VALMYND ×

Vikupistill 14.- 17. apríl G.Ö.

Heil og sæl

Nú erum við búin að prófa fyrstu vikuna í fjarkennslu/fjarnámi þar sem hver er í sínu horni. Undanfarnar vikur höfðum við þó  verið að færast í áttina að þessu þar sem sumt var kennt í fjarkennslu og annað ekki. Vissulega eru þetta skrítnir og erfiðir tímar þar sem skólinn er lokaður og enn sem komið er vitum við ekki með vissu hvenær verður hægt að leyfa okkur að vera fleiri en fimm saman og hvað þá að við vitum hvenær allt verður eðlilegt á ný. 

Það sem mér heyrist samt bæði á nemendum og starfsmönnum er að ,,það bera sig allir vel". 

Hjá unglingunum eru öll fög í gangi og kennarar hafa haldið sambandi við þá. Umsjónarkennari hefur verið með daglega fundi og kennslu á zoom, aðrir kennarar hafa notað google verkfærin, classroom og hangouts /meetings. Fyrir hádegið í dag tók ég stuttan fund með þeim á zoom til að heyra í þeim hljóðið og fara yfir það ef þau sæju eitthvað sem betur má fara. Á mánudaginn ætlar Ninna námsráðgjafi svo að heyra aðeins í þeim hljóðið og fær hver nemandi úthlutað 15 mínútum með henni til að byrja með. 

Yngri nemendurnir fá ýmis skemmtileg verkefni að fást við og eru þeir að vinna í gegnum seesaw. Umsjónarkennari er í góðu sambandi við nemendur og heimilin. Það er auðvitað einstaklingsbundið hversu mörg verkefni hentar að vinna úr ,,heimaskólanum" og um að gera að láta bara vita ef það vantar fleiri verkefni eða ef ekki næst að komast yfir allt. Miðstigsnemendur vinna út frá sínu vikuskema í íslensku og fá einnig verkefni frá þeim kennurum sem kenna þeim önnur fög. 

Hjá öllum aldri er lesturinn mikilvægur og langar mig hér að minna á Tími til að lesa https://timitiladlesa.is/ þar sem þjóðin er í sameiningu að stefna að heimsmeti í lestri. Ef fjölskyldan er ekki þegar búin að skrá sig eru ennþá tvær vikur eftir af mánuðinum og um að gera að vera með. 

Einnig vil ég benda á Fræðslugátt Menntamálastofnunar https://fraedslugatt.is/ sem er stútfull af námsefni. Núna eru t.d. öll fræðslumyndböndin, sem almennt eru bara opin fyrir skóla, opin öllum svo þar er hægt að finna eitthvað áhugavert og fróðlegt að horfa á. 

Næsta vika verður með mjög svipuðu sniði og þessi vika. Ef það er eitthvað sem foreldrar eða nemendur vilja ræða  þá er um að gera að hafa samband við umsjónarkennara eða mig.

Og gleymið svo ekki að á fimmtudaginn í næstu viku er frídagur því þá er sumardagurinn fyrsti en þann dag fór sólin að skína fyrir alvöru í fyrravor og hélt það út langt fram á haust, þannig vona ég að þetta verði aftur núna :) 

 

Bestu kveðjur og góða helgi

Sunna