VALMYND ×

Áfram höldum við með öfluga námsdaga í G.Ö.

Kampakátir kennarar í vettvangsferð hjá Arctic fish
Kampakátir kennarar í vettvangsferð hjá Arctic fish
1 af 6

Þó ekki sé hlýtt nú í maí er ekki hægt að kvarta yfir veðrinu þar sem lognið leikur yfirleitt við okkur og sólin skín. Í dag fóru allir nemendur skólans ásamt kennurum til Þingeyrar í þeim tilgangi að kynnast fiskeldi Arctic fish í Dýrafirði.

Þegar heim var komið sögðu þau mér ferðastöguna. Keyrt var á einkabílum til Þingeyrar og þar niður á bryggju þar sem allir fóru í björgunarvesti áður en haldið var út á fjörð.  Benedikt fékk það hlutverk að leysa landfestar, lyfti reipinu af pollanum (þarna bættust nokkur safarík orð við fyrri orðaforða nemenda). Báturinn sem þau fóru um borð í heitir Arnarnes og var siglt út að laxeldiskvíunum. Signý beit ugga af laxi af því hana langaði að prófa eins og laxveiðimenn gera við sinn fyrsta lax.

Það var margt sem krökkunum fannst merkilegt í þessari ferð og hafa þau greinilega verið áhugasöm. Meðal þess sem þau sögðu mér var að það séu 3 milljónir laxa í kvíunum í Dýrafirði. Þeim fannst mjög fyndið að sjá laxinn stökkva. Þau fóru líka út á prammann. Og þeim fannst mjög áhugavert að sjá allan tæknibúnaðinn sem er í Blábankanum, t.d. myndavél sem sýnir laxinn í sjónum, hvernig hægt er að fylgjast með hitastigi og súrefninu og mörgu fleiru þaðan. Hvernig maturinn fer í gegnum rör og dreifist með dreifara sem snýst. Þau sögðu mér líka að maturinn væri búinn til úr fiskiafurðum. Ég vildi að ég hefði komist með í þessa ferð því það er svo augljóst að þó maður fái greinargóða lýsingu þá er mun auðveldara að læra hlutina með því að vera á staðnum. Það er óvíst að ég fari rétt með allt sem mér var sagt en krakkarnir eiga eftir að búa lengi að þessum fróðleik. 

Önnur viðfangsefni vikunnar voru fjallahringur Önundarfjarðar sem er í vinnslu á yngsta- og miðstigi. Greinaskrif vegna skólablaðs þar sem allir nemendur leggja eitthvað til. Unglingastigið brá sér á kajak einn góðviðrisdaginn. 

Í næstu viku fara unglingarnir í skólaferðalag um Ísland. Yngri nemendurnir fá heimsókn frá starfsmönnum umboðsmanns barna, fara í sauðburð, á kajak, skoða æðarvarp og annað fuglalíf. Já þau eru ótalmörg tækifærin sem felast í fámenninu og gera okkur auðvelt fyrir í að standast kröfur um fjölbreytt skólastarf.

Bestu kveðjur og góða helgi