VALMYND ×

Skólafréttir og páskáfrí

Árshátíð skólans var núna 9. apríl og stóðu krakkarnir sig frábærlega vel. Þau voru búin að leggja á sig mikla vinnu og uppskáru heldur betur eins og þau sáðu, mikil ánægja og fengu þau mikið og verðskuldað hrós.

Nemendur á miðstigi sendu einnig inn hugmyndir sínar í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Annarsvegar „Veiðihjólastand “ og hinsvegar „Kattaferðastand“. Hugmyndin verður þróuð áfram í samstarfi við FabLab og aldrei að vita nema að þið sjáið auglýstar vörur til sölu innan skamms.

Barnamenningarhátíðin Púkinn var þessa vikuna og sóttu nemendur GÖ viðburði tengda henni.

Leikkonan Birgitta Birgisdóttir bauð nemendum á miðstigi í öfluga og skapandi leiklistarsmiðju, þar sem unnið var eftir aðferðum Theatre of the Oppressed. Í smiðjunni fengu nemendur að kanna eigin rödd, tjá sig í gegnum leiklist og takast á við raunveruleg viðfangsefni á kraftmikinn og skapandi hátt.

Frach bræður komu í Flateyrarkirkju með tónleikadagskrána Árstíðir fyrir nemendur frá Flateyri og Þingeyri. Mögnuð upplifun fyrir krakkana sem spiluðu Vivaldi hérna í morgunsárið og rifjuðu upp góða takta hjá bræðrunum. Topp fyrirmyndir.

Í byrjun mars tóku unglingastigin úr grunnskólunum á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri þátt í Krakkar Filma! námskeiði UngRIFF. Þau unnu fimm stuttmyndir byggðar á vestfirskum þjóðsögum undir handleiðslu leikstjórans Erlings Óttars Thoroddsen. Nemendur GÖ fengu að sjá afraksturinn í dag og vöktu þær mikla lukku og voru þau mjög áhugasöm.

Síðasti dagur fyrir páskafrí var óhefðbundinn – páskaföndur – 52 spil – borðspil – píla – fótbolti og síðast en ekki síst PÁSKAEGGJALEIT. Í dægradvöl hélt þessi notalega setmmning áfram með poppi og bíómynd.

 

Góða páska til ykkar allra