VALMYND ×

Samstarfsverkefni

1 af 2

 

Grunnskólinn á Suðureyri, Grunnskólinn á Þingeyri og Grunnskóli Önundarfjarðar

Fámennu skólarnir þrír hjá Ísafjarðarbæ, undir leiðsögn Ásgarðs skólaþjónustu, hófu á þessu skólaári samstarf um útfærslu á fjórum þemaverkefnum sem útbúin hafa verið út frá nýrri menntastefnu ríkisins. 

Verkefnið, sem stendur í tvö ár, fékk 2 mkr styrk frá Sprotasjóði sem er veglegur stuðningur við gæðastarf í skólunum. Sérstök áhersla verður lögð á teymiskennslu kennara og leytast verður við að verkefnin verði við hæfi allra nemenda og að fjölbreytileikinn fái að njóta sín.

Innihald og inntak verkefna nemenda verða sýnileg á námsvegg í skólanum sem og á heimasíðu/facebooksíðu skólans. Auðvelt ætti því að vera fyrir foreldra og samfélagið í kring að taka virkan þátt í vinnunni t.d með því að spyrja af áhuga og jafnvel bjóðast til þess að aðstoða við vinnu nemenda. 

Fyrra skólaárið er hafið en í vetur vinna nemendur og kennarar eftirfarandi verkefni: 

  • Hrekkjavaka: unnin eru skapandi og fjölbreytt verkefni sem kennir nemendum um hrekkjavöku á bæði íslensku og ensku. Nemendur vinna með texta, teikna myndasögur, búa til hrekkjavökuhandrit og taka upp mynd, búa til búninga úr endurunnum efnum, skreyta skólastofuna og undirbúa sameiginlega hrekkjavökuskemmtun. Verkefnið þjálfar þá í tjáningu, skapandi hugsun, sjálfstæði og samvinnu, auk þess sem áhersla er lögð á umhverfisvitund og endurnýtingu. ​
  • Bókin mín: áhersla er á skapandi skrif, sjálfsþekkingu og tjáningu. Nemendur vinna að því að skrifa sögur um eigið líf, umhverfi og hugmyndir, þjálfa sjálfstæð vinnubrögð og efla ritunarfærni. Verkefnin styrkja ímyndunarafl, orðaforða og hæfni nemenda til að tjá sig á skýran og skapandi hátt.
  • Tækni: þemað er byggt á grunnþættinum sköpun og miðar að því að efla frumkvöðla- og nýsköpunarhugsun nemenda. Í verkefninu skoða nemendur tækni í daglegu lífi, áhrif hennar á samfélagið og þróun tækni framtíðarinnar. Verkefnin þjálfa sjálfstæð vinnubrögð, samvinnu og gagnrýna hugsun, þar sem nemendur skapa eigin lausnir á raunverulegum áskorunum. Markmiðið er að tengja saman námsefni eins og náttúrufræði, stærðfræði, tungumál og listir og stuðla að sjálfstæðri hugsun og félagsfærni​
  • Betri heimabyggð: Þetta er þema er ætlað sem undirbúningur undir íbúaþing þar sem nemendur koma með tillögur að betri heimabyggð út frá þörfum og umhverfissjónarmiðum og byggja þær á þeirri vinnu sem fram fer í þessu verkefni.

Megináhersla er lögð á að nemendur hittist þvert á skólana og ræði verk sín og deili afrakstrinum með hvort öðru. 

Á vorin munu nemendur og starfsfólk, í samvinnu við hverfaráðið, hittast á skólaþingi þar sem óskir allra innan skólasamfélagsins heyrast. Öll sem hafa áhuga á skólamálum eru velkomin.  

Utanumhald verkefnis er í höndum skólastjórnenda skólanna og Ásgarðs skólaþjónustu.