VALMYND ×

Skólabyrjun haustið 2022

Það var heldur betur fjör þegar hópurinn hristist saman á ærslabelgnum fyrsta skóladaginn.
Það var heldur betur fjör þegar hópurinn hristist saman á ærslabelgnum fyrsta skóladaginn.
1 af 10

Nú þegar þrjár vikur eru senn liðnar af skólastarfi þessa haust er heldur betur tímabært að segja ykkur fréttir. Eins og mörgum  er kunnugt urðum við að fresta skólabyrjun vegna covid veikinda starfsfólks en tókst þó sem betur fer að hefja það í sömu viku og áætlað hafði verið þó það væri á fimmtudegi í stað mánudags. 
Það voru heldur betur glaðir krakkar sem mættu til starfa þann fimmtudaginn og öll tilbúin í starf vetrarins.

Það varð heilmikil fjölgun á nemendum milli ára en nú hófu 13 nemendur nám við skólann en þeir voru aðeins 6 síðasta skólaár. Það er því yfir 100% fjölgun nemenda við skólann sem líklegast er metfjölgun. 

Á fyrstu vikunum erum við búin að gera ýmislegt. Huga að námsumhverfinu með gerð sáttmála. Afmælisdagatal er komið upp á vegg sem auðveldar okkur að muna þann stóra dag sem afmælisdagur er sérhvejum einstaklingi. Það er búið að hafa árlega göngudaginn. Yngri nemendurnir fóru út í skóg og vörðu góðum tíma þar. Eldri nemendurnir hjóluðu áleiðis að Kálfeyri og gengu svo niður á eyrina og skoðuðu þau ummreki sem þar eru um verstöðina. Allt hefðbundið nám er komið vel i gang. 

Nemendur yngra stigsins eru níu talsins þennan veturinn. Umsjónarkennari þeirra er Jóna Lára. Fjóri nemendur eru á miðstiginu og er Mekkín sem kom ný til starfa í haust þeirra umsjónarkennari. Agata hóf störf hjá okkur sem skólaliði 1. september.  Senn líður að því að við getum opnað dægradvölina en Viktor Páll hefur tekið að sér að sjá um hana ásamt nokkrum kennslustundum. 

Skóladagurinn hefst hjá okkur kl. 8:10 á morgnana með yndislestri. Allir nemendur borða saman hafragraut áður en farið er út í fyrstu frímínútur dagsins. Foreldrafélagið tók vel í að styrkja það verkefni að gefa börnunum hafragrautinn en fátt getur talist hollara hvort sem horft er til næringarinnar eða samverunnar. 

Íþróttir hafa farið fram utanhúss enn sem komið er en það er almennt reglan að hafa útiíþróttir í ágúst og september. 

Með þessari upprifjun á skólabyrjun fylgja myndir sem segja meira en mörg orð um fjölbreytt skólastarf.