VALMYND ×

Baráttudagur gegn einelti

Jæja, skólastjóralífið gengur bara mjög vel og komin rútína á skólavikuna. Skákkennslan vekur mikla lukku og mikill metnaður hjá nemendum. Ég er ekki frá því að við förum að finna skákmót fyrir þessa skákmeistara. 
Við fengum heimsókn frá lögreglunni sem ræddi við 1. - 4. bekk um umferðina hjálmanotkun og umferðarreglur og 5. - 8. bekk um útivistartíma, rafhlaupahjól, ofbeldi, samfélagsmiðla og áföll. Frábært að fá lögregluna í heimsókn og fengu krakkarnir hrós fyrir áhugasemi og hversu vel þau hlustuðu.

Í tilefni af baráttudegi gegn einelti unnum við verkefni tengt gildunum okkar.

Virðing - Gleði - Ábyrgð - Metnaður

Við byrjuðum daginn á að horfa á myndband sem gert var fyrir baráttudag gegn einelti.

Við ræddum um gildin okkar og hvað þau þýða. Við vorum sammála um að þau lýstu því sem skiptir okkur máli í lífinu,  hvernig við viljum koma fram við aðra og hvernig samskipti við viljum eiga.

Afurð verkefnisins er veggmynd sem allir tóku þátt í að búa til og sýnir fjölbreytileikann í skólasamfélaginu okkar. Veggmyndin sem mun hanga í anddyrinu hjá okkur á að tákna það að við erum öll í sama liði. 

Nemendur sýndu verkefninu mikinn áhuga, tóku ábyrgð og sýndu mikinn metnað. Frábær dagur og skólastjórinn mjög stolt af öllu sínu fólki  

Jóna Lára