VALMYND ×

Fréttir af liðinni viku 6.-10. febrúar

Vifta eða spaðar í smíðum.
Vifta eða spaðar í smíðum.
1 af 9

Skólastarfið í Grunnskóla Önundarfjarðar ber ávallt merki fjölbreytni og áskorana. Nálgunin er gjarnan í gegnum verklega vinnu og leik en með þeim hætti skila vísindin sér jafnvel enn betur.

Það sem fyrst og fremst stendur upp úr í vikunni er án efa Hebocon GÖ, sem er eins konar súmóglímu-vélmennakeppni. Á þriðjudaginn tíndu nemendur miðstigs saman allskyns rusl og dót sem talið var henta vel til vélmennagerðar. Allur miðvikudagurinn fór svo í skissugerð, vélmennasmíði og almenna tilraunastarfsemi. Vélmennasmiðjunni lauk svo á fimmtudagsmorguninn með æsispennandi keppni. Allir nemendur stóðu sig með prýði alla vikuna og fengu þau öll viðurkenningarskírteini. Að auki voru veitt verðlaun fyrir frumlegasta vélmennið, það vélmenni sem sigraði á keppnisbraut og loks það vélmenni sem virkaði verst. Öll skrifuðu þau svo skýrslu um vinnuna. 

Annað sem stendur uppúr í vikunni er að sólin lét loksins sjá sig en vanalegur dagur fyrir sólarpönnukökur á Flateyri er 25. janúar en nú sáum við hana fyrst 8. febrúar og að sjálfsögðu skellti skólastjórinn sér í að steikja pönnukökur fyrir alla unga sem aldna og naut þar aðstoðar nemanda.

Og svo var jú enn einn hápunkturinn að Celebs buðu okkur öllum að koma á Vagninn og heyra þau spila. 

Við tökum með gleði á móti nemendum sem tengjast eyrinni og langar að vera með okkur í skólastarfinu. Þessa vikuna voru hvorki meira né minna en þrír slíkir á miðstiginu og því tímabundin 75% fjölgun þar. Öll tóku þau virkan þátt í öllu sem við erum að fást við í skólanum og tóku án efa skemmtilega reynslu með sér og auðguðu okkar starf sömuleiðis. 

Næsta vika verður stutt skólavika en nemendur verða í fríi frá miðvikudegi til föstudags (miðvikudagur er starfsdagur og fimmtudagur og föstudagur eru vetrarfrísdagar). 

Þar sem vetrarfríið er í næstu viku verður sú nýbreytni að öskudagurinn verður skóladagur og munum við skipuleggja hann eins og slíkum degi sæmir.