VALMYND ×

Árshátíðin að baki og páskafríið framundan

Leikritið Draugalega fótboltaferðalagið
Leikritið Draugalega fótboltaferðalagið
1 af 9

Á miðvikudaginn tókst okkur að halda árshátíðina okkar á milli vetrarlægða sem hafa sett strik í reikninginn í vikunni. Tókst hátíðin frábærlega vel. Mía í öðrum bekk samdi leikrit og fékk svo Izu í 4. bekk til að gerast meðhöfundur og leggja með henni lokahönd á handritið. Leikritið heitir Draugalega fótboltaferðalagið. Allir nemendur yngsta stigs léku eða sáu um að allt gengi upp á sviðinu en fengu einnig eldri nemendurna til að taka að sér hlutverk. Yngri nemendurnir sýndu einnig myndband sem sýndi hefðir og helgidaga sem þau hafa verið að læra um og fengu gesti til að giska á hvað væri um að ræða hverju sinni. Eldri nemendurnir gerðu grín að starfsfólki í myndbandi, léku pabba sína segja pabbabrandara á sviðinu, sáu um kynningu og leiki. Foreldrafélagið hélt uppteknum hætti og sá um að borð svignuðu af girnilegum veitingum. 

Á mánudag og fimmtudag var appelsínugul viðvörun vegna veðurs sem hafði ekki teljandi áhrif á skólastarf fyrri daginn en í gær var veðrið heldur verra og meiri snjór búinn að safnast fyrir svo þau fáu sem mættu nutu öðruvísi skóladags þar sem gengið var frá eftir árshátíð, mikið var spilað og horft á mynd. Í dag voru svo öll mætt á ný og við lásum, skrifuðum saman ævintýri, föndruðum páskaskraut, leituðum að páskaeggjum um skólann og lásum málshættina saman. 

Nú erum við farin í páskafrí og mætum aftur til starfa þriðjudaginn 2. apríl. 

Gleðilega páska.