Skólafréttir
Samstarfsverkefni fámennu skólanna heldur áfram í ár og erum við þessa stundina að leggja lokahönd á þemað okkar um fuglana. Við byrjuðum verkefnið á því að hittast hérna á Flateyri og fara í fuglagöngu, en listakonan Jean Larson hefur nú málað um 18 fugla á húsveggi á Flateyri. Nemendurnir völdu sér öll fugl og hafa sérhæft sig í sínum fugli og aflað sér upplýsinga um hann. Merkt leið farfugla á landakort – lært að vinna í Canva og búa til veggspjald – búa til námsvegg um fuglaVerkefninu lýkur með sýningu og kynningu á fuglunum og eru þau núna að leggja lokahönd á fuglinn sinn sem þau búa til sjálf.
Nemendur munu svo halda sýningu á verkum sínum á kaffihúsakvöldinu okkar sem verður 4. desember en þar ætla þeir nemendur sem stunda tónlistarnám einnig að vera með tónleika.
Við leggjum mikla áherslu á að lestur sé bæði skemmtilegur og lærdómsríkur. Nemendur velja sér bækur sem vekja áhuga þeirra og þessa stundina er það “skiptilestur” sem hefur vakið mesta spennu og gleði. Öll með sitthvora bókina og skiptast á að lesa að punkti.
Þegar lesið er saman skapast góð stemning og allir fá tækifæri til að æfa lestur á öruggan og jákvæðan hátt.
Umhverfisvitund og útinám eru fastur og mikilvægur hluti af starfi Grunnskóla Önundarfjarðar. Þess vegna er frábært að tilkynna að við skólann hefur verið komið upp nýju Bambahúsi til útikennslu og ræktunar.
Við erum hæstánægð með að fá húsið strax að hausti þar sem við erum nú þegar búin að koma hvítlauknum niður og hefja ræktunarstarfið.
Ég vil nýta tækifærið og þakka Búaðstoð kærlega fyrir en hann Valli gaf okkur moldina í Bambahúsið. Takk
Hugrún Britta sem sér um dægradvölina hjá okkur er frábær viðbót við starf okkar. Við hlökkum til að endurvekja gróðurkassana undir hennar stjórn og það verður mjög spennandi að sjá hvað þeim dettur í hug að rækta. Ég er allavegana mjög spennt því að ég veit nefnilega að það er komin gróðumerkimiði sem stendur á ”melóna”.
Góða helgi og hlýjar kveðjur frá okkur í GÖ