VALMYND ×

Fréttir

Bólusetningar barna í 1. - 6. bekk

Sælir kæru foreldrar

Bólusetningar barna í 1. - 6. bekk G.Ö. fara fram á Heilsugæslunni á Ísafirði fimmtudaginn 13. janúar kl. 15:10. 

 

Allar upplýsingar um bólusetningu barna má finna hér á vef Heilbrigiðsstofnunar Vestfjarða,

og hér á vef Embættis landlæknis. 

 

Aðventufréttir úr Grunnskóla Önundarfjarðar

Kiddi Valdi var fenignn með keðjusög til að hjálpa okkur að fella tréð
Kiddi Valdi var fenignn með keðjusög til að hjálpa okkur að fella tréð
1 af 10

Eftir að hafa komist á bragðið með að nota QR kóða koma endalausar nýjar hugmyndir með notkun þeirra. Nú á aðventunni opna nemendur QR kóða á hverjum morgni sem geymir upplýsingar úr samverudagatali okkar. Samveran er eitthvað skemmtilegt sem tekur eina til tvær kennslustundir og má nefna að fyrsta daginn fórum við út í skóg og sóttum okkur jólatré sem sett var við innganginn. Annan daginn gerðum við skraut á jólatréð og átti það að vera búið til úr efniviði úr náttúrunni ásamt allskonar efniviði sem safnast hefur í gegnum árin. Við erum nefnilega líka að vinna með heimsmarkmiðið  sjálfbærni og höfum kallað verkefnið ,,sjálfbær jól". Nú á þriðja samverudegi fórum við á skauta ásamt elstu nemendum leikskólans og hituðum kakó og bökuðum vöfflur á eldstæðinu. 

 

Góð námsvika að baki

Nemendur bjóða gesti velkomna
Nemendur bjóða gesti velkomna
1 af 10

Nú er lokið enn einni góðri námsvikunni og innihélt hún bæði Dag íslenskrar tungu og Dag mannréttinda barna. Af tilefni þessar tveggja daga héldum við okkar árlega kaffihús af því tilefni. Nám vikunnar einkenndist af undirbúningi fyrir kaffihúsið. Hér er kynning nemendanna á kaffihúsinu og segir hún allt sem segja þarf ásamt myndum: 

.

 

Góðir gestir við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á okkar árlega kaffihús. 

 

 

Við höfum alltaf kaffihús í tengslum við dag íslenskrar tungu en hann var fyrir tveimur dögum. Það er merkilegt að við eigum okkar sérstaka mál sem bara er talað hér á þessar

i eyju sem ekki er svo stór og íbúarnir aðeins um 370 þúsund. 

Til samanburðar má nefna að enska er móðurmál hátt í 370 milljóna og samt er það ekki það móðurmál sem flestir tala. 

 

Við verðum að passa vel upp á íslenskuna okkar og blanda ekki slettum úr öðrum málum inn í hana. 

Eftit tvo daga er Alþjóðadagur mannréttinda barna og við viljum líka tengja kaffihúsið okkar við vitund um réttindi barna. 

Til að minna okkur á þessi réttindi höfum við Barnasáttmála og eru eftirfarandi greinar dæmi úr honum: 

 

Öll börn eru jöfn og njóta sömu réttinda án mismununar af nokkru tagi. 

 

Öll börn hafa rétt á að tjá sig frjálslega um málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim. 

 

Öll börn eiga rétt á því að deila skoðunum sínum, vitneskju og hvernig þeim líður, með því að tala um það, teikna, eða tjá sig á annan hátt svo lengi sem það hefur ekki skaðleg áhrif á annað fólk

 

Við erum að læra um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og það heimsmarkmið sem þið sjáið helst bregða fyrir hér núna er Sjálfbærni. Við bjuggum kertin til úr kertaafgöngum frá bæjarbúum. Við bökuðum allt sjálf og bjóðum upp á rabbarbarasultu sem við bjuggum sjálf til. Í verkefnum sem þið skoðið hjá yngra stiginu er efniviður sem hefur fallið til og einhverjir hefðu bara verið búnir að henda. 

Við njótum þeirra forréttinda að geta unnið með tækni og sýningin okkar ber þess merki. MIkill hluti skemmtunarinnar er falinn á bak við QR kóða. 

 

Þegar þið hafið notið veitinganna hér í dágóða stund munum við bjóða öllum sem það vilja að taka þátt í kahoot spurningakeppni sem við bjuggum til útfrá fuglunum sem eru á húsveggjum víða um bæinn. 

Síðan bjóðum við ykkur að ganga um og skyggnast á bak við QR kóðana. 

Takk fyrir komuna og Góða skemmtun.

Kaffihús 18. nóvember

Við erum byrjuð að baka :)
Við erum byrjuð að baka :)

Heil og sæl

Nú er komið að því að við höfum okkar árlega Kaffihús í Grunnskóla Önundarfjarðar fimmtudaginn 18. nóvember kl. 17:00.

Hefð er fyrir því að hafa kaffihúsið í kringum Dag íslenskrar tungu sem er 16. nóvember og miða dagskrána við áherslur á íslenska tungu og hefur það til dæmis verið gert með flutningi ýmissa verka á sviði.

Í þetta sinn ákváðum við að huga líka að Degi mannréttinda barna sem er 20. nóvember og hvernig við gætum tengt kaffihúsið  þeim degi með einhverju móti þar sem kaffihúsið okkar er dagsett mitt á milli þessara tveggja daga. Dagskrá kaffihússins hefur verið útbúin með fjölbreyttum hætti og tæknin nýtt til hins ítrasta og hugað að námi við hæfi hvers einstaklings. Við eigum orðið fjölbreytt úrval til upplýsinga og tæknimenntar og má þess geta að ein grein barnasáttmálans kveður á um aðgengi að upplýsingum sem ekki er eins sjálfgefinn hlutur allsstaðar og hann er hjá okkur.

Nú biðjum við ykkur ekki um að skilja símana eftir heima heldur verða þeir nauðsynlegir við þátttöku í dagskránni.

Við erum meðvituð um sóttvarnaraðgerðir og verðum ekki fleiri en 50 í húsinu þó foreldrar, systkini, ömmur og afar og aðrir tengdir séu hjartanlega velkomnir. Gott aðgengi að spritti og grímum.

Við byrjum með því að fá okkur kaffi og með því kl. 17:00 og síðan taka gestir þátt í því sem nemendur og kennarar hafa að sýna.

Aðgangur er 1.500 krónur fyrir fullorðna.

 

Gildandi sóttvarnarreglur í grunnskólum

• Grunnskólabörn eru undanskilin 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu en þau skulu hvött til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna.

• Starfsfólk skóla þarf ekki að vera með grímur í samskiptum við nemendur en þeim ber að gæta að 1 metra fjarlægðarreglu sín í milli, ellegar nota grímu. Kennarar mega taka niður grímu eftir að sest er niður í skólastofum.

• Samanlagður hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda í innanhúsrýmum er 50 . Gangar teljast ekki til rýmis í þessu samhengi (inngangar eða gangar milli skólastofa).

• Blöndun hópa er heimil hvort sem um ræðir börn eða starfsfólk en starfsfólk skal gæta fyllstu varúðar og virða nálægðarmörk eftir því sem frekast er unnt.

• Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi eiga að sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar, gæta að sóttvörnum og 1 metra fjarlægðarreglu og nota grímu sé ekki hægt að uppfylla hana.

• Grunnskólum er heimilt að halda skemmtanir fyrir allt að 500 gesti að því gefnu að gestir framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst. Slíkar skemmtanir eru undanþegnar nálægðartakmörkun og grímuskyldu en skrá skal alla gesti með nafni, kennitölu og símanúmeri. Skrána skal varðveita í tvær vikur og henni eytt að þeim tíma liðnum.

Fram á veginn

Á fimmtudaginn í næstu viku er okkar árlega kaffihúsakvöld á dagskrá. Við stefnum ótrauð á það þó enn sem endranær séu sóttvarinir afar mikilvægar. Við erum með sprittbrúsana víða uppi við og grímur fyrir þá sem þurfa. 

Nemendur munu sýna gestum ýmislegt sem þeir hafa verið að læra og einnig selja veitingar á vægu verði. 

Þetta er tvöfaldur dagur hjá nemendum og því verða þau að störfum nánast samfellt frá 8:10 að morgni til 16:00 við undirbúning en geta svo skroppið aðeins heim þar til gestir eru væntanlegir í hús rétt fyrir 17:00

Dagskráin er fyrirhuguð frá kl 17:00 og þar til síðasti gestur hefur séð nóg og yfirgefur bygginguna. 

Horft til baka

Það  er búið að vera mikið um að vera hjá okkur eins og alltaf í skólastarfi Grunnskóla Önundarfjarðar. Frá því að við tókum okkur vetrarfrí um miðjan október erum við búin að taka slátur og læra þar með ýmislegt nýtt um fullnýtingu afurða sem var lífsnauðsynleg á árum áður og nauðsyn þess að við hugum enn vel að því að nýta eins vel og hægt er. Líffæri og annað sem fylgir sláturgerðinn var skoðað gaumgæfilega og margir sigruðust á því að finnast óhugnarlegt að snerta í fyrstu. 

Við erum búin að taka einn skóladag á Þingeyri með nemendum og starfsfólki þar en sá dagur var nýttur í verkefni á vegum List fyrir alla. Verkin okkar fóru síðan á sýngu á Ísafirði ásamt verkum annarra nemenda á Vestfjörðum. 

Við héldum okkar Hrekkjavöku á Vagninum þar sem okkur var boðið að njóta þess að búið var að setja hann í drungalegan búning og fengum við veitingar við hæfi, grænan drykk og popp. Þetta var mikil upplifun og las Jóna sögu sem nemendur á yngsta stigi höfðu samið og var bæði sagna og flutningur hennar með allra drungalegasta móti. 

Við erum búin að fá að gjöf frá Önfirðingafélaginu og Kvenfélaginu Brynju sýndarveruleikagleraugu sem eiga eftir að nýtast okkur vel í fjölbreyttu námi. 

Unglingurinn okkar fór til Ísafjarðar til að njóta heimsóknar Geðlestarinnar sem var á ferð um landið. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er styrkt af heilbrigðisráðuneytinu. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. 

Við settum saman gjafir ,,Jól í skókassa" og Fjölnir prestur nálgaðist þær og kom á réttan stað svo þær kæmust í tæka tíð til barna í Úkraínu sem  búa við fátækt og þurfa á þeim að halda. Við náðum að setja samna fjórar gjafir og áttum samt afgang af ýmsu sem hafði safnast saman og gátum einnig gefið barni innanlands ýmislegt sem það þarfnaðist. 

Við héldum vísindadag 10. nóvember en sá dagur er Alþjóðadagur vísinda í þágu friðar og þróunar á vegum UNESCO. Við gerðum þá margar tilraunir og ræddum um þær og hvers vegna vísindi eru mikilvæg. 

Í gær fóru svo allir nemendur skólans á Ísafjörð í fablab og fengu þar fræðslu um hvernig það virkar og hvernig QR kóðar eru búnir til. Þau komu færandi hendi með QR kóða fyrir skólann. Einnig byrjuðu þau að vinna að verkefni sem vonandi kemur ykkur fyrir sjónir fyrr en seinna. 

Auk þessa er stundaskráin full af hefðbundnum og óhefðbundnum greinum sem eru unnar með fjölbreyttum aðferðum úti og inni, kyrr eða á hreyfingu. 

Sýning á afrakstri af List fyrir alla

Veður, fegurð og fjölbreytileiki

Nemendur í grunnskólunum á norðanverðum Vestfjörðum tóku þátt í listasmiðjum á vegum List fyrir alla í vikunni og sýna afraksturinn í Edinborg á Ísafirði núna á föstudaginn 29. október milli kl. 15 og 18. 


Í fánasmiðjunni unnu nemendur eldra stigs og miðstigs með líffjölbreytileikann á norðurslóðum og heiðruðu náttúruna með litríkum óskafánum. Í veðursmiðjunni unnu nemendur með veðrið. Smíðuðu vindörvar og sköpuðu veðurkerfi, skoðuðu veðurkort og lásu úr þeim.  


Allir eru velkomnir og foreldrar og aðstandendur eru hvattir til að heimsækja sýninguna til að fagna sköpunargleði barnanna.


Verkefnið er styrkt af List fyrir alla. 


Kennarar eru: Alda Cartwright og Kristín Bogadóttir


Þátttakendur eru:  

Miðstig Grunnskóla Bolungarvíkur

Grunnskóli Önundarfjarðar

Grunnskólinn á Suðureyri

Grunnskólinn á Þingeyri

Grunnskólinn í Súðavík

8.-9. Bekkur grunnskólans á Ísafirði

Skólablak á Ísafirði 11. október 2021

Í dag er skólablakið haldið á Ísafirði og eru miðstigskrakkarnir okkar að fara eftir eftir hádegið. Það verður vænatnlega mikið fjör og upplifun. Undanfarna daga eru þau búin að vera að æfa sig með blakboltann. Það er Blaksamband Íslands sem stendur á bak við viðbuðinn og hér má lesa meira: https://bli.is/skolablak/?fbclid=IwAR0l_p-F32XNFTkHybRQKD5NH2lG6hfP2FryqiVG83t8Kgy50YeUqdfUxps

 

Kynning á leiðsagnarnámi

Á síðasta skólaári sóttu allir grunnskólar á norðanverðum Vestfjörðum um styrk til Sprotasjóðs til innleiðingar leiðsagnarnáms. Sprotasjóður er sameiginlegur sjóður fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá.  Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) sér  um umsýslu Sprotasjóðs skv. samningi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Skólarnir allir hlutu í sameiningu styrk upp á kr. 900.000 til verkefnisins, sem mun standa yfir á árunum 2021-2023.

Í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) segir að leggja skuli áherslu á leiðsagnarmat (Formative assessment)  þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Segja má að hugmyndafræði leiðsagnarnáms sé rauði þráðurinn í gegnum Aðalnámskrá grunnskóla.   Shirley Clarke er enskur sérfræðingur sem hefur skrifað fjölda bóka um leiðsagnarmat eða leiðsagnarnám  (Assessment for learning)  og haldið erindi og námskeið viða um heim, m.a. hér á landi. Aðferðirnar byggir hún á niðurstöðum virtra rannsókna en þær eru þróaðar í samstarfi við starfandi kennara. Leiðsagnarnám hefur verið skilgreint á ýmsa vegu, en út frá áherslum Clarke má í stuttu máli segja að leiðsagnarnám sé námsmenning þar sem megináherslan er á nám nemenda, fremur en kennslu kennarans. Skólar sem fylgja aðferðafræðinni hafa náð mjög góðum framförum í námi. Það er markmið okkar að efla leiðsagnarnám í skólunum þar sem þunginn er nám nemandans fremur en matið.

Eftirtalin hugtök einkenna skólasamfélag þar sem leiðsagnarnám er haft að leiðarljósi:

Hugarfar: Mikil áhersla er lögð á að efla vaxtarhugarfar ( growth mindset) nemenda gagnvart námi. Þegar nemendur hafa vaxtarhugarfar þá vita þeir að framfarir nást með þrautseigju.

Mistök: Mistök skapa tækifæri til að læra. Enginn þarf að skammast sín fyrir að gera mistök, því allir mestu snillingar heimsins hafa gert fjölda mistaka og lært af þeim. Ef nemandinn þarf ekkert að hafa fyrir náminu, þá er verkefnið sennilega of auðvelt og nemandinn lærir lítið eða ekkert.

Heilinn: Líkt og vöðvar, þá eflist heilinn þegar hann er notaður.

Markmið: Nemendur eru meðvitaðir um hvað þeir eiga að læra í hverri kennslustund, ekki bara hvað þeir eiga að gera. Þeir stefna að ákveðnu markmiði og vita hvar þeir eru staddir á leið sinni þangað og hvenær þeir hafa náð markmiðinu.

Viðmið: Skýr viðmið um árangur eru skilgreind í upphafi. Nemendur er meðvitaður um til hvers er ætlast og  hvað þeir þurfa að gera til þess á ná árangri.

Vinnubrögð: Nemendur vinna á fjölbreyttan og skapandi hátt og hafa ýmsa möguleika til að læra og sýna hvaða hæfni þeir hafa tileinkað sér. Þeir vinna ýmist einir, tveir og tveir eða í stærri hópum. Þeir skipta reglulega um samstarfsfélaga. Áhersla er lögð á meðvitund nemenda um eigið nám og að þeir beri ábyrgð á námi sínu í samræmi við þroska.

Endurgjöf: Kennarinn notar endurgjöf til þess að styðja nemendur í átt að námsmarkmiðum sínum. Í kennslustundum bendir kennarinn nemendunum reglulega á hvernig þeim gengur að ná markmiðum sínum og hvað þeir geta gert til að gera enn betur. Þannig geta nemendurnir strax nýtt endurgjöfina. Stundum getur endurgjöfin líka verið skrifleg Meginmarkmið með endurgjöf er alltaf að hjálpa nemendum til að ná markmiðum sínum. Nemendur gefa einnig hver öðrum endurgjöf út frá þeim viðmiðum sem hafa verið skilgreind, og nemendur meta sjálfir eigin vinnu. Áhersla er lögð á að kennarar nýti sér einnig þá endurgjöf sem þeir fá frá nemendum.

Námsfélagar/samráðsfélagar: Tveir og tveir nemendur ræða saman, ígrunda, svara saman spurningum, leysa verkefni  eða skiptast á hugmyndum í afmarkaðan tíma. Það hjálpar nemendum að orða hugsanir sínar og þeir læra hver af öðrum. Nemendur skipta reglulega um námsfélaga/samráðsfélaga.

Samræður: Engar hendur upp, allir með.  Kennarinn varpar reglulega fram spurningum, athugasemdum eða hugmyndum til að vekja áhuga og forvitni nemenda. Í stað þess að biðja nemendur um að rétta upp hönd dregur hann nafn þess sem segir frá, eftir að allir hafa fengið tíma til að hugsa. Þetta er gert svo allir  í hópnum glími við spurninguna sem lögð er fyrir en sumir bíði ekki bara eftir því að þeir sömu svari alltaf fyrir þá.

Nanna Kristín Christiansen hefur tekið að sér að vera leiðbeinandi skólanna í þessu innleiðingarferli. Hún er uppeldis- og menntunarfræðingur og hefur starfað á sviði menntamála í áratugi og gefið út nokkrar bækur, þ.á.m. bókina Leiðsagnarnám - Hvers vegna, hvernig, hvað? sem er nokkurs konar leiðarvísir kennara og skólastjórnenda varðandi leiðsagnarnám. Nanna hefur tekið saman kynningu á leiðsagnarnámi fyrir foreldra og má nálgast þá kynningu hér.