VALMYND ×

Vikufréttir

Viðfangsefni vikunnar voru virkilega fjölbreytt eins og venjulega (Hvað eru mörg vöff í því?)
Skógarferðin var mjög skemmtileg þar sem kveikt var bál á eldstæðinu, farið í leiki og síðast en ekki síst, tilgangur ferðarinnar sem var að saga/höggva jólatré. Úthald og þrautsegja nemenda er alltaf að eflast og er það lítið mál fyrir þau að labba ,,alla leið" út í skóg og til baka.
Í gær var dagur mannréttinda barna sem er haldinn vegna þess að 20. nóvember árið 1989 var Barnasáttmálinn samþykktur á þingi Sameinuðu þjóðanna. Af því tilefni vorum við öll saman í kennslustund þar sem við ræddum m.a. um hvað hugtakið mannréttindi þýðir og voru margar góðar hugmyndir um það til dæmis: Reglur, sýna virðingu, mega gera eitthvað, fá mat og vatn, hvíld og svefn og það má segja nei! Í lokin horfðum við saman á fræðslumyndbönd um Barnasáttmálann.
Börnin hafa æft jólalög af kappi í vikunni sem þau ætla svo að syngja þegar ljósin verða tendruð á jólatrénu á sunnudaginn kl.16. Þau æfðu með nemendum leikskólans í gær og eru því aldeilis klár í slaginn. 
Ég minni í lokin á starfsdaginn á mánudaginn.
Góða helgi og hlökkum til að sjá ykkur á sunnudaginn.