Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar
Stóra upplestrarkeppnin var haldin í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði, fimmtudagskvöldið 9. mars.
Tólf nemendur úr 7. bekk grunnskólanna í Ísafjarðarbæ og í Bolungarvík tóku þátt að þessu sinni. Höfundar keppninnar í ár voru þau Andri Snær Magnason og Steinunn Sigurðardóttir. Lásu krakkarnir brot úr sögunni Bláa hnettinum eftir Andra Snæ og valið ljóð eftir Steinunni. Að auki völdu krakkarnir sér ljóð til að lesa.
Okkar maður Einar Arnalds Kristjánsson var sér og skólanum til mikils sóma og las sína hluta vel og vandlega. Hins vegar var keppnin afar hörð í ár og varð Auðbjörg Erna Ómarsdóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri sigurvegari keppninnar í ár. Íris Embla Stefánsdóttir frá Grunnskólanum í Bolungarvík hafnaði í öðru sæti og Lena Rut Ásgeirsdóttir frá Grunnskólanum á Ísafirði í því þriðja.
Dómarar voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þ. Ingólfsdóttir, Heiðrún Tryggvadóttir og Kristín Ósk Jónasdóttir. Guðrún Birgisdóttir skóla- og sérkennslufulltrúi Ísafjarðarbæjar hélt utan um dagskrána, en Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, sem hafnaði í 2. sæti keppninnar í fyrra, las inngangstexta.
Skólalúðrasveit Tónlistarskólans með Einar í fararbroddi, opnaði hátíðina og spilaði létt og skemmtileg lög til að koma keppendum og áhorfendum í réttan gír.
Við óskum öllum keppendum, kennurum og foreldrum innilega til hamingju.