VALMYND ×

Lestrarátak - Lesember

Þennan mánuðinn stendur yfir lestrarátak hjá okkur í G.Ö. og kom þá upp sú frábæra hugmynd að kalla mánuðinn lesember. Við eigum von á fullt af nýjum bókum í hús eftir helgina og er þar á meðal ein eftir nágranna okkar hana Helen Cova, bókin Svona tala ég. 

Í lesember er tekinn lestrarsprettur þar sem sami textinn er lesinn aftur og aftur og tíminn tekinn til að sjá hvað hægt er að bæta hraðann með endurtekningunni. 

100 algengustu orðin eru á veggnum í stigaganginum og virkilega gaman að fara þangað og athuga hvað maður getur verið fljótur að lesa þau. Markmiðið er að læra að þekkja þau og gera að sjónrænum orðaforða, þ.e. orð sem við þurfum bara að sjá til að lesa en ekki hljóða okkur í gegnum. Markmið með tímanum er að ná að lesa öll hundrað á innan við mínútu. 

Nemendur æfa sig einnig í að svara spurningum úr lesnum texta og auka þannig lesskilninginn. 

Safarík orð eru tekin út úr textanum og merking þeirra krufin. Safaríkum orðum er safnað á tússtöflu í anddyri.

Leitað hefur verið að upplýsingum um höfunda. Það skiptir nefnilega miklu máli að þekkja góða rithöfunda til að auðvelda val á næstu bók til að lesa. 

,,Nýyrði" Jónasar Hallgrímssonar hafa verið skoðuð og spáð í hvernig ný orð verða til og búin til ný orð á hluti sem við eigum ekki orð yfir. 

Ritun á einnig stóran þátt í lesember. Skrifaðar hafa verið allskonar sögur og fleira.