VALMYND ×

Tónlist og gleði

Gleðimyndir yngsta stigs
Gleðimyndir yngsta stigs
1 af 3

Það er heldur betur enn ein frábæra námsvikan að baki í Grunnskóla Önundarfjarðar. Þessi vika var uppfull af tónlist, söng, leik og gleði. Við vorum svo heppin að Þórdís Heiða tónlistarkennari bættist í hópinn með öflugu starfsliði skólans og kenndi nemendum og kennurum söngva og leiki. Allir nemendur fengu stuttan einkatíma þar sem þau lærðu smá á píanó og síðan eina rödd á annaðhvort tréspil, klukkuspil eða eukulele. Síðan var áherslan á að æfa saman og var útkoman ein stór hljómsveit. Uppskeran var sýnd á glæsilegum tónleikum í skólanum í morgun og verða fleiri tónleikar haldnir eftir vetrarfrí fyrir ákveðna hópa. 

Fyrsta lag tónleikanna var Gleðisöngurinn eftir Beethoven með texta eftir Braga Valdimar Skúlason. Lagið var bæði útsett fyrir tréspil, klukkuspil og ukulele og einnig sungið við undirleik Þórdísar Heiðu, hljómsveitarstjóra.
Næst fluttum við lagið Che che kule, frá Vestur-Afríku. Lagið er svipað laginu Höfuð, herðar, hné og tær, að því leiti að það eru sambærilegar hreyfingar.
Við enduðum tónleikana svo á laginu Yo howdy.

Þetta tónlistarþema blandaðist við vinnu nemenda með tilfinningar þar sem gleðinni var gert hátt undir höfði. Umræður voru um það hvað veitir gleði og voru skrifaðar sögur og máluð listaverk sem prýða veggi skólans. Einnig var skapaður  gleðistaður í Minecraft. 
Til að halda í tónlistarþema vikunnar voru gerðar skemmtilegar munnhörpur.  


Við erum alveg í skýjunum með vikuna og þökkum Heiða kærlega fyrir. Krakkarnir stóðu sig frábærlega, bæði að læra öll lögin og einnig að flytja tónlistina. Þau voru öll bæði áhugasöm og dugleg. Virkilega efnilegt tónlistarfólk og svo frábært að allt þetta átti sér stað aðeins á þremur dögum. Mikill áhugi vaknaði á áframhaldandi tónlistarnámi. 

Auk þess að hafa Heiðu hjá okkur voru einnig þrír gestanemendur sem hlupu þar með í skarðið fyrir þrjá nemendur sem eru í fríi. 

Foreldrar hafa fengið send myndbönd af uppskeruhátíðinni og myndir frá vikunni á myndasíðu skólans. 

Nú eru nemendur komnir í frí frá skóla fram á miðvikudag í næstu viku og eiga vonandi gleðiríka daga framundan.