VALMYND ×

Fréttir

Ljóða og smásagnamaraþon -þakkir

Glæsilegt kaffihlaðburð tilbúið
Glæsilegt kaffihlaðburð tilbúið
1 af 6

Ljóða og smásagnamaraþon

Nú er liðin vika frá því að nemendur unglingastigs héldu ljóða og smásagnamaraþon sem stóð yfir í 24 klukkustundir frá 13:30 á föstudegi til 13:30 á laugardegi. Þar sem þessi viðburður var í fjáröflunarskyni voru seldar veitingar frá klukkan 16 á föstudeginum og fram að lokum viðburðarins. Þetta varð því einnig heimilisfræðimaraþon þegar upp var staðið.

Það sem einkenndi stemninguna á staðnum var samviskusemi unglinganna. Margir gestir lögðu leið sína í grunnskólann en jafnvel þó að engir gestir væru að hlusta á tímum var hvergi slakað á við lesturinn. Þarna voru flutt ljóð eftir hina ýmsu höfunda og lesnar smásögur inn á milli. Nemendur fluttu einnig sín eigin ljóð og gestir tóku upp bók og lásu sögur eða ljóð. Það var mjög skemmtileg stemning um miðnættið þegar nemendur skiptust á að lesa smásögurnar sem þeir hafa verið að skrifa í vetur og komu þar fram miklir hæfileikar. Kappið var svo mikið að sögur voru samdar á staðnum og fluttar strax að skrifum loknum.

Samviskusemin og metnaðurinn var ekki minni þegar kom að eldhússtörfunum en framm var reitt kaffihlaðborð klukkan fjögur og svo súpa og brauð klukkan sjö. Eftir kvöldmatinn var aftur sett upp kaffihlaðborð og meira að segja bökuð frönsk súkkulaðikaka til að bæta við úrvalið. Þetta hlaðborð stóð fram til tólf á hádegi en þá tók við dögurður og stóð til loka.

Á hliðarlínunni voru foreldrar og starfsfólk  sem aðstoðuðu við eldhússtörf eftir þörfum og sáu um gæslu í húsinu.

Þess má geta að nemendurnir eru ekki nema 6 talsins og því mikið sem hver og einn lagði á sig og ekki mikið um hvíld þó allir hafi náð smá kríu. Og þegar kom að frágangi eftir 24 tíma törnina var svo ánægjulegt að sjá að enginn reyndi að komast hjá því og bættu þau þar við sig 25. tímanum  og eiga svo mikið hrós skilið fyrir alla sína frammistöðu þennan rúma sólarhring.  

Fjáröflunin fór langt fram úr væntingum.  Auk þess að margir gestir hafi komið og notið viðburðarins og veitinganna á staðnum voru margir sem ekki höfðu möguleika á að koma en ákváðu að leggja sitt af mörkum með fjárframlagi.

Ferðahópur og við sem að þeim stöndum, foreldrar og starfsmenn,  sendum ykkur öllum okkar bestu þakkir.

Sunna Reynisdóttir

Óveður föstudag 14. febrúar

Veðurspáin fyrir morgundaginn, föstudag 14. febrúar er mjög slæm. Í nótt mun byrja að hvessa og fylgir úrkoma og því óvíst að fært verði um bæinn í fyrramálið. Grunn og leikskóli verða þó opnir ef þörf krefur en gera má ráð fyrir lágmarksstarfsemi á báðum stöðum. Það er fullkomlega eðlileg ákvörðun að halda börnum heima við þær aðstæður sem væntanlegar eru. Börnum ætti að fylgja bæði í og úr skóla ef þið ákveðið  að nýta opnun. 

Vinsamlegast látið vita í síma 849 3446 ( hringing eða sms) , á netfangið kristbjorgre@isafjordur.is eða með skilaboðum á facebooksíðu forendrafélagsins ef þið ákveðið að hafa börnin heima.

Bestu kveðjur

Sunna

 

112 dagurinn 2020

1 af 10

Árlega er 112 dagurinn haldinn 11. febrúar (11.2). Mark­mið dagsins er að kynna neyðar­númerið 112 og starf­semi aðilanna sem tengjast því, efla vitund fólks um mikil­vægi þessarar starf­semi og hvernig hún nýtist al­menningi. 112 er sam­ræmt neyðar­númer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að minna á að að­eins þarf að kunna þetta ein­falda númer til þess að fá að­stoð í neyð.

Í tilefni af deginum fengu nemendur leikskólans Grænagarðs og Grunnskóla Önundarfjarðar heimsókn frá björgunarsveit og slökkviliði úr heimabyggð. Glænýr slökkvibíll var til sýnis ásamt öðrum farartækjum. 

Við þökkum þessu frábæra fólki fyrir að gefa okkur af tíma sínum og vera alltaf til taks þegar á reynir. 

Dagur leikskólans 6. febrúar- opið hús

Nemendur sungu nokkur lög fyrir gestina
Nemendur sungu nokkur lög fyrir gestina

Við fengum marga gesti í tilefni dags leikskólans sem var í gær. Stundin var notaleg og stóðu nemendur sig vel í að koma fram og syngja fyrir gestina. 

Ljóða og smásagnamaraþon í undirbúningi

Unglingastigið okkar í grunnskóla Önundarfjarðar stefnir á ferðalag til London þar sem 9. og 10. bekkur sameinast um útskriftarferð. Þau hafa fengið margar góðar hugmyndir að fjáröflun og nú er komið að því að framkvæma eina af þeim flottari, ljóða og smásagna maraþon. Þennan viðburð eiga nemendur stóran hlut í að skipuleggja og undirbúa sjálfir. Öllu jöfnu er mikil áhersla á ljóð og smásögur í íslenskunámi þessara ungmenna og því ekki óeðlilegt að þessi hugmynd hafi sprottið út frá því. Í dag hefur staðið yfir bakstur og er húsið óðum að fyllast af girnilegum veitingum sem verða til sölu allan sólarhringinn sem maraþonið stendur yfir. Í undirbúningi og framkvæmd svona viðburðar reynir á hina ýmsu hæfniþætti nemenda og hafa þeir sýnt mikla hæfni í samvinnu og frumkvæði svo fátt eitt sé nefnt. Foreldrar og kennarar verða svo á hliðarlínunni og skipta með sér vöktum meðan á maraþoninu sjálfu stendur. 

Maraþonið hefst kl. 13:30 föstudaginn 7. febrúar og stendur til kl. 13:30 laugardaginn 8. febrúar.

Kaffiveitingar verða seldar á  1.500 kr fyrir stakt skipti en  2.500kr fyrir allan pakkan.

Dagskrá: 

Stanslaus ljóða og smásagnalestur þar sem gestir geta einnig komið inní með sín ljóð eða smásögu

kl. 16:00  kaffi og kökuhlaðborð.

kl. 19:00  súpa og brauð í kvöldmat

kl. 00:00  miðnætur kaffi.

kl. 12:00 dögurður

Hvert hlaðborð verður opið fram að næsta hlaðborði.

Bæjarbúar eru hvattir til að mæta og njóta þessa viðburðar, og einnig að taka þátt með upplestri. 

Vonum að sjá sem flesta! 

Dagur leikskólans 6. febrúar- opið hús

Í dag 6. febrúar er dagur leikskólans og af því tilefni er opið hús fyrir foreldra og aðra aðstandendur í leikskólanum Grænagarðir frá kl 14:00- 16:00. Klukkan 14:30 munu börnin stíga á stokk og syngja nokkur lög. Á öðrum tíma gefst fólki tækifæri til að fylgjast með daglegu starfi leikskólans. Í kaffitímanum verður veisluborð og gestum boðið að drekka með nemendum.

 

Töframaður

Einar Mikael töframaður ákvað að gefa krökkunum á Flateyri eina sýningu á töfrabrögðum sínum og verður því á leikskólanum klukkan 10 í dag. Þangað labba grunnskólakrakkarnir til að taka þátt. 

Slæmt veður í dag 23. janúar

Góðan dag

Veðrið er slæmt í dag og minni ég foreldra á að meta aðstæður og ekki senda börnin ein af stað þar sem hviður eru sterkar. Allar götur eru færar.  Ef þið metið aðstæður svo að barn verði heima vegna veðurs látið vita í síma 450 8360 grunnskóli, 450 8260 leikskóli eða 849 3446 gsm skólastjóra. 

Skólahald mánudaginn 20. janúar

Á morgun mánudag stefnum við á hefðbundið skólahald í leik og grunnskóla. Vegna óvissu með starfsmannafjölda í grunnskólanum á morgun verðum við samt að fá skólahópinn af leikskólanum til að mæta beint í leikskólann þennan dag en vonandi fer fasta rútínan að komast á aftur. 

Ef Hvilftarströndin verður örugg fyrir umferð munum við koma þeim unglingum sem eiga að fara í val á Ísafirði yfir en það verður þeirra fyrsti valtími eftir áramótin þar sem tíðin hefur verið erfið. Ef ekki verður hægt að fara á Ísafjörg lýkur þeirra skóladegi að loknum hádegisverði. 

Góður dagur að baki í skólastarfi

Í dag fór skólastarf í gang aftur eftir erfiða reynslu síðustu daga. Í grunnskólann mættu nemendur klukkan níu og tók öll dagskrá mið af nýiðnum atburðum. Til að byrja með fengu yngri nemendur samtal við þrjá sérfræðinga áfallateymis, Guðrúnu, Ingibjörgu og Petru. Síðan fóur þau út að leika og í leiki í íþróttahúsinu með Kolbrúnu Fjólu og Jónu umsjónarkennara. 

Eldri nemendurnir byrjuðu á að spjalla og spila ásamt Sigga umsjónarkennara sínum og bættist Fjölnir prestur síðan í hópinn.  Þau fóru síðan út í íþróttahús í leiki með Kolbrúnu Fjólu. Miklir fagnaðarfundir urðu svo þegar Alma Sóley bættist í hópinn og hófst þá samtal eldri nemenda og sérfræðinga. 

Stefanía og Guðrún af skólasviðinu vörðu einnig deginum með okkur og léttu undir við ýmislegt. 

Það er mín von að dagurinn hafi nýst nemendum vel. Hefðbundið skólahald hefst svo á mánudaginn. 

Leikskólastarf hófst klukkan átta og nemendum og starfsmönnum til mikillar gleði mættu vaskir meðlimir Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík og Björgunarsveitarinnar Ársæls á svæðið og mokuðu upp nokkur leiktæki.