VALMYND ×

Skólafréttir febrúar

Nú er febrúar hálfnaður og ýmislegt búið að ávinnast í námi í Grunnskóla Önundarfjarðar. 

Í námi utan skólahúss má nefna að í síðustu viku fórum við í skíðaferð í Tungudal. Í þessari ferð kom í ljós ýmis hæfni sem nemendur búa yfir og má þar fyrst nefna seiglu og þrautseigju. Þessa eiginleika reyndi meðal annars á við að ná tökum á því að taka lyftuna á skíðum eða á bretti. Einnig reyndi á þessa hæfni þegar farið var á toppinn og þurfti að finna réttu leiðina niður eða hjálpa þeim sem lentu í erfiðleikum. Það má nefna svo marga aðra styrkleika sem komu fram og nemendur gátu tínt til við upprifjun á ferðinni; þolinmæði, styrk, þol, hjálpsemi og jafnaðargeð svo eitthvað sé nefnt.

Fimmtudaginn 11.2 fórum við aftur út fyrir skólalóðina til að læra og í þetta skiptið til að kynnast starfsemi Björgunarsveitarinnar Sæbjargar í tilefni af 112 deginum sem haldinn er ár hvert til að minna á neyðarnúmerið. Fyrst fórum við á leikskólann þar sem verið var að færa yngstu börnunum sýninguna heim og síðan héldu grunnskólanemendur ásamt eldri hópi leikskólans áfram í nýja björgunarsveirarhúsið. Þar fengu nemendur smá fróðleik um tilgang dagsins og björgunarsveitina og að lokum fengu þau að skoða tæki sveitarinnar. Þess má einnig geta að 112 dagurinn þetta árið er helgaður öryggi og velferð barna og ungmenna og fengu allir foreldrar póst frá skólahjúkrunarfræðingi með nánari upplýsingum þar um. 

Viðtöl nemenda, foreldra og kennara fóru fram í síðustu viku. Þar var staðan tekin með áherslur á framhaldið að leiðarljósi. 

Á miðvikudaginn, 17. febrúar, er starfsdagur og munum við þá vinna ýmis verkefni í skólahúsnæðinu og meðal annars fara yfir áætlanir okkar og skerpa línurnar í því hvernig við höldum áfram veginn með áherslur á lykilhæfni og aukna þátttöku nemenda í mati og áherslum í sínu eigin námi.

Fimmtudagurinn 18. og föstudagurinn 19. febrúar verða vetrarfrísdagar. Ég vona að allir njóti þeirra daga og komi endurnærðir til náms mánudaginn 22. febrúar. 

 

Bestu kveðjur 

Sunna