VALMYND ×

Skólastarsfsfréttir

Þá eru fyrstu tvær vikur ársins að baki og hefur miklu verið áorkað sem fyrri daginn. 

Jólin voru kvödd á þrettándanum með því að grafa upp eldstæðið og kveikja á því lítið bál. Nemendur og starfsmenn höfðu undirbúið litla athöfn þar sem ýmislegt frá árinu 2020 sem þeir vildu brenna að baki var skrifað á miða sem settur var á bálið. Þegar allt frá árinu 2020 var komið á bálið fóru á það miðar með væntingum til ársins 2021 sem fóru þá út í alheiminn. 

Stundaskráin hefur aftur verið færð til þess fyrirkomlags sem var fyrir takmarkanir og geta unglingarnir nú sótt sína valtíma og þriðjudagsnám á Ísafjörð eins og var í upphafi skólaárs sem vekur mikla lukku. Yngri nemendur fundu ekki fyrir neinni skerðingu í skólastarfi þó ýmsar tilfærslur hafi þurft að gera sem eru þá aftur komnar í rétt form núna. 

Í náminu er verið að vinna með ýmislegt á fjölbreyttan hátt. Frostin undanfarið náðist að nýta til svellgerðar og var svellið tilbúið um síðustu helgi. Yngsta stigið sem er að vinna með ummál og flatarmál dreif sig út og mældi stærð svellsins sem reyndist vera 238 m2. Íþróttatímar vikunnar hafa verið á svellinu og má sjá miklar framfarir hjá nemendum, það er skransað, rennt á öðrum fæti, rennt afturábak og sýndar listir með treflum svo eitthvað sé nefnt. Vonandi fáum við nokkra frostdaga eftir væntanlega rigningu svo við njótum svellsins aðeins lengur.

Yngsta stig og miðstig eru að vinna með mannslíkamann og samþættast þar ýmsar námsgreinar. Sumt vinna þau í sameiningu og annað í sitthvoru lagi. Saman eru þau að vinna að því að búa til ,,Operations" spil og læra þau þá samhliða ýmislegt um líffærin og raflagnir. 

Miðstig og unglingastig eru að vinna með Grunnþarfirnar fimm samkvæmt Uppbyggingarstefnunni, Uppledi til ábyrgðar- uppbygging sjálfsaga. Þessar þarfir eru öryggi, gleði, frelsi, áhrif og að tilheyra. Allir hafa sterka þörf fyrir öryggi en hinar fjórar eru þau búin að greina og finna hvar þeirra þarfir eru sterkastar. Núna eru þau að flokka hugtök tengd þörfunum í jákvæð og neikvæð til að átta sig á að stundum getum við farið út í það að uppfylla þarfirnar okkar á neikvæðan hátt.

Við fengum í hendurnar nýjar tölvur nú eftir áramótin og varð fyrir valinu að fá chromebook fartölvur fyrir nemendur. Ástæða þess vals okkar er að við teljum fartölvur nýtast betur til samvinnu en borðtölvur og einnig að tölvuvinna verði auðveldari valkostur þegar þú þarft ekki að setjast út við vegg við tölvu. Auðvitað á reynslan svo eftir að leiða í ljós hver verður raunin. Nemendur unglingastigs sem fengu hver sína tölvu til að vinna með eru allavega farnir að nýta þær í flest verkefni. Eitt sett verður svo á miðstiginu en yngsta stigið hefur einnig aðgang að þeim tölvum. 

Í dag fengum við að koma í heimsókn í Lýðskólann og kynnast verkefni Björns Steinars vöruhönnuðar sem er að kenna þar núna. Fyrirtækið hans heitir Plastplan og eru þar hannaðir hlutir úr plasti sem hann og meðeigandi hans endurvinna. Við fengum mjög mikinn fróðleik um plast og flokkun þess og munum rifja upp og vinna verkefni tengt heimsókninni í næstu viku. Krakkarnir skoðuðu hluti sem Lýðskólanemar hafa verið að gera úr endurunnu plasti og sýndu því mikinn áhuga. Hver veit nema það fæðist viðskiptahugmynd hjá einhverjum þeirra í framhaldi af þessari heimsókn. 

Bestu óskir um góða helgi. Verið óhrædd við að hafa samband og biðja mig eða Sigga Habb um að koma og opna skólann til að lána ykkur skauta. Síminn minn er 849 3446 og Sigga sími er 863 7662.

Kveðja, Sunna.