VALMYND ×

Skólareglur

Í grunnskólalögum segir, að nemendum beri að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkini. Í Grunnskóla Önundarfjarðar eru í gildi skólareglur sem birtar eru í heild á vef skólans. Auk þess eru þær kynntar fyrir nemendum og foreldrum í byrjun skólaárs. Tilgangurinn með skólareglum er að samskiptin og starfsemin í skólanum gangi vel og árekstrarlaust. Hér á eftir eru tilgreind og áréttuð nokkur ákvæði úr skólareglunum. Að öðru leyti er inntak þeirra það, að öll samskipti í skólanum skuli grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi. Skólareglur Grunnskóla Önundarfjarðar gilda alls staðar þar sem nemendur eru á vegum skólans.

Ef foreldri tilkynnir ekki forföll eða veikindi nemanda samdægurs er litið á það sem óheimila fjarvist.

Nemendum er óheimilt að vera með gosdrykki eða sælgæti á skólatíma. Þetta gildir ekki um skólaskemmtanir. Sælgæti sem tekið er af nemendum er geymt hjá skólastjóra og geta foreldrar vitjað þess þar.

Allir nemendur skulu vera úti í frímínútum nema annað sé ákveðið. Þeir skulu því ætíð koma í skólann klæddir í samræmi við veður og tíðarfar.

Á skólaferðalögum skulu nemendur taka þátt í skipulagðri dagskrá og hlíta fyrirmælum fararstjóra. Brjóti nemandi á skólaferðalagi gegn fyrirmælum, skólareglum eða lögum getur fararstjóri sent hann heim á kostnað foreldra.

Nemandi sem brýtur ítrekað gegn skólareglum verður boðaður á fund ásamt foreldrum sínum og skólasálfræðingur fenginn til aðstoðar. Þar verður í sameiningu leitað leiða til úrbóta.