VALMYND ×

Leikskólinn Grænigarður- starfið næstu vikur

Skólastarf í leikskólanum Grænagarði 16. mars – 13. apríl 2020

Daginn í dag notuðu starfsmenn leikskólans til að undirbúa þær breytingar sem bregðast þarf við vegna samkomubanns sem stjórnvöld hafa fyrirskipað næstu fjórar vikurnar til að hefta útbreiðslu COVID-19. 

Kennsla

Í stað þess að hópar fari á milli stöðva í hópastarfinu eftir hádegið hafa börnin fastan stað en kennarar færa sig á milli staða. Samgangur á milli Odda og Eyrar verður sem allra minnstur. Leyfileg stærð hóps miðast við 20 og erum við í heildina undir þeirri tölu en munum samt alltaf hafa eins fá börn og hægt er í sama rými við leik, mat eða hópatíma.

Hreinlæti

Í dag voru öll leikföng tekin og sótthreinsuð og verður notkun á þeim síðan skipulögð þannig að náist að þrífa þau á milli.  Einnig voru stóla og borð og snertifletir teknir í gegn. Í lok hvers dags verða allir snertifletir sótthreinsaðir til viðbótar við almenn þrif sem fara fram alla daga. Handþvottur með sápu er almennur eftir salernisferðir og fyrir matmálstíma en verður aukinn og er spritt staðsett á öllum starfsstöðvum. 

Umgengni
Foreldrar eru beðnir að gera vart við sig í anddyri þegar þeir koma með börnin og þar tekur starfsmaður á móti barni og fylgir því inn á deild. Þeim foreldraviðtölum sem ekki er þegar lokið verður frestað fram yfir páska. Nemendur fara ekki á milli skólabygginga og þar af leiðandi fellur kennsla skólahóps í grunnskólanum niður umrætt tímabil og nemendur mæta beint í leikskólann alla morgna. 

Veikindi
Engin hvorki kennari né nemandi mæti í skólann sé hann með flensulík einkenni, s.s. hálsbólgu, kvef, beinverki og hita.