VALMYND ×

Grunnskóli Önundarfjarðar - starfið næstu vikur

Skólastarf í Grunnskóla Önundarfjarðar 16. mars – 13. apríl 2020

Daginn í dag notuðu starfsmenn grunnskólans til að undirbúa þær breytingar sem bregðast þarf við vegna samkomubanns sem stjórnvöld hafa fyrirskipað næstu fjórar vikurnar til að hefta útbreiðslu COVID-19. 

Kennsla

Lítil sem engin röskun verður á námi yngra stigsins og næst að halda uppi öllum kennslustundurm nema einni og verður sú breyting að skóladegi lýkur 13:15 í stað 13:55 á miðvikudögum (danstími sem fellur niður).  Á unglingastigi falla niður tímar í vali sem sótt hefur verið á Ísafjörð. Þar sem kennarar mega ekki koma á milli skóla verða danstímar með öðru sniði en vanalega. Íþróttatímar verða nýttir í útivist og gönguferðir. Að öðru leyti verður kennsla með hefðbundnu sniði. 

 

Hreinlæti

Í dag voru öll leikföng og kennsludót tekin og sótthreinsuð.  Notkun leikfanga verður  skipulögð þannig að náist að þrífa þau á milli og sumt tekið úr notkun tímabundið. Einnig voru stóla og borð og snertifletir teknir í gegn. Í lok hvers dags verða allir snertifletir sótthreinsaðir til viðbótar við almenn þrif sem fara fram alla daga. Handþvottur með sápu er almennur eftir salernisferðir og fyrir matmálstíma en hefur að undaförnu verið aukinn og er spritt staðsett á öllum starfsstöðvum. Almennt á hvor hópur að halda sig í sinni stofu og samvinna  og samgangur milli hópa verður mjög takmarkaður. 

Umgengni

Foreldrar sem eiga erindi í skólann eru beðnir um að gera vart við sig í anddyri þar sem ekki er æskilegt að fá gesti inn á þessu tímabili. Þeim foreldraviðtölum sem ekki er þegar lokið verður frestað fram yfir páska. Nemendur fara ekki á milli skólabygginga og þar af leiðandi fellur kennsla skólahóps í grunnskólanum niður umrætt tímabil.

 

Matmálstímar

Matur verður sóttur og snæddur í skólahúsinu, unglingarnir verða með matarborð í kennslustofu sinni en yngr nemendurnir borða á gangi á efri hæð. Starfsmaður skammtar mat. Boðið verður upp á ávexti áfram en þeir verða ekki hafðir í sameiginlegri skál heldur fær hver og einn sinn skammt afhentan. 

Veikindi
Engin hvorki kennari né nemandi mæti í skólann sé hann með flensulík einkenni, s.s. hálsbólgu, kvef, beinverki og hita.

 

Við gerum öll okkar besta til að sporna við útbreiðslu veirunnar og vernda hvert annað með því.