Fréttir af skólastarfi
Skólastarfið gengur vel og er gaman að heyra og sjá hvað nemendurnir eru ánægðir með veðurfarið þrátt fyrir að finnast snjórinn og frostið líka vera æði :)
Við erum byrjuð að forrækta grænmeti og sumarblóm og von bráðar verða allir gluggar fullir af litlum plöntum sem vaxa allt of hratt :) Vonandi verður veðrið eftir páska eins gott og núna en þá stefnum við á að færa plönturnar út í gróðurkassana.
Íþróttirnar hafa, einhverju leyti, færst út og fá nemendur nú kennslu í frisbígolfi. Við eigum þennan flotta frisbígolfvöll og sýna nemendur mjög góða takta.
Þegar veðrið skartar sínu fegursta stækkar skólastofan. Nemendur á yngsta stigi fóru í fjöruna og tóku stafamottuna með sér. K-fyrir kött en það er spurning hvort að köturinn hafi skilið verkefnið og setið kjurr á sínum staf.
Vestfjarðarmótið í skák er á morgun og sendum við í GÖ auðvitað alla þá nemendur, sem vilja, af stað í þá keppni. Þau hafa verið að æfa sig á skákreglunum og að tefla með klukku. Ég sit með hjartað í buxunum af spenningi þegar þau hafa verið að taka æfingaskákir svo mikil er einbeitingin, hraðinn og spennan.
Mið- og unglingastig er þessa dagana að vinna að nýsköpunar- og hönnunarverkefni í samvinnu við Fab Lab. Miðstigið stefnir á að senda sínar hugmyndir og afurðir í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Þetta er afar spennandi verkefni og aldrei að vita nema það verði til vara eða hönnun sem hægt verður að sýna á árshátíðinni sem verður 9. apríl.
Undirbúningur fyrir árshátíðina er hafinn og þemað í ár verður brúðuleikhús. Eins og fyrri ár er árshátíðin algjörlega skipulögð af nemendunum með stuðningi frá kennurum. Að þessu sinni fengum við liðsauka úr nærsamfélaginu okkar en hann Juraj Hubinak kom til okkar með innblástur og fræðslu um brúðuleikhús, auk þess sem hann sýndi okkur mismunandi tegundir brúða. Juraj er HÁmenntaður á þessu sviði og erum við mjög heppin að fá hann til liðs við okkur. Krakkarnir eru afar spenntir og hlakkar mikið til árshátíðarinnar.
Í síðustu viku tóku unglingastigin úr grunnskólunum á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri þátt í Krakkar Filma! Námskeiði á vegum UngRIFF. Þau unnu fimm stuttmyndir byggðar á vestfirskum þjóðsögum undir handleiðslu leikstjórans Erlings Óttars Thoroddsen. Afraksturinn verður sýndur á Barnamenningarhátíð Vestfjarða sem fer fram dagana 31. mars - 11. apríl. Námskeiðið tókst mjög vel og fengu krakkarnir mikið hrós frá leikstjóranum. Hér fyrir neðan er hlekkur á dagskrá Púkans þar sem hægt er að sjá nánari upplýsingar:
https://www.vestfirdir.is/is/verkefni/menning/pukinn/pukinn-vidburdir
Bókmenntahátíð Flateyrar, sem Helen skipuleggur, verður haldin helgina 27. - 30. mars. Við grunnskólanum tökum þátt í þeirri hátíð og hvetjum við ykkur til þess að skoða dagskrána og taka þátt í þeim viðburðum sem eru í boði.