Óveður
Stofnunum Ísafjarðarbæjar er ekki lokað vegna veðurs nema algera nauðsyn beri til. Stofnun skal halda opinni til hins ýtrasta, þó starfsemi skerðist vegna ófærðar. Þannig er lögð áhersla á að íbúar eigi í skjól að venda en sé ekki úthýst þegar veður er vont. Komi til þess að með engu móti er hægt að halda dyrum stofnunar opnum vegna manneklu ætti að tilkynna það fjölmiðlum með eins miklum fyrirvara og frekast er unnt.
Ef forstöðumenn skóla og leikskóla telja að ekki sé hægt að halda úti óskertri starfsemi ætti að tilkynna fjölmiðlum þá ákvörðun að jafnaði um einni og hálfri klukkustund fyrir auglýstan opnunartíma eða með eins miklum fyrirvara og hægt er.
Ástæður lokana
Forstöðumaður getur lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:
- Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
- Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
- Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu
Tilkynningar
Ef forstöðumaður ákveður að loka ber honum að tilkynna það eins og hægt er:
- Með tilkynningu á heimasíðu, facebooksíðu skólans og með sms-i til foreldra.
- Á heimasíðu Ísafjarðarbæjar
- Ef nauðsyn krefur, með tilkynningu á frettir@bb.is, frettir@ruv.is og eftir atvikum með símhringingu á fréttastofu RÚV (515-3050) og fréttastofu 365 miðla (512-5200) fyrir klukkan 07.00