VALMYND ×

Nemendaþing

Umræðuhringur í þnglok
Umræðuhringur í þnglok

Í síðustu viku héldum við nemendaþing í skólanum í tilefni af Degi mannréttinda barna sem er 20. nóvember ár hvert. Þetta er í fyrsta sinn sem við sem nú störfum við skólann höldum nemendaþing en áður höfum við farið með nemendur á stórt nemendaþing sem haldið var af Ísafjarðarbæ og einnig tókum við þátt í einu nemendaþingi á Suðureyri. Yfirskrift nemendaþingsins okkar var Umburðarlyndi. Vinnan á þinginu var í formi hópavinnu og voru kennarar ritarar í hópunum. Eftirfarandi spurningum  var svarað á þinginu:


1. Af hverju skiptir máli að líða vel í skólanum?
a) Hvað geta nemendur gert svo öllum líði vel í skólanum
b) Hvað getur starfsfólk gert svo öllum líði vel í skólanum?


2. Af hverju er umburðarlyndi mikilvægt í skólanum?


3. Hvernig myndar maður (býr maður til) jákvæða stemningu í skólastofunni?


Nemendaþingið gekk mjög vel og var gaman að sjá og heyra að öll tóku þátt í umræðunni. Þegar börnin voru spurð hver tilgangurinn væri með nemendaþingi, stóð ekki á svari: Til þess að raddir barna fái að heyrast. 

Þegar búið var að fara hringinn og allir hópar höfðu svarað spurningunum var tekin umræða um skólasáttmálann okkar og settar niður á blað hugmyndir að því hvað þau vilja að sé í skólasáttmála og hvaða gildi er mikilvægt að endurspegli hann. Gildi Grunnskóla Önundarfjarðar eru gleði, virðing, metnaður og ábyrgð. Von bráðar verðum við búin að koma skólasáttmálanum upp á vegg.