VALMYND ×

Lestrarátak í byrjun skólaárs

Í Grunnskóla Önundarfjarðar hefur nú hafist spennandi lestrarátak sem stendur yfir næstu fimm vikurnar. Markmið átaksins er að efla lestrarfærni og lestrargleði á sama tíma.

Hvernig virkar lestrarátakið?

Lestrardagbók: Kláraðar bækur eru skráðar í bókadagbók. Eins og staðan er í dag þá hafa nemendur lesið 32 bækur og 1690 blaðsíður (þær bækur sem búið er að skrá) og þeim fjölgar á meðan að ég skrifa þennan texta. Þetta er aðeins upphafið og búist er við að þessi tala hækki á ógnarhraða á næstu dögum.

Lestrarbingó: Allir nemendur hafa fengið bingóspjald. Fyrir eina fullkláraða línu fá nemendur óvæntan glaðning og fyrir fullt spjald fá þeir einn valtíma.

Heimalestrarmiðar: Nemendur skrá á lestrarmiða fyrir hvern dag sem þeir lesa heima. Lestrarmiðarnir eru hluti af skemmtilegu verkefni þar sem við erum að safna í heimalestrarorminn okkar í skólanum!

Þegar lestrarátakinu lýkur þann 14. febrúar verður uppskeruhátíð þar sem nemendur hafa valið að hátíðin verði tengd almennum kósýheitum – kvikmynd, yndislestur, góðgæti, spil, teppi, bangsar og koddar.

Þetta er sameiginlegt átak heimili og skóla og erum við afar ánægð með að þátttaka hafi verið frábær strax frá fyrsta degi. Hérna í skólanum sé ég áhuga, metnað og mikla kappsemi og gaman að sjá nemendur lesa í hverju hornu og ræða lestur sín á milli.

Við hlökkum til að fylgjast með framhaldinu!