Fréttir frá vikunni 19-23. sept
Fréttir af starfsfólki:
Í síðustu viku hóf nýr starfsmaður störf hjá okkur, Viktor Páll og leysir þau verkefni sem átti eftir að manna. Viktor verður starfsmaður dægradvalar en það er langt síðan við höfum haft eins stóran hóp i dægradvöl eins og nú er eða 10 börn. Auk þess að vera með dægradvölina verður Viktor með smíðakennslu, heimilisfræði og íþróttir.
Jóna Lára kennir sundið ásamt því að vera með umsjón yfir yngri hópnum og kenna þeim eldri dönsku og vera með útieldhús fyrir báða hópa.
Mekkín er með umsjón yfir eldri hópnum og kennir báðum hópum tónmennt.
Sunna kemur inn í íslenskutíma í báðum hópum auk þess sem hún sér um jóga, hugleiðslu og slökun.
Agata er skólaliði og sér um að halda öllu hreinu og snyrtilegu auk þess sem hún fer út með nemendum í frímínútum og í mat í hádeginu.
Og þetta er að segja af náminu:
Í lestrinum hefur mínútlestri verið bætt við til viðbótar við yndislestur og eru nemendur iðnir og keppast við að bæta eigin árangur. Þau á miðstiginu eru einnig að rifja upp orðflokkana. Í dönsku og ensku hefur áherslan verið á lestur, lesskining, orðaforða og orðflokka. Leikurinn Wordle /orðla hefur vakið mikla lukku í enskutímum.
Hjá þeim yngri er einnig yndislestrarstund hvern dag og í íslenskutímum unnið með lestur, lesskilning, orðaforð og ritun.
Í stærðfræðinni vinna þau yngstu með tölur, talningu og talnaskilning á fjölbreyttan og hlutbundinn hátt og þau eldri hafa verið að æfa sig í margföldum, spilað ýmsa stærðfræðileiki og öll vinna þau einnig í Minecraft education.
Haustþemað er vinna með umhverfið og í þessari viku voru teknar upp kartöflur og gerðir kartöfluklattar og vallhumals- og myntute í útieldhúsinu. Einn nemandi kom með sveppi (gorkúlur) til okkar í skólann sem voru steiktir í olíu og smjöri og smökkuðust einsog popp.
Yngri nemendurnir eru að gera umhverfisbók. Plöntur og laufblöð sem þau fundu við skólann eru komin í pressun. Þetta verður svo límt inní bók sem þau búa til. Markmiðið er að allir búi til sína eigin bók með jurtum, þörungum og smádýrum úr umhverfinu sínu.
Þau eldri eru að læra um fjöruna og halda dagbók til að fylgjast með sjávarföllunum og útliti fjörunnar. Í samfélagsfræði eru þau að læra um Evrópu. Á fimmtudaginn unnu þau í uppbyggingarstefnunni og fóru yfir það saman hvað gerir góðan skóla og góðan bekk. Auk þess skilgreindum þau hlutverk nemenda og hlutverk kennara.
Á þriðjudaginn gerðu eldri nemendur teikningastækkara (e.pantograph), sem er tól sem hægt er að nota til afrita og skala myndir.
Á fimmtudaginn fóru allir nemendur í skutlukeppni og rauf sú langdrægasta 10 metra múrinn.
Þetta er brot af því sem fengist er við í Grunnskóla Önundarfjarðar og gefur ykkur vonandi innsýn í það fjölbreytta og skapandi starf sem hér er unnið með það að markmiði að rækta hæfileika einstaklingsins og gera nemendur jafnt góða sem fróða.
Sýn Grunnskóla Önundarfjarðar er að allir hafa hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur.