima væru þau með inflúensulík einkenni (hósti, þreyta, vöðva/bein/höfuðverkur) að vera heima. Og þar sem allur er varinn góður vil ég minna á að mikið kvefuð börn ættu einnig að vera heima. 

En þá aðeins að liðinni viku og starfinu:

Vikan gekk vel við fjölbreytt nám og starf. Samræmd próf í 9. bekk fóru fram á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Síðustu daga hefur vætlað vatn úr slöngu hér fyrir utan skólann og erum við að vona að þar takist fyrir rest að mynda skautasvell en þegar það verður komið munum við tilkynna það svo bæjarbúar geti komið og rennt sér með okkur. Einnig munum við þá óska eftri því að nemendur komi með hjálma með sér til að nota við skautaiðkunina en við erum með nóg af skautum í húsi.