VALMYND ×

Fréttir

Vikupistill 9. - 13. mars

Þar sem þær breytingar urðu í dag að takmarkanir voru settar á samkomuhald ætlum við að fresta árshátíð grunnskólans. Við munum samt sem áður nýta tíma til æfinga meðfram öðru námi og stöndum klár í sýningu þegar þar að kemur.  

Við gerum ráð fyrir að skólastarf í leik og grunnskóla raskist ekki mikið þrátt fyrir takmarkanir á samkomum þar sem við erum alla jafna með fámenna hópa . Ef breyting verður á og ný tilmæli berast þess efnis verða upplýsingar sendar foreldrum eins fljótt og unnt er. 

Í vikunni bárust forráðamönnum tölvupóstar frá skólanum þar sem minnt var á að halda börnunum heima ef minnsti vafi leikur á að þau séu með smitandi sjúkdóma en bæði hafa verið í gangi hlaupabóla og Hand, fóta og munnsjúkdómur (gin og klaufaveiki). Einnig kom póstur vegna COVID 19 þar sem minnt var á að halda börnum heima væru þau með inflúensulík einkenni (hósti, þreyta, vöðva/bein/höfuðverkur) að vera heima. Og þar sem allur er varinn góður vil ég minna á að mikið kvefuð börn ættu einnig að vera heima. 

En þá aðeins að liðinni viku og starfinu:

Vikan gekk vel við fjölbreytt nám og starf. Samræmd próf í 9. bekk fóru fram á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Síðustu daga hefur vætlað vatn úr slöngu hér fyrir utan skólann og erum við að vona að þar takist fyrir rest að mynda skautasvell en þegar það verður komið munum við tilkynna það svo bæjarbúar geti komið og rennt sér með okkur. Einnig munum við þá óska eftri því að nemendur komi með hjálma með sér til að nota við skautaiðkunina en við erum með nóg af skautum í húsi. 

 

Matseðill 16. - 20. mars

 

Mánudagur 16. mars. Fiskur í Mexíkó og piparostasósu, hrísgrjón og salat. 

Þriðjudagur 17. mars. Gúllas, kartöflumús og salat. 

Miðvikudagur 18. mars. Fiskur í mangósósu, hrísgrjón og salat. 

Fimmtudagur 19. mars. Lasanja og salat. 

Föstudagur 20. mars. Grænmetisbuff (súpa sem átti að vera víxlaðist við síðasta föstudag) 

Til upplýsinga vegna veikinda leik- og grunnskólabarna

Heil og sæl

Undanfarið hafa nokkur börn úr leik og grunnskóla verið heima vegna veikinda með útbrotum. Virðist svo að annarsvegar sé um að ræða hlaupabólu en hinsvegar hand- fót og munnsjúkdóm ( gin og klaufaveiki). 

Ég set hér linka með upplýsingum og minni á mikilvægi þess að tilkynna alltaf til leik og grunnskóla þegar um er að ræða smitandi sjúkdóm. Ef minnsti vafi leikur á er um að gera að láta lækni sjúkdómsgreina. 

 

https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item12481/Hand---fot--og-munnsjukdomur

https://www.landlaeknir.is/smit-og-sottvarnir/smitsjukdomar/sjukdomur/item15637/Hlaupabola-(Varicella-Zoster)

https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item37419/bolusetning-vid-hlaupabolu

 

Bestu kveðjur

Sunna

Til upplýsinga

Með tilliti til þess að almannavarnir hafa lýst yfir neyðarstigi vegna COVID-19 kórónaveirunnar vil ég koma eftirfarandi upplýsingum varðandi leik og grunnskóla á Flateyri. 

Starfsemi skólanna helst óbreytt meðan ekki koma tilmæli um annað. 

Ef til kemur að nemendur eða starfsfólk verði sent heim vegna sóttkvíar verður kennslu grunnskólanemenda haldið uppi með fjarkennslu og heimaverkefnum. 

Við erum meðvituð um smitleiðir og höfum aukið áherslu á handþvott og höfum spritt uppi við á sem flestum stöðum en þess má þó geta að handþvottur er almennur alltaf áður en börnin matast og eftir salernisferðir og því bara handsprittið sem þar bætist við þó það hafi alltaf verið í boði. 

Leiðbeiningar um hvernig draga megi úr sýkingarhættu hafa einnig verið hengdar upp í skólunum á einu eða fleiri tungumálum eftir því sem við á. 

Lögð er áhersla á að þrífa vel yfirborðsfleti, svo sem handrið, hurðarhúna, ljósarofa og fleira.

Þó að það sé liður í auknu sjálfstæði nemenda og minnkun á matarsóun að nemendur skammti sér matinn sjálfir verðum við að bregða á það ráð að skammta á diskana tímabundið til að draga úr líkum á smiti. 

 

Enn sem komið er höldum við áfram að æfa fyrir árshátíð grunnskólans sem stendur til að halda 26. mars næstkomandi en erum því viðbúin að þurfa að fresta henni ef aðstæður breytast. 

Bestu kveðjur

Sunna

Matseðill 9. - 13. mars

Mánudagur: Steiktur fiskur, kartöflur, lauksmjör og salat.

Þriðjudagur: Kjúklingaréttur

Miðvikudagur: Lax

Fimmtudagur: Svikinn héri

Föstudagur: Grænmetisbuff

 

Matseðill 2. - 6. mars

Matseðill 2. - 6. mars

2. mars Hakk og spaghettí

3. mars Soðinn fiskur, kartöflur, rúgbrauð og grænmeti

4. mars Grjónagrautur, brauð og álegg

5. mars Fiskur í orlí, kartöflur og salat

6. mars Reyktur grísahnakki, gratineraðar kartöflur, sósa og salat

Starfsdagur í grunnskólanum miðvikudag, vetrarfrí á fimmtudag og föstudag

Miðvikudaginn 26. febrúar verður starfsdagur í grunnskólanum og síðan verður vetrarfrí á fimmtudag og föstudag. Viiðtalsdagur riðlaðist eitthvað vegna veðurs og minni ég þá sem eiga eftri að fá viðtal á að hafa samband við umsjónarkennar og bæta úr því. 

Unglingastigið fer á Ísafjörð í dag

 Nemendur 9. og 10. bekkjar fara í dag yfir á Ísafjörð þar sem Elísabet Lorange listmeðferðarfræðingur verður með námskeið fyrir þá á vegum VáVest  Námskeiðið hefst klukkan 9 og stendur til kl. 12:30. Matur verður í mötuneyti grunnskólans á Ísafirði.  Þeir sem eru að fara í val halda áfram á Ísafirði en aðrir fá far heim eftir hádegið. 

Fræðslufundur fyrir foreldra, um afleiðingar áfalla og leiðir til að takast á við þær.

Nú er Petra Hólmgrímsdóttir sálfræðingur búin að heimsækja okkur undanfarið og spjalla við börn og foreldra sem það hafa þegið og meta þjónustuþörf áfallameðferðar eftir snjóflóðin. Í framhaldi af þessari áfallavinnu verður hún með fræðslufund fyrir foreldra og verður hann í grunnskólanum þriðjudaginn 25. febrúar kl. 8:30. Á fundinum verður stutt fræðsla um hvernig afleiðingar áfalla birtast hjá börnum og farið yfir gagnlegar upplýsingar og leiðir fyrir foreldra til að takast á við afleiðingar áfalla með börnunum sínum. Eru foreldrar almennt séð mikilvægasti hlekkurinn í þeirri vegferð. Petra verður svo til viðtals eftir fundinn fyrir þá sem vilja. Áframhald verður á áfallavinnunni meðan þörf er á. 

Ljóða og smásagnamaraþon -þakkir

Glæsilegt kaffihlaðburð tilbúið
Glæsilegt kaffihlaðburð tilbúið
1 af 6

Ljóða og smásagnamaraþon

Nú er liðin vika frá því að nemendur unglingastigs héldu ljóða og smásagnamaraþon sem stóð yfir í 24 klukkustundir frá 13:30 á föstudegi til 13:30 á laugardegi. Þar sem þessi viðburður var í fjáröflunarskyni voru seldar veitingar frá klukkan 16 á föstudeginum og fram að lokum viðburðarins. Þetta varð því einnig heimilisfræðimaraþon þegar upp var staðið.

Það sem einkenndi stemninguna á staðnum var samviskusemi unglinganna. Margir gestir lögðu leið sína í grunnskólann en jafnvel þó að engir gestir væru að hlusta á tímum var hvergi slakað á við lesturinn. Þarna voru flutt ljóð eftir hina ýmsu höfunda og lesnar smásögur inn á milli. Nemendur fluttu einnig sín eigin ljóð og gestir tóku upp bók og lásu sögur eða ljóð. Það var mjög skemmtileg stemning um miðnættið þegar nemendur skiptust á að lesa smásögurnar sem þeir hafa verið að skrifa í vetur og komu þar fram miklir hæfileikar. Kappið var svo mikið að sögur voru samdar á staðnum og fluttar strax að skrifum loknum.

Samviskusemin og metnaðurinn var ekki minni þegar kom að eldhússtörfunum en framm var reitt kaffihlaðborð klukkan fjögur og svo súpa og brauð klukkan sjö. Eftir kvöldmatinn var aftur sett upp kaffihlaðborð og meira að segja bökuð frönsk súkkulaðikaka til að bæta við úrvalið. Þetta hlaðborð stóð fram til tólf á hádegi en þá tók við dögurður og stóð til loka.

Á hliðarlínunni voru foreldrar og starfsfólk  sem aðstoðuðu við eldhússtörf eftir þörfum og sáu um gæslu í húsinu.

Þess má geta að nemendurnir eru ekki nema 6 talsins og því mikið sem hver og einn lagði á sig og ekki mikið um hvíld þó allir hafi náð smá kríu. Og þegar kom að frágangi eftir 24 tíma törnina var svo ánægjulegt að sjá að enginn reyndi að komast hjá því og bættu þau þar við sig 25. tímanum  og eiga svo mikið hrós skilið fyrir alla sína frammistöðu þennan rúma sólarhring.  

Fjáröflunin fór langt fram úr væntingum.  Auk þess að margir gestir hafi komið og notið viðburðarins og veitinganna á staðnum voru margir sem ekki höfðu möguleika á að koma en ákváðu að leggja sitt af mörkum með fjárframlagi.

Ferðahópur og við sem að þeim stöndum, foreldrar og starfsmenn,  sendum ykkur öllum okkar bestu þakkir.

Sunna Reynisdóttir