VALMYND ×

Af skólasetningu og starfi framundan í G.Ö.

Í gær var grunnskólinn settur í 119 sinn. Nemendur, foreldrar og starfsmenn komu saman og héldu nokkurs konar haustfund þar sem farið var yfir skólastarf komandi vetrar. 

Nemendur þetta skólaárið eru 6 en fyrstu vikuna eru nemendur í 6. og 7. bekk í skólabúðum á Reykjum í Hrútafirði en þangað var farið í rútu með jafnöldrum frá hinum skólunum á norðanverðum Vestfjörðum. 

Fyrsta vikan hjá þeim sem eru á staðnum verður haust og útivistarþema. 

Nemendur skólans skiptast í tvo hópa yngsta stig og miðstig og er að miklu leyti kennt sitt í hvoru lagi. Heilmikið verður samt líka um samvinnu allra. Jóna Lára heldur utan um yngri hópinn en Sigurður Hafberg utan um þau eldri. Auk þess kennir Sunna talsvert á miðstiginu. Tónlsitarkennarar koma til okkar og sinna tónlistarkennslu hér á staðnum sem er frábært fyrir nemendur. Eva sem kennt hefur dans hér í nokkur ár og einnig fablab síðsta ár verður vonandi búin að ná sé af meiðslum og kemst til okkar þegar líður á hautið. Ninna námsráðgjafi verður hjá okkur einu sinni í mánuði, síðasta miðvikudag í mánuði. Helena skólahjúkrunarfræðingur kemur einnig reglulega til okkar. 

Tvisvar í viku koma elstu nemendur leikskólans í skólann og í annað skiptið verður 1. bekkur með þeim en í hitt skiptið vinna allir saman og verða tekin ólík þemu með það að markmiði að auka orðaforða tengdan viðfangsefninu. Kennsla fer fram með fjölbreyttum kennsluháttum og útinámi. 

Okkur vantar í starfsmannahópinn skólaliða sem einnig sinnir dægradvöl. Fyrsta vikan er leyst en vonandi rætist úr áður en sú næsta rennur upp. 

Við byrjum veturinn á því að sækja mat í Gunnukaffi og snæða í grunnskólahúsinu en þegar ferðamannastraumur í þorpinu minnkar getum við vonandi fundið leið til að fá okkur göngutúr í Gunnukaffi og borðað þar án þess að taka stórar áhættur varðandi covid smithættu. 

Við erum í innleiðingarferli á leiðsagnarnámi ásamt hinum skólunum á norðanverðum Vestfjörðum en til þess fékkst styrkur frá Sprotasjóði. Leiðsagnarnám miðar að því að markmið eru alltaf skýr og nemendur meðvitaðir um þau. Nemendur fá leiðsegjandi endurgjöf sem hjálpar þeim að komast nær markmiðum sínum. Verkefni eru valin af ástæðu, þau hafa merkingu. Nemandinn veit hvar hann er staddur og hvert hann er að fara og hann fær leiðsögn til að brúa bilið þar á milli. Markmiðið er að nemendur taki aukna ábyrgð á eigin námi. Þessi samvinna með hinum skólunum hjálpar okkur að vinna markvissar að leiðum sem við höfum áður aðhyllst. Hér er vefslóð á góða kynningu fyrir foreldra: https://static1.squarespace.com/static/60294ce57486886e184a77ef/t/602b072b8c86210d93974652/1613432621205/Foreldrar+og+lei%C3%B0sagnarna%CC%81m.pdf

Við munum áfram nota mentor til að halda utan um námið og setja kennsluáætlanir inn í lotur, tengja verkefni og meta eftir hæfniviðmiðum. Nemendur og foreldrar geta fylgst með framvindu á hæfnikortum nemenda. 

Við ætlum að vera dugleg að nýta okkur fámennið og fara í heimsóknir í aðra skóla, bókasafnsferðir og ýmsar vettvangsferðir, á bíl, gangandi eða hjólandi eftir því hvað hentar hverju sinni. 

Við förum spennt af stað inn í nýtt skólaár, fullt af tækifærum og áskorunum sem við viljum nýta til þroska og framfara. 

Bestu kveður

Sunna Reynisdóttir