VALMYND ×

Betri heimabyggð - vel heppnuðu skólaþingi lokið

Gestirnir voru öll mjög áhugasöm
Gestirnir voru öll mjög áhugasöm
1 af 15

Vel heppnuðu skólaþingi lokið og mikið agalega var ég stolt af mínu fólki.

Betri heimabyggð –Skapandi nemendur með skoðanir á nærumhverfi sínu.

Síðasta þemaverkefni þessa skólaárs var verkefni sem bar yfirheitið Betri heimabyggð.

Nemendurnir byrjuðu á því að kynna sér nærumhverfi sitt og tóku myndir af því sem þeim  fannst gott og hvað mætti betur fara. Þau áttu síðan að láta sig dreyma um það hvernig mætti bæta þorpið þeirra - hvað fannst þeim vanta á Flateyri.

Þeir skrifuðu texta við myndirnar, bjuggu til líkön af hugmyndum sínum og notuðu til þess endurnýtanlegt efni. Í lok verkefnisins buðu þau foreldrum, sviðstjóra skóla- og tómstundasviðs, bæjarstjóra, bæjarstjórn og Hverfaráði Önundarfjarðar á skólaþing þar sem þau kynntu niðurstöður sínar og hugmyndir að úrbótum.

Verkefnið styrkti margvíslega færni nemenda – tjáningu, skapandi hugsun, samvinnu, gagnrýna hugsun og lýðræðislega þátttöku. Skólaþingið var afar vel heppnað og er gaman að segja frá því að strax sama dag bárust þær fréttir að búið væri að laga göngustíg sem nemendur höfðu einmitt tekið mynd af – eitthvað sem mætti betur fara. Gaman fyrir nemendur að sjá að þau geti haft áhrif í samfélaginu (þrátt fyrir að í þessu tilfelli hafi þetta trúlega verið mjög skemmtileg tilviljun).