VALMYND ×

Vikulokapistill 23.-27. mars

Nú eru liðnar tvær vikur frá því að samkomubann var sett á. Vissulega litar það skólastarfið hjá okkur en samt sem áður njótum við þeirra forréttinda að geta boðið öllum nemendum upp á nánast fullt skólastarf. Í leikskólanum hefur ekki komið til neinnar skerðingar á tíma og aðeins þurft að hliðra til í starfinu og sjá til þess að hópar seú aðskildir og að starfsmenn fari ekki á milli hópa. Í grunnskólanum er sömu sögu að segja með aðskilnað hópa og fasta starfsmenn með hóp. 

Það hefur verið gaman að fylgjast með starfsmönnum takast á við nýjar áskoranir þar sem nemendum er fjarkennt hvort sem þeir eru heima eða í skólastofunni í tíma hjá kennara sem ekki má koma inn til hópsins. Mikið framboð hefur verið á kennsluefni fyrir kennara og hafa þeir verið duglegir að læra nýja hluti þessar vikur. 

Það hefur ekki síður verið ánægjulegt að fylgjast með nemendum vaxa og þroskast í gegnum alla þá lífsreynslu sem þeir hafa öðlast á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020, sem hefur alls ekki verið sá auðveldasti sem hægt væri að hugsa sér. 

Nú eigum við eina viku eftir í grunnskólanum fram að páskafríi og verður hún með sama sniði og síðasta vika ef ekkert óvænt kemur upp á. Leikskólinn mun starfa fram að uppstigningardegi en þá tekur við kærkomið páskafrí. 

 

Ég ætla að enda á að minna á mikilvægi þess að taka hlutunum líka alvarlega í frítímanum og huga að smitvörnum. Hér er hlekkur á skilaboð frá Landlækni til heimilanna: https://www.heimiliogskoli.is/2020/03/20/samkomubann-og-born-leidbeiningar-fra-landlaekni/

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna