Skólafréttir
Í dag lauk Barnamenningarhátíðinni Púkinn sem staðið hefur yfir síðustu tvær vikur. Við fórum á lokahátíð sem haldin var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar fengum við að sjá brot af því sem gert hefur verið um alla Vestfirði og síðan héldu Gunni og Felix uppi fjörinu og fengu okkur til að syngja og dansa sem var mjög skemmtilegt.
Í vikunni kláruðu krakkarnir að skrifa ,,Sumarið mitt - myndir og minningar" sem eru frásagnir út frá mynd úr sumarfríinu. Sögur yngra stigisin hanga í glugga skólans þar sem gestir og gangandi geta staldrað við og lesið ein einnig var sögum frá nemendum allra grunnskólanna safnað saman á vef Púkans pukinnhatid.is/smasogur þar sem gaman er að lesa um ólíkar upplifanir frá sumrinu.
Við fengum Völu frá Amnesty International í heimsókn til miðstigsins og kynnti hún samtökin fyrir nemendum, hin ýmsu mannréttindaþemu og mannréttindi í víðu samhengi.
Önnur heimsókn sem við fengum fyrir alla nemendur var frá Evu Rún Þorgeirsdóttur rithöfundi og Blæ Guðmundsdóttur teiknara en þær voru með verkefnið Svakalegar sögur sem er á vegum List fyrir alla. Þeirra innlegg var um það hvernig allir geta fengið hugmyndir og búið til sögur og hvers vegna það er mikilvægt að æfa ímyndunaraflið. Nemendur tóku þátt í að skapa sögupersónu sem fékk nafnið Rúbý AB og sömdu svo sögu hennar sem litaðist af allskyns ævintýrum.
Örnefnaverkefnið okkar varð umfjöllunarefni nemenda í frétt sem þau sendu til BB og má lesa hér Frétt frá Púkunum í Grunnskóla Önundarfjarðar . Eftir að fréttin af verkefninu birtist hafði áhugasamur heimamaður, Gumbi, samband og ætlar hann að fræða nemendur enn frekar um örnefni í nágrenninu. Það verður heldur betur spennandi að sjá og upplifa hvert þetta verkefni leiðir okkur.