Vorstemning
Það hefur verið aðeins um uppbrot þessa vikuna eins og gengur og gerist í maí. Hin árlega sólarganga leikskólans Grænagarð og grunnskólans var farin núna 7. maí í ekta íslensku vorveðri. Það var frekar hvasst og rigndi aðeins á okkur en auðvitað lét sólin líka sjá sig. Að venju voru öll full jákvæðni og enduðum við gönguna á pylsupartýi í leikskólanum.
Á fimmtudaginn bauð Þjóleikhúsið miðstigi grunnskólanna á leiksýningu byggða á hinum geysivinsælu bókum um Orra óstöðvandi og vinkonu hans Möggu Messi eftir Bjarna Fritzson.
https://leikhusid.is/syningar/orri-ostodvandi/
Í dag fóru Sigga og Siggi með nemendurna í gönguferð inní skóg. Þau voru búin að nesta sig fyrir ferðina með skólabökuðum pizzasnúðum og swiss miss. Veðurspáin var nú ekkert frábært og snjóaði allsvakalega á okkur í morgun en bæði nemendur og kennarar komu mjög vel búin og jákvæð í skólann í morgun og tilbúin í þessa gönguferð. Þau komu öll kampakát en smá blaut til baka en það er rétt sem sagt er - Það er ekki til vont veður – bara óviðeigandi klæðnaður!
Síðasta þemaverkefni þessa skólaárs heitir Betri heimabyggð. Nemendur kynntu sér nærumhverfið sitt, tóku myndir og ræddu kosti og galla samfélagsins í kringum sig. Þau áttu síðan að láta sig dreyma um það hvernig mætti bæta þorpið þeirra, hvað fannst þeim vanta á Flateyri. Þau eru núna í óða önn að klára líkönin af því sem þeim fannst vanta og eiga svo að rökstyðja hugmyndina sína með texta. Verkefninu lýkur með skólaþingi þar sem nemendur bjóða bæjar- eða sveitastjórn að hlýða á hugmyndir sínar um að bæta samfélagið.
Njótið helgarinnar