Saga skólans
Húsnæði Grunnskóla Önundarfjarðar stendur við Tjarnargötu á Flateyri og var tekið í notkun haustið 1961. Þar örskammt frá er gott íþróttahús ásamt sundlaug og sparkvelli þar sem allar íþróttagreinar skólans eru kenndar. Þegar vel viðrar fer íþróttakennslan líka fram utanhúss. Í skólahúsinu er lítið bókasafn en einnig er skólinn í samstarfi við bókasafn Grunnskólans á Ísafirði og Héraðsbókasafnið á Ísafirði.
Árið 1903 var skólahús byggt og barnaskóli stofnaður á Flateyri. Húsið var að Grundarstíg 14, við hliðina á rafstöð Orkubús Vestfjarða. Þess má geta, að það var ekki fyrr en árið 1933 sem götunum á eyrinni voru formlega gefin nöfn eins og við þekkjum þau. Í fyrstu voru tvær kennslustofur auk geymslu fyrir bækur og kennslubúnað. Árið 1913 var rúmgóður íþróttasalur byggður við húsið. Árið 1936 var hluti hans tekinn undir vatnsklósett en fram að því var notast við kamra á skólalóðinni.
Eftir að íþróttasalurinn kom til sögunnar gegndi gamli skólinn mörgum hlutverkum í samfélaginu á Flateyri. Þar voru almennar leiksýningar og söngskemmtanir, þar voru haldnir fyrirlestrar og þar var kjörstaður Flateyringa. Þar var eins konar útfararkapella eftir að kirkjugarðurinn var vígður árið 1915 og þar var messað þangað til kirkjan var byggð árið 1936.
Eftir að samkomuhúsið við Grundarstíg var byggt árið 1936 fluttist íþróttakennslan þangað. Síðast var kennt í gamla skólahúsinu við Grundarstíg vorið 1961. Fyrsta skólaárið (1903-1904) voru í skólanum 25 nemendur í fjórum árgöngum og var þeim kennt í tveimur hópum. Þá bjuggu um 200 manns á Flateyri.
Með lengingu skólaskyldu fjölgaði árgöngum í áranna rás og auk þess fjölgaði nemendum vegna fólksfjölgunar. Flestir munu íbúar Flateyrar hafa orðið um 550 manns árið 1936 og aftur árið 1963. Þegar mest var munu nemendur hafa verið yfir 100 talsins í Barna- og unglingaskólanum á Flateyri.
Helstu heimildir: 1. Samantekt Gunnlaugs Finnssonar, bónda og fyrrum alþingismanns á Hvilft, um skólahald á Flateyri í 100 ár (2003). Gunnlaugur kenndi við skólann samtals um þrjá áratugi. 2. Samantekt Guðvarðar Kjartanssonar, fyrrum bókara á Flateyri, um sögu Flateyrarhrepps í 70 ár (1992). Guðvarður kenndi við skólann um fimm ára skeið.