VALMYND ×

Fréttir

Kílómeter á dag kemur öllu í lag

Nemendur fyrir utan Gunnukaffi áður en haldið var til baka.
Nemendur fyrir utan Gunnukaffi áður en haldið var til baka.
1 af 7

Eitt af því sem eflir heilsu, seiglu og þrautseigju nemenda í Grunnskóla Önundarfjarðar eru daglegar gönguferðir í mötuneytið sem staðsett er í Gunnukaffi. Nemendur hafa mælt vegalengdina milli skóla og mötuneytis sem er um 500 metrar og því ljóst að nemendur ganga ekki styttra er einn kílómeter hvern skóladag. Vegna covid hafa komið tímabil sem við höfum ekki farið í mötuneytið heldur borðað í grunnskólanum en nú er vonandi síðasta slíku tímabili lokið.  Á meðfylgjandi myndum má sjá ánægjuna skína úr hverju andliti í gönguferðum dagsins enda allir vel búnir og yfir hverju ætti þá að kvarta? Yngri nemendurnir fóru meira að segja í tvær gönguferðir í dag þar sem það var samvinnudagur leik og grunnskóla og þótti betra að fylgja leiksólastjórnanum og hennar nemendum í öruggt skjól að samvinnu lokinni. 

Toppönd komið til bjargar

1 af 3

Það eru mörg óvænt verkefnin sem koma upp í skólastarfinu. Í morgun þegar nemendur voru að mæta í skólann var einnig á ferðinni frekar áttavilltur toppandarsteggur. Við ákváðum að taka hann inn í skólann og kynna okkur hvað þyrfti að gera fyrir hann en höfðum fengið upplýsingar frá viðstöddum að hann þyrfti sennilega bara að komast að sjónum. Við vorum samt ekki sannfærð um að ekkert amanði að honum þar sem hann var mjög rólegur og hreyfði sig lítið í kassanum sem hann var settur í. Eftir samtal við starfsmenn á náttúrufræðistofu Vestfjarða ákváðum við að prófa hvað gerðist ef við færum með hann í fjöruna. Og viti menn, um leið og hann sá sjóinn spratt hann upp úr kassanum og synti hinn sprækasti. Allir voru mjög ánægðir með þessi málalok og lærðum við mikið af þessu verkefni. Þess má geta að fuglaþema er í gangi hjá okkur í vetur og vita nemendur þó nokkuð orðið um fuglana. 

Samstarf grunnskóla og framhaldsskóla á norðanverðum Vestfjörðum

Miðvikudaginn 9. mars hittust skólastjórnendur grunnskóla á norðanverðum Vesfjörðum og Menntaskólans á Ísafirði á fundi. Umræðuefnið var efling samstarfs milli skólastiganna tveggja. Mikill hugur er í skólastjórnendum um að auka samstarf milli skólastiganna, bæði hvað varðar starfsfólk og nemendur. Næsti fundur skólastjórnenda verður haldinn í Grunnskólanum í Bolungarvík í byrjun maí og þar verða línurnar fyrir formlegra frekara samstarfi betur lagðar.

Við erum heppin að hafa Skautasvellið á Flateyri við skólann

Hér má sjá innslag úr Landanum um Skautasvellið á Flateyri sem við erum svo heppin að hafa við skólann. Svellið hefur nýst okkur á ýmsa vegu við okkar fjölbreytta og skapandi skólastarf. Það er alltaf mikil gleði sem fylgir því að fara á skauta auk þess sem þar reynir á úthald, þrautseigju, kjark og þor svo eitthvað sé nefnt. 

 

Skólastarf í ársbyrjun

Heil og sæl

Nú er allt komið í eðlilegt horf hjá okkur eftir frekar kalda skólabyrjun en þegar við mættum eftir jólafrí var ólag á kyndikerfinu.

Skipulagi fyrstu vikunnar var því breytt í flýti með nýjar áhlerslur miðað við ástandið. Unnu allir saman að verkefnum sem snerust meðal annars um að endurnýta grenitréð sem við sóttum í desember og hefur nú þjónað sínum tilgangi sem jólatré. Einnig var farið í leiðangur til að saga tré á tjaldsvæðinu sem hafa brotnað undan snjó eða veðri og var sá efniviður einnig nýttur til sköpunar. Við vorum svo heppin að í verkmenntastofunni var hlýtt og notalegt svo þar fór öll innanhúss kennsla fram. Í Grunnskóla Önundarfjaraðar eru hörkuduglegir krakkar sem hvattir eru áfram af starfsmönnum og seigla allsráðandi.

Við náðum síðasta frostdeginum fyrir storm og hláku og prufuðum hokkíbúnaðinn sem gefinn var af Skautafélagi Reykjavíkur. Það er erfitt að skauta á hokkískautum en þá er bara að æfa sig meira og ekki síst í að detta.

Svo kom djúpa lægðin og við fengum okkur göngu til að skoða verksumerki á eyrinni. Sjórinn hafði flætt ansi hátt upp á bryggjuna og oddann.

Núna seinni vikuna hefur verið hlýrra hjá okkur í skólanum og hægt að nota bekkjarstofurnar á ný svo hefðbundnara starf hefur fengið sitt pláss.

Yngri nemendurnir eru alltaf mikið í útikennslu og hafa verið að reyna að laða að fugla með því að útbúa fóðurstöðvar sem þau hengdu í tré víða um þorpið. Út frá því hefur spunnist heilmikið verkefni drifið áfram af forvitni þeirra um að vita meira og meira um fuglana.  Einnig eru þau að gera ýmsar aðrar tilraunir.

Þar sem svo margt hefur gengið á í veðrinu undanfarið, þrumur og eldingar og djúp lægð svo eitthvað sé nefnt er vel við hæfi að veðurþema sé á áætlun. Eldri krakkarnir eru að vinna með veðrið en fóru samt ekki út til þess í dag heldur nýttum við sýndarveruleika og brugðum okkur í veðurfyrirbrigðin fellibyl og hvirfilvind sem við þurfum vonandi aldrei að upplifa. 

Bólusetningar barna í 1. - 6. bekk

Sælir kæru foreldrar

Bólusetningar barna í 1. - 6. bekk G.Ö. fara fram á Heilsugæslunni á Ísafirði fimmtudaginn 13. janúar kl. 15:10. 

 

Allar upplýsingar um bólusetningu barna má finna hér á vef Heilbrigiðsstofnunar Vestfjarða,

og hér á vef Embættis landlæknis. 

 

Aðventufréttir úr Grunnskóla Önundarfjarðar

Kiddi Valdi var fenignn með keðjusög til að hjálpa okkur að fella tréð
Kiddi Valdi var fenignn með keðjusög til að hjálpa okkur að fella tréð
1 af 10

Eftir að hafa komist á bragðið með að nota QR kóða koma endalausar nýjar hugmyndir með notkun þeirra. Nú á aðventunni opna nemendur QR kóða á hverjum morgni sem geymir upplýsingar úr samverudagatali okkar. Samveran er eitthvað skemmtilegt sem tekur eina til tvær kennslustundir og má nefna að fyrsta daginn fórum við út í skóg og sóttum okkur jólatré sem sett var við innganginn. Annan daginn gerðum við skraut á jólatréð og átti það að vera búið til úr efniviði úr náttúrunni ásamt allskonar efniviði sem safnast hefur í gegnum árin. Við erum nefnilega líka að vinna með heimsmarkmiðið  sjálfbærni og höfum kallað verkefnið ,,sjálfbær jól". Nú á þriðja samverudegi fórum við á skauta ásamt elstu nemendum leikskólans og hituðum kakó og bökuðum vöfflur á eldstæðinu. 

 

Góð námsvika að baki

Nemendur bjóða gesti velkomna
Nemendur bjóða gesti velkomna
1 af 10

Nú er lokið enn einni góðri námsvikunni og innihélt hún bæði Dag íslenskrar tungu og Dag mannréttinda barna. Af tilefni þessar tveggja daga héldum við okkar árlega kaffihús af því tilefni. Nám vikunnar einkenndist af undirbúningi fyrir kaffihúsið. Hér er kynning nemendanna á kaffihúsinu og segir hún allt sem segja þarf ásamt myndum: 

.

 

Góðir gestir við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á okkar árlega kaffihús. 

 

 

Við höfum alltaf kaffihús í tengslum við dag íslenskrar tungu en hann var fyrir tveimur dögum. Það er merkilegt að við eigum okkar sérstaka mál sem bara er talað hér á þessar

i eyju sem ekki er svo stór og íbúarnir aðeins um 370 þúsund. 

Til samanburðar má nefna að enska er móðurmál hátt í 370 milljóna og samt er það ekki það móðurmál sem flestir tala. 

 

Við verðum að passa vel upp á íslenskuna okkar og blanda ekki slettum úr öðrum málum inn í hana. 

Eftit tvo daga er Alþjóðadagur mannréttinda barna og við viljum líka tengja kaffihúsið okkar við vitund um réttindi barna. 

Til að minna okkur á þessi réttindi höfum við Barnasáttmála og eru eftirfarandi greinar dæmi úr honum: 

 

Öll börn eru jöfn og njóta sömu réttinda án mismununar af nokkru tagi. 

 

Öll börn hafa rétt á að tjá sig frjálslega um málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim. 

 

Öll börn eiga rétt á því að deila skoðunum sínum, vitneskju og hvernig þeim líður, með því að tala um það, teikna, eða tjá sig á annan hátt svo lengi sem það hefur ekki skaðleg áhrif á annað fólk

 

Við erum að læra um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og það heimsmarkmið sem þið sjáið helst bregða fyrir hér núna er Sjálfbærni. Við bjuggum kertin til úr kertaafgöngum frá bæjarbúum. Við bökuðum allt sjálf og bjóðum upp á rabbarbarasultu sem við bjuggum sjálf til. Í verkefnum sem þið skoðið hjá yngra stiginu er efniviður sem hefur fallið til og einhverjir hefðu bara verið búnir að henda. 

Við njótum þeirra forréttinda að geta unnið með tækni og sýningin okkar ber þess merki. MIkill hluti skemmtunarinnar er falinn á bak við QR kóða. 

 

Þegar þið hafið notið veitinganna hér í dágóða stund munum við bjóða öllum sem það vilja að taka þátt í kahoot spurningakeppni sem við bjuggum til útfrá fuglunum sem eru á húsveggjum víða um bæinn. 

Síðan bjóðum við ykkur að ganga um og skyggnast á bak við QR kóðana. 

Takk fyrir komuna og Góða skemmtun.

Kaffihús 18. nóvember

Við erum byrjuð að baka :)
Við erum byrjuð að baka :)

Heil og sæl

Nú er komið að því að við höfum okkar árlega Kaffihús í Grunnskóla Önundarfjarðar fimmtudaginn 18. nóvember kl. 17:00.

Hefð er fyrir því að hafa kaffihúsið í kringum Dag íslenskrar tungu sem er 16. nóvember og miða dagskrána við áherslur á íslenska tungu og hefur það til dæmis verið gert með flutningi ýmissa verka á sviði.

Í þetta sinn ákváðum við að huga líka að Degi mannréttinda barna sem er 20. nóvember og hvernig við gætum tengt kaffihúsið  þeim degi með einhverju móti þar sem kaffihúsið okkar er dagsett mitt á milli þessara tveggja daga. Dagskrá kaffihússins hefur verið útbúin með fjölbreyttum hætti og tæknin nýtt til hins ítrasta og hugað að námi við hæfi hvers einstaklings. Við eigum orðið fjölbreytt úrval til upplýsinga og tæknimenntar og má þess geta að ein grein barnasáttmálans kveður á um aðgengi að upplýsingum sem ekki er eins sjálfgefinn hlutur allsstaðar og hann er hjá okkur.

Nú biðjum við ykkur ekki um að skilja símana eftir heima heldur verða þeir nauðsynlegir við þátttöku í dagskránni.

Við erum meðvituð um sóttvarnaraðgerðir og verðum ekki fleiri en 50 í húsinu þó foreldrar, systkini, ömmur og afar og aðrir tengdir séu hjartanlega velkomnir. Gott aðgengi að spritti og grímum.

Við byrjum með því að fá okkur kaffi og með því kl. 17:00 og síðan taka gestir þátt í því sem nemendur og kennarar hafa að sýna.

Aðgangur er 1.500 krónur fyrir fullorðna.

 

Gildandi sóttvarnarreglur í grunnskólum

• Grunnskólabörn eru undanskilin 1 metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu en þau skulu hvött til fyllstu varkárni og persónulegra sóttvarna.

• Starfsfólk skóla þarf ekki að vera með grímur í samskiptum við nemendur en þeim ber að gæta að 1 metra fjarlægðarreglu sín í milli, ellegar nota grímu. Kennarar mega taka niður grímu eftir að sest er niður í skólastofum.

• Samanlagður hámarksfjöldi starfsfólks og nemenda í innanhúsrýmum er 50 . Gangar teljast ekki til rýmis í þessu samhengi (inngangar eða gangar milli skólastofa).

• Blöndun hópa er heimil hvort sem um ræðir börn eða starfsfólk en starfsfólk skal gæta fyllstu varúðar og virða nálægðarmörk eftir því sem frekast er unnt.

• Foreldrar, aðstandendur og aðrir utanaðkomandi eiga að sýna aðgát þegar þeir koma inn í skólabyggingar, gæta að sóttvörnum og 1 metra fjarlægðarreglu og nota grímu sé ekki hægt að uppfylla hana.

• Grunnskólum er heimilt að halda skemmtanir fyrir allt að 500 gesti að því gefnu að gestir framvísi neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi (antigen) sem má ekki vera eldra en 48 klst. Slíkar skemmtanir eru undanþegnar nálægðartakmörkun og grímuskyldu en skrá skal alla gesti með nafni, kennitölu og símanúmeri. Skrána skal varðveita í tvær vikur og henni eytt að þeim tíma liðnum.